Coldplay á tónleikum

Coldplay á tónleikum

28. október í Forum, Kaupmannahöfn

Mörgum þykir Coldplay vera of „commercial” og rakka þá þess vegna niður. Ekki er hægt að taka af þeim að þeir kunna að búa til frábæra tónlist og eru magnaðir á tónleikum.
Fjórmenningarnir í Coldplay kunna svo sannarlega að halda „show” sem er upplifun hvort sem er sjónrænt séð eða áheyrnarlega séð. Með þrjár virkilega góðar plötur á bakvið sig hlýtur að vera ansi erfitt fyrir þá að velja hvaða lög skuli spila og manni mun alltaf finnast eitthvað vanta, því þeir eiga það mörg lög sem maður væri til í að heyra.

Áður en ég mætti á tónleikana vissi ég bara eitt, ég var að fara að sjá Coldplay og hafði í raun ekki hugmynd um hvaða upphitunarband yrði. Þegar upphitunarhljómsveitin steig á stokk og tók lagið „Utopia” vissi ég að ég ætti að kannast við hljómsveitina. Það var þó fyrr en hljómsveitin kynnti sig að ég fattaði að þarna var á ferðinni Goldfrapp. Ég hef svo sem ekki mikið hlustað á þau en kannaðist við eitt og eitt lag eins og áðurnefnt „Utopia” og svo „Ooh La La” sem var seinasta lagið þeirra og eflaust þeirra þekktasta lag hingað til. Goldfrapp gerði sitt mjög vel en það var mjög augljóst að áhorfendur könnuðust ekki mikið við efnið þeirra og því var stemmningin í salnum eftir því. Eftir sitt tíu laga sett voru ljósin kveikt, allt hreinsað af sviðinu og undirbúið fyrir hljómsveitina sem allir biðu eftir.

Þessi bið tók um 25 mínútur og þá voru ljósin slökkt og allt varð brjálað. Rauð ljós fóru um salinn og sköpuðu ákveðna stemmningu meðan „Tomorrow Never Knows” með Bítlunum hljómaði undir. Það kláraðist og annað lag þar sem textinn fjallað um hungur í Afríku að mér heyrðist, eflaust tengt Make Trade Fair, hljómaði. Svo komu meðlimir inn á og byrjuðu á „Square One”, upphafslagi X&Y. Áhorfendur voru vel með á nótunum og klöppuðu og sungu hástöfum með hverju laginu á fætur öðru.

Ég hef áður séð Coldplay á tónleikum og voru það jólatónleikarnir sem voru árið 2002 á Íslandi. Það sem ég tók eftir þá var hversu mikið Chris Martin gaf af sér til áhorfenda, sífellt að tala við þá og fá þá til að syngja með. En á þessum tónleikum var hann óvenju þögull og var það ekki fyrr en á sjöunda lagi þegar hann loksins sagði eitthvað annað en að þetta væri hljómsveitin Coldplay sem væri að spila.

Hann var að byrja á „Amsterdam” sem byrjar á píanóspili og fólk byrjaði að klappa. Hann bað áhorfendur vinsamlegast um að hætta því og sagði að á Coldplay tónleikum væri bannað að klappa ef hann einn væri að spila því hann hefði engan ryþma og hann myndi ruglast. Hins vegar mætti fólk klappa eins og það vildi um leið og trommurnar kæmu inn. Einnig baðst hann afsökunar á því að kunna ekki dönsku og þótti honum það mikil ókurteisi af sjálfum sér. Sagði hann að þetta væri ástæðan fyrir því að þeir hefðu verið svona þöglir það sem af væri því þeir skömmuðust sín fyrir að kunna ekki tungumálið. Þarna byrjaði að losna um málbeinið á honum og átti hann eftir að eftir að verða eins og ég man eftir honum frá jólatónleikunum um árið. Einnig talaði hann um hvað Kaupmannahöfn væri frábær borg og sagði að lagið sem hann væri að fara að spila gæti alveg eins heitið „Copenhagen“ og það fór ekki illa í áhorfendur.

Þegar kom að „’Til Kingdom Come”, sem er lag sem þeir tileinka Johnny Cash, komu þeir sér allir fyrir fremst á sviðinu. Will Champion, trommuleikarinn, mannaði píanóið og þarna sagði Chris okkur frá því hversu frábær trommuleikari hann er, sem ég tek algjörlega undir, og hversu fjölhæfur hann er. Í kjölfarið fylgdi mjög öðruvísi útgáfa, en þó góð, af „Don’t Panic”, upphafslagi Parachutes, þar sem hann breytti textanum yfir í Depeche Mode lagið „Enjoy the Silence”, „All I ever wanted/ All I ever needed/ Was you in my heart/ Words are very unecessary/ They can only do harm.” „Clocks” kom næst á eftir og söng allur salurinn lagið með Martin og var það ansi magnað að sjá það. Eftir uppklappið tóku allir undir „In My Place” og „Fix You” enda ein vinsælustu lög Coldplay.

Hvað varðar flutning hljómsveitarinnar á efninu þá fær hún hæstu einkunn hjá mér. Hljómsveitin er gífurlega þétt og örugg, myndefnið og ljósasýningin sem fylgdi jók á áhrif laganna. Chris Martin má síðan eiga það, hann er skemmtikraftur fram í fingurgóma sem gefur af sér til áhorfenda en þó ekki þannig að maður fær klígju út af því að hann er falskur.

Ef eitthvað er hægt að setja út á tónleikana þá er það helst að ákveðin lög sem ég hefði viljað heyra heyrðust ekki, t.d. „Sparks”, „Shiver” og „Everythings Not Lost” af Parachutes og „Low” og „Twisted Logic” af X&Y. En svona er þetta þegar hljómsveit á svona mörg góð lög, einhverju verður að fórna.

Lagalisti
Square One, Politik, Yellow, Speed of Sound, Daylight, God Put a Smile Upon Your Face, X&Y, Amsterdam (hét þetta kvöld Copenhagen), White Shadows, Scientist, ‘Til Kingdom Come, Don’t Panic, Clocks, Talk

Uppklapp
Swallowed In The Sea, In My Place, Fix You

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.