• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Dikta

  • Birt: 16/11/2005
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Dikta

Viðtal við Diktu

Dikta gefur bráðum út aðra breiðskífu sína, Hunting for Happiness, og af því tilefni fékk Rjóminn aðeins að ræða við hressa meðlimi sveitarinnar.
Lýsið aðeins sögu hljómsveitarinnar.

Haukur: Strákarnir Jón Bjarni, Skúli og Jón Þór [Nonni] voru semsagt í hljómsveit í Garðaskóla sem hét Grufl, þá var ég í annari hljómsveit. Svo þegar Skúli var í Versló og ég í MH þá hittumst við alltaf í strætó á leiðinni heim. Hann bauð mér á eina æfingu þegar þeir voru bara þrír og þannig byrjaði þetta allt saman.

Nú hafa margir lýst tónlist ykkar sem emó, indí, póst-rokk, alternatíft rokk og jafnvel „new wave”. Hvernig lýsið þið sjálfir tónlist ykkar?

Skúli: Við lýsum henni ekki, látum bara aðra um það.
Haukur: Rokktónlist, getum skrifað undir það.

Þið komið allir frá Garðabæ eða Áltanesi. Hvernig hefur það haft áhrif á ykkur sem tónlistarmenn?

Haukur: Strákarnir voru náttúrulega æskuvinir og búnir að þekkjast vel frá því þeir voru pínkulitlir, enda lítið pleis. Það munar auðvitað um það að vera vinir í hljómsveit en ekki bara nokkrir menn útí bæ með það sameiginlega markmið að búa til tónlist.
Skúli: Ég var í Tónlistarskóla Garðabæjar. Annars hefur fólkið auðvitað haft meiri áhrif en umhverfið.
Haukur: Svo er Hagkaup í Garðabænum [hlær], ég hef mjög oft farið í Hagkaup.

Nú æfðuð þið lengi í sama húsnæði og Í svörtum fötum, sem eru einnig að mestu leyti Garðbæingar. Mynduð þið segja að þeir hafi haft áhrif á tónlist ykkar?

Haukur: Já [ákveðinn]. Nei, annars [hlær], held ekki. Við æfðum líka í sama húsnæði og Mínus en þeir höfðu heldur engin áhrif á tónlistina okkar.
Skúli: Þegar við byrjum að æfa þá heyrum við ekkert í öðrum. Hinsvegar þekkjum við alla þessa stráka ágætlega.

Hvað með Jónsa? Lítið þið á hann sem fyrirmynd?

Haukur: Já, Jónsa í Sigur Rós. Fallegur rass.
Skúli: Haukur, svona sem frontmaður, er sennilega undir áhrifum.
Haukur: Svo hét hann líka Jónsi, maðurinn sem tók upp fyrsta demóið okkar.
Skúli: Já, mig minnir að organistinn í Langholtskirkju heiti líka Jónsi.
Haukur: Það er til nóg af Jónsum náttúrulega.

Já, rétt er það. Eruð þið pólitískir?

Skúli: Við erum pólitískir hvor í sínu horni, en það er samt eitt málefni sem sker hljómsveitina algjörlega í tvennt [þungt andrúmsloft], það er sameining Garðabæjar og Álftanesar.
Haukur [Álftnesingur]: ÁlftaNESS! Svo heitir þetta Álftaneshreppur!
Skúli: Þetta er bara smánes, smá skiki í kringum forsetann.
Haukur: Þetta er enginn smá forseti!
Skúli: Svo ætla þeir að éta upp bæjarmörkin, þetta gengur auðvitað ekki lengur. Við eigum fyrir löngu að vera búnir að innlima þennan skika.
Haukur: Það verður enginn bassi á plötunni, kallinn!
[halda áfram að þræta..]

Skúli, þú ert þekktur fyrir æðislega sviðsframkomu. Hvaðan kemur hún?

Haukur: Hún kemur að norðan [hlær].
Skúli: Þetta bara gerist í mómentinu.

Hver er glaumgosi hljómsveitarinnar?

Haukur: Nonni, hann er glaumgosi sveitarinnar. Hann er svo sætur og með svo fallegt bros að þegar hann brosir þá lýsist upp himinninn.

Hvað hlustiði annars helst á?

Haukur: Við erum allir með mjög ólíkan tónlistarsmekk og það er fátt sem við erum allir mjög hrifnir af. En við erum t. d. allir hrifnir af hljómsveitum eins og Tool, At The Drive In, Soundgarden og eitthvað svoleiðis rokk. Sjálfur er ég t. d. mikið fyrir Radiohead, Elliot Smith, Bright Eyes og Andrew Bird.
Skúli: Ég hlusta á allt mögulegt. Í spilaranum núna er t.d. plata með Clor og Illinois með Sufjan Stevens. Svo hlustuðum við allir mikið á Botnleðju á sínum tíma. Maður hefur bara hlustað á allan andskotann.

