• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Daníel Ágúst Haraldsson – Swallowed A Star

 • Birt: 14/11/2005
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 5

Daníel Ágúst Haraldsson - Swallowed A Star
Einkunn: 3
Utgafuar: 2005
Label: Smekkleysa

Stórt popp með strengjum

Allt frá því að leiðir Daníels Ágústs og Gus Gus skildu fyrir fimm árum hefur hann borið þessa nýju plötu, Swallowed A Star, undir belti. Löng meðganga skilar vandaðri heilsteyptri plötu en ekki auðmeltri þó.

Á plötunni nýtur hann fulltingis Bigga Bix sem hefur alið manninn í Ameríkunni undanfarin ár. Bix vinnur útsetningar og er auk þess skrifaður, ásamt Daníel, fyrir einu lagi – önnur lög eru eftir Daníel einan.

Þetta er dreymandi fullorðinspopp, stórt popp með strengjum og miklum útsetningum þar sem sérstök rödd Daníels Ágústs leikur lykilhlutverk. Platan er alvarleg, þetta er metnaðarfullt verk eins og langur meðgöngutíminn ber með sér. Það er stefnt á hinn stóra heim, það er augljóst, enda er hún væntanleg frá One Little Indian inn á Bretlandsmarkað í febrúar. Við Smekkleysingjar fáum einir að njóta hennar þangað til.

Platan geislar ekki af leikgleði þó mörg laganna hafi fallegan og rómantískan undirtón þá er frekar að hún sé umlukin dulúð en hlýju. Hvert er Daníel eiginlega að fara með okkur? Maður er hugsi þegar maður hlustar.

Platan byrjar á „Someone Who Swallowed A Star“ sem er nánast titillag plötunnar en textinn er eftir Gabríelu Friðriksdóttur. Hann er sá eini á plötunni sem er ekki eftir Daníel Ágúst sjálfan. Annað lagið, „The Moss“, er nokkuð smellið og minnir óneitanlega á endasprett Daníels Ágústs með Gus Gus. Það er kannski ekki skrýtið því þar setti Daníel mark sitt verulega á lagasmíðar og flutning auk þess Biggi Bix var með puttana á tökkunum þá líkt og nú. Næst því að vera heilalím af lögunum á plötunni, frasinn „High on Love“ á það til að vera á vörum manns eftir hlustun á laginu.

Platan byggir mikið á samspili stafræns undirspils og kammersveitar. Gengur stundum vel upp en stundum finnst mér menn vera að reyna of mikið á veikum grunni. Útsetningarnar eru stundum betri en lögin. Lögin vinna þó á við hverja hlustun sem er einmitt kostur margra góðra platna. Lög sem við fyrstu hlustun virðast ekki mikil vinna á. Dæmi um slíkt er lagið „The Gray“ sem mér finnst nú alveg þrælflott, með skemmtilegum strengjaundirleik og flottri útsetningu en var ekki að grípa mig við fyrstu eða aðra hlustun. Eitt lag, „The Stingray“, stingur dáldið í stúf, er dekkra og drungalegra en hin lögin, en flott lag engu að síður.

Mér finnst lokakaflinn á plötunni bestur, smáskífulagið „If You Leave Me Now“ og „Sparks Fly“ standa upp úr. Bæði sterk lög sem sitja föst í hjartastað eftir nokkrar hlustanir.

Niðurstaðan er að þetta er fín plata sem þarf þó að gefa tíma. Ekki auðmelt við fyrstu hlustun. Það skal hafa í huga að þessi plata er barn sem fékk fimm ára meðgöngu, er viðkvæmt, og nálgast þarf það af alúð. Ef það er gert verður uppeldið ekkert mál, ánægjulegt og án vandræða.

Sem viðauka rétt í lokin er vert að geta þess að útgáfan er öll sérlega glæsileg. Hönnun til fyrirmyndar með flottum ljósmyndum í veglegri bók sem inniheldur m.a. texta og upplýsingar um útgáfuna. Til eftirbreytni.

5 Athugasemdir

 1. egill · 28/11/2005

  Vel skrifaður dómur, vildi bara fá að undirstrika mikilvægi þess að þessi plata þarfnast allrar þinnar athygli. Þetta er ekki plata til að hlusta á í bílnum, guð má vita að ég er búinn að reyna oft, en það hefur stundum jaðrað við útafakstri. Mæli með því að reyna frekar við þessa plötu með beltin spennt í sófanum heima. Laganna verður ekki notið með hugann við eitthvað annað.

 2. Þórunn · 01/12/2005

  Hef nú bara heyrt “Stingray”, mjög flott lag og hreif mig alveg strax! Smá áhrif frá Tom Waits e.t.v? Hlakka bara til að hlusta á allan diskinn!

 3. Júlíus Stígur · 05/12/2005

  Ég er sammála þessum dómi að platan vinnur virkilega á eftir nokkra hlustun, finnst einkunnargjöfin frekar nánasarleg með hliðsjón af því. Gaman annars að fá loksins að heyra efni frá þessum frábæra söngvara eftir mörg ár. Ég hætti að hlusta á Ný dönsk eftir að hann fór enda var hann burðarás í því bandi (ekki allir sammála því).
  Í lokin vil ég hrósa aðstandendum fyrir góðan vef.

 4. Elin · 27/12/2005

  Detta er god plata en mer finnst lagmarks kurteisi ad gagnrynendur eda folk sem setur sig i da stodu ad daema skopunarverk annara hlusti a ploturnar a.m.k. 3 til 4 sinnum adur en daer eru daemdar da fyrst er haegt ad fa einhverja alvoru syn a tonlistina sem er verid ad flytja..

 5. bió · 28/12/2005

  Ertu að gefa til kynna Elín að ég hafi ekki gert það?

Leave a Reply