• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Orange Juice – The Glasgow School

 • Birt: 15/11/2005
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 4

Orange Juice - The Glasgow School
Einkunn: 3
Utgafuar: 2005
Label: Domino / 12 Tónar

Orange Juice er óneitanlega einhvers konar forfaðir indípoppsins sem við dáum öll og elskum (ekki satt?).

Hljómsveitin Orange Juice er oft talin til þegar talað er um áhrifavalda Belle & Sebastian en kemur ekki síður upp í umræðu um Franz Ferdinand. Þetta stafar sennilega af því að Orange Juice kemur frá Skotlandi eins og báðar fyrrnefndu sveitirnar og það er alltaf auðveldast að leita að líkindum í tónlist frá sama landi. Báðar sveitirnar hafa hins vegar einnig nefnt Orange Juice sem áhrifavalda opinberlega og því hlýtur eitthvað að vera til í þessu. Innan í bæklingnum sem fylgir Dear Catastrophe Waitress með Belle & Sebastian er t.a.m. saga eftir forsprakkann Stuart Murdoch sem heitir „The Way of the Egg,“ en í sögunni er tvisvar minnst á Orange Juice.

Nú vill svo til að bæði Belle & Sebastian og Franz Ferdinand eru í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum og því nær ómögulegt að fjalla um grúppu sem hefur haft bein áhrif á þessa frábæru tónlistarmenn. Ég geri mitt besta:

Á The Glasgow School eru fjórar fyrstu smáskífur Orange Juice, en þær komu út hjá Postcard Records á árunum 1980 og 1981, auk plötunnar Ostrich Churchyard og eins óútgefins lags. Ostrich Churchyard átti að vera fyrsta plata Orange Juice, en fyrir einhverjar fremur óljósar ástæður þá var henni hent og platan You Can’t Hide Your Love Forever kom út í hennar stað árið 1982.

Söngvarinn og lagasmiðurinn Edwyn Collins er ekki með auðmeltustu rödd í heimi og það kann að velta að einhverju leyti á því hversu vel hlustandinn kann við rödd Collins hversu vel hann kann við The Glasgow School. Ég kann ágætlega við þessa hrjúfu rödd, hún minnir einna helst á ýktan Bob Mothersbaugh úr Devo. Lögunum er ekki hægt að lýsa sem öðru en hreinræktuðu gítarpoppi, þótt áhrif nýbylgjunnar skíni í gegn. Þetta er óneitanlega einhverskonar forfaðir indípoppsins sem við dáum öll og elskum (ekki satt?).

Í „Blue Boy“ má heyra hvaðan Belle & Sebastian fengu hugmyndir að útsetningunum á Tigermilk en í „Satellite City“ mætti halda að Bob Hardy úr Franz Ferdinand væri á bassanum. Ef við teygjum okkur aftur í tímann þá hljómar „Wan Light“ eins og eitthvað sem gæti hafa verið á Loaded með Velvet Underground ef að hún hefði komið út eftir að diskóið reið yfir. Af öðrum samlíkingum má benda á að „Three Cheers“ minnir mig alltaf á okkar ástkæru Isidor.

Það er því ljóst að Orange Juice fara um nokkuð víðan völl þó þeir haldi sig alltaf við ákveðinn einkennishljóm. Hluti þessa einkennishljóms er óvönduð spilamennska, gítarhljómar á háu tónsviði, fönkaður bassi og letilegur söngur Collins. Spilamennskan óvandaða sem ég vísa til kemur aðallega fram í ónákvæmni í trommuleik og gítarleik, auk þess sem það virðist oft á tíðum aukaatriði hvort Collins syngi alveg réttar nótur. Þessi aðferð hefur eflaust þótt heillandi á sínum tíma (og mörgum þykir það eflaust enn), en ég á erfitt með að gera upp við mig hvort hún fari í taugarnar á mér eða færi mann bara nær tónlistinni.

Það verður þó ekki tekið af Appelsínusafanum að lögin eru mörg hver alveg ótrúlega grípandi og vinna á við hverja hlustun. Þetta á sérstaklega við smáskífulögin og er „Poor Old Soul“ þar fremst meðal jafningja með drífandi diskótakti og skemmtilegu yfirtónaplokki á gítarnum. Lagið „Moscow Olympics“ virðist aftur á móti algjörlega ónauðsynlegt þegar maður er búinn að heyra „Moscow“ meðan „Lovesick“ er t.a.m. ómótstæðilegt. Sú staðreynd að platan vinni svona rosalega á við hverja hlustun gerir undirrituðum ansi erfitt fyrir þegar kemur að því að smella einkunn á plötuna. Nú þegar hefur hún híft sig upp úr 2,5 í 3,0, og hún stefnir hraðbyri á 3,5. Að ári liðnu gæti þetta verið ein af mínum uppáhalds.

Í bili læt ég einkunnina 3,0 duga – því hér er á ferðinni áhugaverð plata fyrir alla sanna áhugamenn um tónlist (þá sérstaklega indípopp) þó lögin séu ansi misgóð. Orange Juice hafa augljóslega skilið eftir sig slóð sem er sýnileg í tónlistarlandslagi nútímans. Það er víst eitthvað til í því að til þess að skilja nútímann verði maður að þekkja fortíðina.

4 Athugasemdir

 1. Hjalti · 16/11/2005

  Frábær dómur!
  Núna verð ég að kíkja á þessa.

 2. Ásgeir · 11/01/2006

  Hvar fæst þessi plata?

 3. Ari · 11/01/2006

  Í tólf tónum a.m.k.

 4. Óskar Þórisson · 14/03/2007

  Ég rakst fyrir tilviljun á þessa umfjöllun. Þetta er ein af mínum uppáhaldssveitum og ég má því ekki heyra neitt styggðaryrði um þá. Þeir eru tvímælalaust miklir áhrifavaldar á hljómsveitir eins og Smiths og Belle & Sebastian. Tvímælalaust ein vanmetnasta hljómsveit tónlistarsögunnar.

Leave a Reply