• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Bruce Springsteen – We Shall Overcome: The Seeger Sessions

 • Birt: 04/09/2002
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 5

Bruce Springsteen - We Shall Overcome: The Seeger Sessions
Einkunn: 4
Utgafuar: 2005
Label: adlsfkj

Á sama tíma og þessi plata er hreinræktað kántrí þá er hún á einhvern hátt líka hreinræktað rokk.

Sleppið takinu af fordómunum sem þið hafið til kántrítónlistar og hlustið á þessa plötu. HLUSTIÐ! Hérna heyrið þið alvöru kántrí, ekki eitthvað gelt glansandi útvarpsbull eins og það sem Nashville drullar út á hverjum degi. Þetta er alvöru. Það er næstum hægt að finna lyktina af sveitinni ef maður lokar augunum.

Á sama tíma og þessi plata er hreinræktað kántrí þá er hún á einhvern hátt líka hreinræktað rokk. Hérna er að finna hina einu sönnu Amerísku söngbók, ekki það sull sem Rod Stewart hefur verið að senda frá sér. Þetta er Ameríka. Rokkið í þessari plötu er grófleikinn og gleðin sem hérna hefur tekist að fanga – og svo rokkar platan einfaldlega.

Þetta er tónlist sem hefur verið að týnast og gleymast af því að kántrí-heimurinn, alveg eins og poppið, er búinn að taka sér Mammon í faðminn og vill bara græða peninga. Þegar það gerist þá líður listin fyrir og tónlistin er ekki lengur í fyrsta sæti. Forgangsröðin verður önnur. Hér er tónlist sem er sköpuð af viljanum til að spila saman og hafa gaman, viljanum til að skapa tónlist en ekki selja boli eða komast í sjónvarpið með flott myndband, viljanum til að kynna þessa tónlist fólki uppá nýtt.

Á köflum hljómar Springsteen eins og Bob Dylan, á öðrum eins og Tom Waits. Röddin í honum virðist sömu eiginleikum gætt og vín. Hún verður betri með aldrinum. Það er eins og maður heyri í rödd hans alla reynsluna, allar mílurnar sem hann hefur ferðast og allt fólkið sem hann hefur hitt. Ég hef aldrei verið neinn sérstakur Springsteen fan, hann hefur átt góða spretti en það er langt siðan Born In The USA kom út.

Eins og í allri góðri þjóðlagatónlist fjalla lögin um stríð, fátækt og erfiði hins daglega lífs, en á sama hátt er tónlistin hress og jákvæð þegar það á við. Það skín í gegn á þessari plötu að tónlistarfólkið er að skemmta sér. Auk þess fylgir dvd-diskur með heimildarmynd um gerð plötunnar og þar sést það greinilega. Allir skælbrosandi með vín í hönd og svei mér þá ef Bruce karlinn er ekki bara vel við glas. Í bæklingi er að finna upplýsingar um hvert lag fyrir sig og hver saga þess er. Taka ber fram að pakkningar á þessum disk eru afar flottar og vel gerðar.

Þessi plata er tekin upp læf og það heyrist. Springsteen smalaði saman hóp af vinum sínum og taldi í þessi lög nánast án neins undirbúnings. Stundum er hægt að heyra hann kalla til þeirra sem eiga að tala sóló: “Trumpet!“… Banjo!”…. og einnig kallar hann til þeirra hljómaskiptingar og telur inn í vers. Þetta er eins og upptaka af góðu glöðuballi í miðri Ameríku eða uppí Fljótsdal.

Þessi tónlist er ekki flókin, hún er einföld og hrá og hún hreyfir við mér eins og fátt annað gerir þessa dagana. Það er eitthvað við hryninn sem fær mig til að brosa, fær mig til að dansa og gleðjast, og svo er líka eitthvað við þetta svo sorglegt og fallegt líka.

Ég uppgvötaði The Band um daginn við að horfa á The Last Waltz og mér og vinum mínum varð tíðrætt um tilfinninguna sem fylgdi þeirri tónlist sem á sér rætur í Amerísku þjóðlagahefðinni. Við vorum sammála að þarna færi fólk sem væri að spila tónlist til þessa að spila tónlist og segja sögur en ekki til þess að selja boli. Bruce Springsteen er ekki að selja boli á þessari plötu.

Hvernig tókst Bruce Springsteen að gera eina bestu kántríplötu sem undirritaður hefur heyrt? Ég get ekki svarað því og í rauninni er mér alveg sama því ég er of upptekinn við að fíla þetta í ræmur.

Mig langar út í sveit.

5 Athugasemdir

 1. Árni Viðar · 04/06/2006

  Nebraska með Bruce Springsteen hafði líka töluverð áhrif á alt-country geirann…restin af því sem hann hefur gert er hins vegar frekar slappt og einhvern veginn hef ég engan áhuga á að kynna mér þessa plötu. bíð bara eftir næstu Will Oldham plötu!

 2. ioi · 04/06/2006

  Þetta eru allt lög sem Pete Seeger hefur verið að syngja.Hún var nú ekki slæm síðasta plata Springsteen,var ofarlega á
  árslistum flestra popptímarita.

  kv ioi

 3. b. jóns · 05/06/2006

  Það hefði nú verið allt í lagi að geta þess í dómnum að Springsteen er þarna að taka lög sem tónlistarmaðurinn Pete Seeger samdi og eða gerði fræg, eg hef alltaf talið hann meiri þjóðlaga en kántrýtónlistarmann

 4. einar mk · 16/06/2006

  eg verd nu ad segja ad þessi plata er slatta góð. var ad hlusta a hana hja felaga minum og viti menn hun er kanski þess virði ad kaupa 🙂 etta er natulega bruce sprinsteen sem er ad singja svo ju ætli madur skelli ser ekki a hana 😀

 5. Grétar Amazeen · 27/01/2007

  The Band er besta hljómsveit sem nokkurn tíman hefur komið nálægt Country/Folk stefnunum.

Leave a Reply