• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Þórir / My Summer as a Salvation Soldier

  • Birt: 15/11/2005
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Þórir / My Summer as a Salvation Soldier

Viðtal við Þóri

Hinn fjölhæfi Þórir ræðir við Rjómann
Rjóminn – Nú verð ég að spyrja, hvað er málið með þetta einkar sérstæða listamannanafn; My Summer as a Salvation Soldier?

Þórir – Ég var að skila inn diski fyrir nokkrum árum og vantaði listamannanafn mjög fljótt og þetta var það fyrsta sem kom í hugann.

Rjóminn – En hefur þú verið skiptinemi eða sjálfboðaliði eða var þetta bara slembið?

Þórir – Nei, ekkert svoleiðis. Þetta bara kom e-n veginn.

Rjóminn – Ég skil. Nú ólst þú upp á Húsavík. Hvernig jarðvegur er fyrir tónlistargrósku á Húsavík?

Þórir – Í raun mjög góður. Það er furðanlega mikil hefð fyrir hljómsveitum og tónleikamenningu á Húsavík. Þegar maður er þrettán þá annað hvort stofnaru hljómsveit eða einbeitir þér að fótboltanum. Yfirleitt eru 4-5 bönd í gangi og þegar ég var yngri var ég í þeim flestum. Bæjarfélagið og skólarnir eru mjög hjálpleg og styðja dyggilega við hljómsveitirnar með tónleikahaldi og svo fram vegis. Það er svo sem ekki mikið annað hægt að gera á Húsavík. Mikið af góðum hljómsveitum hafa komið frá Húsavík: Innvortis, Greifarnir o.s.fr.v.

Rjóminn – Og Birgitta.

Þórir – Og Birgitta, en hún er ekki hljómsveit þótt hún sé hæfileikarík.

Rjóminn – Hvað spilar þú eiginlega á mörg hljóðfæri?

Þórir – Ég hef aðallega lært á gítar. Ég hef einnig verið að spila frekar mikið á trommur og svo bara verið að fikta með hin og þessi hljóðfæri. Þegar maður kemst upp á lagið með eitt hljóðfæri er auðveldara að fikra sig áfram á önnur.

Rjóminn – Nú verður þú að staðfesta/hrekja eina goðsögn. Ég heyrði að þú hefðir einu sinni verið að hita upp fyrir Singapore Sling, trommarinn þeirra forfallast og þeir spurt þig hvort þú gætir hlaupið í skarðið. Svo áttir þú að hafa hlustað aðeins á diskinn, trommað smá á hnéin og spilað svo eins og ekkert væri eðlilegra. E-ð til í þessu?

Þórir – [Hlær] Ekki alveg svona dramatískt. Þetta var á Airwaves í fyrra þegar hálf Singapore Sling hætti og það rétt fyrir hátíðina. Þeir töluðu við mig á föstudegi og áttu að spila á laugardegi. Ég fékk diskinn lánaðan og æfði mig stíft í einn dag en ég hafði verið að hlusta mikið á tónlistina þeirra svo það var ekkert það mikið mál.

Rjóminn – Væri fyrir mig. Þú spilar sem trúbador, í harðkjarnaböndum og í rappprójekti – stendur þér e-ð næst?

Þórir – Mér finnst þetta allt gaman á mismunandi hátt – gaman að prófa allt og spreyta sig undir mismunandi formerkjum.

Rjóminn – Klassísk spurning: Áttu þér e-a sérstaka áhrifavalda?

Þórir – Ekki beint. Maður reynir bara að hlusta á sem flest og skoða hvað er flott í hinum og þessum geirum.

Rjóminn – Hvað með Elliott Smith?

Þórir – Elliott Smith er að sjálfsögðu fyrirmynd fyrir alla „singer/songwriter“ sem hafa e-n metnað. Svo er t.d. Henrik í Singapore Sling mín fyrirmynd í lagasmíðum. Einnig, þegar Mugison var að byrja þá hafði hann mikil áhrif á mig varðandi tilraunamennsku.

Rjóminn – Þú fékkst mikla athygli út á sérstæða útgáfu á „Hey Ya!“ sem var á plötunni I Believe in This. Persónulega tók ég ekki eftir því hvað textinn í þessu lagi væri niðurdrepandi fyrr en ég heyrði þína útgáfu. Var þetta viljandi gert?

Þórir – Ég hef alltaf verið mikill OutKast aðdáandi – en þegar ég heyrði þetta lag fyrst þá hugsaði ég að þetta væri miklu frekar ballaða heldur en hresst lag. Andre 3000 nær bara að fela það með innskotum og hressum takti. Ég skar það allt út og eftir stóð þetta angurværa lag með sorglegum texta.

Rjóminn – Hyggur þú á meiri spilamennsku úti?

Þórir – Ég hef verið að spila dálítið í Svíþjóð, Englandi o.fl. en stefni á stærra tónleikaferðalag þegar diskurinn er kominn betur á legg. Það er verið að biðja mann um að spila hér og þar en það er ekki hagkvæmt nema að sé hægt að búa til sæmilegt ferðalag úr því.

Að lokum ætlar Þórir að gefa lesendum Rjómans lagið:

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Ljósmynd: Hörður Sveinsson

Leave a Reply