• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Benni Hemm Hemm – Benni Hemm Hemm

 • Birt: 08/11/2005
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 6

Benni Hemm Hemm - Benni Hemm Hemm
Einkunn: 3
Utgafuar: 2005
Label: (Smákökur / 12 Tónar)

Ég er ekki hissa á því að Benni Hemm Hemm sé með brjálaðan tónleikaorðstír, a.m.k. vantar ekki fúttið.

Benedikt H. Hermansson, einnig þekktur sem Benni Hemm Hemm, gefur hér út fyrstu sólóplötuna sína hjá 12 Tónum, eftir að hafa verið í hljómsveitinni Rúnk. Benni fær marga til liðs við sig og skartar platan alls tólf hljóðfæraleikurum sem aldeilis magna upplifunina. Tónlistinni má lýsa sem hressilegri „alþýðutónlist” (folk) með skemmtilegum hljóðfæraútsetningum, m.a. fyrir blásara, slidegítar og sílófón. Benna tekst margt vel til en eins og gullfallega plötuumslagið gefur til kynna – þá getur útkoman varla orðið frábær eftir aðeins tvær langar upptökutarnir. Blásarar verða þreyttir í vörum og hljóðgæði eru misgóð (upptökurnar í Klink og Bank eru einkum slakar).

Platan er stutt og hnellin og rennur áfallalaust í gegn. Sum lögin eru frekar einsleit sín á milli, en í heildina gæti þó nokkurrar fjölbreytni. Skemmtilegar hugmyndir má heyra í lögum eins og „The Doomed, The Damned”, með blússkotnum gítarleik og flottu stefi og „Labba”, með hressum blásaraútsetningum og útpældum söng. Lögin ná yfirleitt hámarki þegar öll hljóðfærin koma inn í viðlögunum, þá byrjar sko gamanið. Kraftur og spilagleði einkennir plötuna, eins og heyra má í „Sumarnótt” og „Sweaty In The Sunshine”. Spilamennskan á allri plötunni er mjög góð, enda hefur hann fengið færa tónlistarmenn til liðs við sig. Á mörgum stöðum má samt heyra uppgefna lúðrara blása sitt síðasta, og er það miður.

Textinn er algjör fylgihlutur tónlistarinnar og oftar en ekki eintómt bull, með línur á borð við: „Yfir himinn undir ló / undir himin yfir /sól er sól er úti / úti og hvar sem þú ert…” Þó tekst textanum að ná ákveðinni kímni í lögum eins og „Sweaty In The Sunshine” og „I Can Love You In A Wheelchair Baby”, eitthvað sem tekst ekki jafnvel á móðurmálinu. Rödd Benedikts er viðkvæm, meðaldjúp og oft óstyrk. Hún á ágætlega við í mörgum lögum, minnir á afurðir Belle & Sebastian og jafnvel Sufjan Stevens, en hún hljómar stundum óþægilega, eins og í blús- og Tom Waits- skotna laginu „Fight”, og kaffærist í kraftmeiri lögunum.

Niðurstaðan er frekar óvönduð en engu að síður heilsteypt og hress plata sem stendur fyrir sínu. Allir sem hafa áhuga á nýju íslensku tónleikasenunni ættu að tékka á þessari. Verst er að ekki hafi verið betur vandað til, vegna þess að Benni og félagar eru þess fullfærir. Ég er ekki hissa á því að Benni Hemm Hemm sé með brjálaðan tónleikaorðstír, a. m. k. vantar ekki fúttið. Allavega ætla ég að reyna að tékka á þeim við fyrsta tækifæri.

6 Athugasemdir

 1. Björgvin Ingi · 08/11/2005

  Mér finnst platan hans/þeirra frábær. Nýtt og ferskt í flóruna okkar. „Til eru fræ“ í 4/4 og „I Can Love You In A Wheelchair Baby” eru instant heilalím.

  Skemmtilegar útsetningar, skemmtileg lög og skemmtilegur hjóðfæraleikur og söngur.

  Flott plata!

 2. Jonni · 09/11/2005

  Hér er ég Björgvini Inga alveg hjartanlega sammála sem og gagnrýnenda þegar hann segir umbúðir gullfallegar.

 3. Kári Fi · 10/11/2005

  Ég er greinarhöfundi að vissu leyti ósammála þegar hann segir plötuna óvandaða. Benna hefur tekist merkilega vel að fanga hið magnþrungna andrúmsloft sem myndast á tónleikum hans í plötuna. Þetta taldi ég nánast ógerlegt þegar ég frétti að platan væri að koma út. Hljóðgæðin voru reyndar ekkert svo góð.

 4. Kári Hólmar · 10/11/2005

  Mér finnst ekki hægt að fjalla um þessa plötu án þess að nefna áhrif austur-evrópskrar þjóðlagatónlistar á tónlistina.
  Ég hef sjaldan heyrt popptónlist flæða svona eðlilega í flóknum, ójöfnum takttegundum (7/8, 11/8 o.s.frv.). Gott dæmi um þetta er lagið “beygja og beygja”.

  Þegar heildin er skoðuð er tónlistin ótrúlega vitsmunaleg og áhugaverð blanda indie-popps og búlgaskrar/íslenskrar þjóðlagahefðar með slettu af Enio Morricone.

 5. Alexandra Kjeld · 10/11/2005

  Ég þakka kærlega góðar athugasemdir. Rétt er að það verði að tala um austurevrópsku áhrifin á plötunni. Hljóðfæraleikarar á henni eru allir afar færir og vanir spilarar, þ. á m. eru sumir meðlimir “Stórsveitar Nix Nolte”, sem sérhæfir sig einmitt í flutningi austurevrópskrar þjóðlagatónlistar (búlgarískar, rúmenskrar, o.fl). Enn aðrir hafa mikla reynslu af djassi og klassískri spilamennsku, sem gerir þeim kleift að flytja tónlist Benna Hemm Hemm án nokkurra vandræða.

 6. bió · 17/11/2005

  Hérna má bæði kaupa diskinn og fá ókeypis „I Can Love You In A Wheelchair Baby”. Það er nú ekki ónýtt.

  https://www.smekkleysa.net/shop/item.php?id=502

Leave a Reply