• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

The Magic Numbers – The Magic Numbers

  • Birt: 17/10/2005
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

The Magic Numbers - The Magic Numbers
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2005
Label: EMI

… svipað og dyravörður á ripped fuel, byrjar sterkur og einbeittur en lendir svo snöggt og harkalega á jörðinni

Það er byrjað að hausta, eilíf helvítis rigning og styttist æ meir í dimman vetur. Á meðan laufin sofa liggja spaðarnir andvaka og það allt en engin ástæða til að vera með neitt volæði. Með þessa plötu í eyrunum er eilíft sumar, candyfloss og helíum blöðrur, hæ hó jibbí jey.

The Magic Numbers hafa ekki þetta venjulega poppstjörnu útlit sem maður er orðin vanur í sterílu markaðsumhverfinu sem stjórnar tónlistinni í dag og því er svo gaman að sjá þau slá svona í gegn og fá alla þessa athygli. Mikið búið að skrifa um bandið og blása þau upp, þau standa bara undir flestu því sem er sagt um þau og það er vel. Í dag eru þau að fá mesta umfjöllun fyrir að hafa verið tilnefnd til Mercury verðlauna og fyrir að hafa gengið útur Top of the Pops eftir að kynnir þáttarins gerði grín að stórum vexti hljómsveitarmeðlima.

Tvenn systkini (Romeo og Michele Stodart og Sean og Angele Gannon) hér á ferð sem að ólust upp saman og henda frá sér alveg fáránlega heilsteyptri plötu sem að getur ekki fengið mann til að gera annað en brosa enda lítið annað hægt þegar að hress gítarstef og raddanir sem að minna á Beach Boys ráða ríkjum, hvað er hér til að klikka?

Ef þú dillir ekki mjöðmunum létt í takt við lag eins og „Love Me Like You Do“ ertu í svipuðu ástandi og Walt Disney, frosinn og ég veit ekki hvað myndi láta þig afþýðast ef ekki svona gleðipopp.

„Mornings Eleven“, „Forever Lost“, „The Mule“, „Longs Legs“, „Love Me Like You Do“ og „I See You, You See Me“ eru allt lög sem að halda plötunni uppi á sinn hátt, eins ólík og þau eru. Stundum er alveg fáránlega grípandi gítar á ferðinni, feit bassalína eða bara raddanir og söngur, skiptir í raun engu þar sem þetta blandast svo allt saman í The Magic Numbers.

Þó er eitthvað við plötuna sem að pirrar mig eins og að mér finnast rólegu lögin vera of mörg þar sem hressu lögin þeirra eru svo fáránlega góð, það er svona gleðipopp sem að heillar mig svo, ekki endalaust væl um ástina og lífið í niðurdrepandi tón. Kannski mætti bæta þetta með því að skipta þeim meira upp, platan byrjar t.d. gífurlega hress og kát en slappast svo niður í eymd og volæði svipað og dyravörður á ripped fuel, byrjar sterkur og einbeittur en lendir svo snöggt og harkalega á jörðinni. Svo er þetta auðvitað ekkert nýtt, maður hefur oft heyrt svipaða hluti áður. The Magic Numbers mega alveg reyna smá áhættu en ég felli þau ekkert fyrir þetta, þau læra af reynslunni.

Hlakka til að heyra plötu númer tvö, það er alltaf hún sem er erfiðust. Kannski verða The Magic Numbers bara eitt af þessum böndum sem að gleymast en ég vona svo sannarlega ekki því nógu vel skemmti ég mér við það að hlusta á þessa plötu.

Leave a Reply