• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Isolée – We Are Monster

 • Birt: 31/10/2005
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 1

Isolée - We Are Monster
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2005
Label: Playhouse

Hvílíkur höfuðverkur fyrir hinn flokkunaróða nútímamann! Lágstemmd, vetrarleg, raftónlist sem er þó náskyld danstónlist! Hógvær danstónlist sem sækir óhikað í brunn rafpoppsins!

Hvað gerir danstónlist að danstónlist? Þessu er ekki auðsvarað, ekki síst vegna þess að nær öll tónlist er í eðli sínu danshæf, takturinn hefur verið eitt mikilvægasta hráefni tónsmíða allt frá upphafi. Síðastliðin 50 ár hefur áherslan á taktinn aukist í sífellu og sú tónlist sem við nefnum í dag dægurtónlist eða popp eða rokk eða öðrum misgóðum nöfnum var vitaskuld hugsuð sem balltónlist til að byrja með.

Orðið danstónlist er fyrst og fremst sett í samband við svonefnt hús (e. house) eða tæknó (e. techno) og allskyns afsprengi þessara tónlistartegunda. „Euro-techno“ má t.d. gjarnan heyra út um bílglugga á Laugaveginum árla kvölds þegar Imprezurnar fara á stjá. Þar sem þessi tegund tónlistar byggir fyrst og síðast á rafhljóðum er hún stundum einfaldlega nefnd raftónlist. Hitt er þó algengara að öll raftónlist sé titluð „tæknó,“ þrátt fyrir að líkindin séu nær engin. Þannig pirraði það mig gríðarlega þegar ég var yngri að sjá tónlist frá Morr Music og Warp innan um DJ Hell og Jeff Mills.

Ég komst þó yfir þennan pirring minn – þetta var vandamál plötubúðanna, ekki mitt. En þá fékk ég í hendurnar plötuna We Are Monster með Isolée. Hvílíkur höfuðverkur fyrir hinn flokkunaróða nútímamann! Lágstemmd, vetrarleg, raftónlist sem er þó náskyld danstónlist! Hógvær danstónlist sem sækir óhikað í brunn rafpoppsins! Plata sem maður ræður hvort maður stappi niður fæti við. Plata sem er svo smá í sniðum að það er auðvelt að leiða hana hjá sér, en um leið svo rík af smáatriðum að maður er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt.

Tökum sem dæmi lagið „My Hi-Matic“. Það fer af stað einsog lágstemmdur hússmellur sem færi ekki illa á naumhyggjulegum (og rándýrum) bar í New York. Smátt og smátt læða sér falskar hljóðgervilslaglínur inn þar til maður spyr sig hvort þetta sé í raun endurhljóðblöndun einhvers dansmógúlsins á nýju efni frá Boards of Canada. Lagið fetar stíginn sem er þarna á milli af mikilli festu, bregður sér til beggja hliða en dettur aldrei algjörlega til dans- eða sveimhliðarinnar.

Notkun Isolée á stuttum og fönkuðum gítar- og bassagrúvum ljær plötunni skemmtilega lífrænan blæ gagnvart stálkaldri ytri umgerð hennar. Það er plötunni einnig til tekna að þrátt fyrir kalda umgjörðina virðist Isolée hafa ákveðinn húmor fyrir því sem hann (eða hún? Ég veit ekkert um listamanninn sjálfan. Eða er þetta hljómsveit?) er að gera og hikar því ekki við að setja inn hljóð sem eru jafnvel kjánaleg og kippa þeim samstundis út. Titill lagsins „Jelly Baby / Fish“ er til vitnis um þetta, en þar er á ferðinni einhverskonar lágstemmdur virðingarvottur til old-skool hardkorsins sem tröllreið danstónlistarheiminum fyrir 15 árum síðan – líka afskaplega „kjánaleg“ tónlist, uppfull af húmor.

Þó að platan haldi sig að mestu við hefðbundin 4/4 húsgrúv í taktsmíðinni þá víkur hún frá þeim annað slagið, t.d. í laginu „Today,“ sem er einhverskonar rafgítarpopp með áherslu á raf og gítar sem kemur manni síðan stórkostlega á óvarft með víbrafónsólói sem er grafið aftarlega í hljóðmyndinni. Það skal líka haft í huga að það sem ég kalla hér hefðbundin húsgrúv er miklu smærra í sniðum en þau kraftmiklu grúv sem við þekkjum af Kaffibarnum aðfaranótt sunnudags. Þetta er naumhyggjuhús og skammast sín ekki fyrir það.

Þannig er það er algjörlega undir hlustandanum komið hvort hann kýs að skilja plötuna sem dansplötu eða sem lágstemmda rafplötu. Öll helstu hráefnin úr hvorri átt eru til staðar og spurningin um hvort We Are Monster er dansplata eða eitthvað annað mun kannski verða jafnvinsæll vitnisburður um persónu fólks og spurningin um glasið hálffulla – eða hálftóma. Ég mun fyrir mína parta reyna að leiða spurninguna hjá mér, stappa niður fætinum, en draga samt teppið upp fyrir haus.

1 Athugasemd

 1. Helgi Már · 28/11/2005

  Fín grein um góða sveit. Skemmtilegar athugasemdir um genre skipan danstónlistarinnar hehe
  kv, hmb

Leave a Reply