Lögin af nýju plötunni ykkar, Hunting for Happiness, eru öll sungin á ensku. Hafiði snúið baki við íslenskunni?

Haukur: Yes, we have. Nei nei, þetta bara gerðist og var ekkert sem við ákváðum. Það voru bara komin nokkur lög á ensku og við ákváðum að hafa þau þannig í stað þess að þýða þau sérstaklega á íslensku.

Voru mörg lög sem komust ekki á plötuna?

Haukur: Jájá, við vorum með 19 kláruð lög og alveg 30 hugmyndir. Svo voru bara 12 af þessum 19 lögum sem fóru á plötuna.

Rjóminn semsagt?

Haukur: Já, það má einmitt segja það, að þetta hafi verið RJÓMINN! [ræður ekki við sig af hlátri]

Fyrrum meðlimur Skunk Anansie, Ace, stjórnaði upptökum á plötunni ykkar að þessu sinni. Hvernig kom það samstarf til og hvernig var að vinna með honum?

Skúli: Við sendum honum demó með upptökur af nýjum lögum og hann varð bara svo rosalega hrifinn að hann vildi gjarnan vinna með okkur.
Haukur: Og það var ótrúlega gaman að vinna með honum.
Skúli: Mjög skemmtilegur og sniðugur náungi.

Gat hann hjálpað ykkur með ýmislegt?

Haukur: Já, með mjög margt. Þessi plata hefði í fyrsta lagi sándað allt allt öðruvísi hefði hann ekki komið nálægt henni.
Skúli: Viku áður en að við fengum hann til landsins, þá vorum við eiginlega að búa okkur undir einhverja brjálaða rokkplötu. Svo kom hann og við völdum saman sterkustu lögin á plötuna. Þá varð stemmningin á plötunni allt í einu miklu rólegri.

Fyrsta smáskífan ykkar, „Someone Somewhere” er einmitt lágstemmd og falleg ballaða, sem minnir jafnvel pínulítið á Coldplay. Eru hin lögin eitthvað í líkingu við þetta?

Skúli: Þetta er reyndar rólegasta lagið á plötunni, sem varð einmitt fyrsta smáskífan, mjög skrítið. Það eru sko alveg fleiri góð lög á plötunni samt! [hlær] Haukur: Já, þannig séð sko. [hlær]

Hvernig er nýja platan frábrugðin þeirri fyrri, Andartak?

Haukur: Hún er allt allt öðruvísi. Hún er miklu poppaðri, „in a good way”, og sándar ca. 70 sinnum betur, þó ég segi sjálfur frá. Samt sándaði hin ágætlega.
Skúli: Síðasta platan einkenndist svolítið af síðrokk-áhrifum því við vorum alveg í þeim pakka þá. En miðað við stöðuna okkar á plötumarkaðnum í dag þá er þessi plata sennilega meira indí, enda frá „indífyrirtæki”. „Indí” er náttúrulega bara dregið af independent.
Haukur: Já, popp er líka dregið af popular! Það hef ég alltaf sagt.

Af lögunum sem ég hef heyrt hefur t.d. píanó, harmónikka, fiðla og trompet bæst við hljóðfærasafnið. Komu margir til aðstoðar við plötuna?

Skúli: Það eru nokkrir vel valdir einstaklingar sem við fengum til að spila með okkur á plötunni. Þarna eru t. d. fiðla, selló, trompet og píanó. Svo tók sjálfur Ace magnað gítarsóló í laginu „Greater Good”. Það var mjög skemmtileg stund þegar hann tók sólóið með okkur.

Hver er á bakvið flotta plötuumslagið?

Skúli: Við fengum myndir frá Gabríelu Friðriksdóttur, sem var hrifin af músíkinni okkar og var til í að vinna með okkur, og prýða þær umslagið sem Ragnar Helgi Ólafsson setti saman á einstakan og snilldarlegan máta. Þetta lítur allt rosalega vel út.

Hvað tekur núna við eftir plötuna og útgáfutónleikana?

Haukur: Áfengi og dóp held ég bara. Annars ætlum við að gera myndband og vera bara hressir og kátir.
Skúli: Ætlum að reyna að spila mikið.

Lokaorð?

Skúli: Ég vil þakka lesendum Rjómans fyrir að klára þetta viðtal og óska öllum velfarnaðar á nýju ári.
Haukur: Ég á erfitt með að halda tárunum [klökkur] inni.

Dikta verðlaunar svo lesendur Rjómans með lagi af plötunni.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Heimasíða Diktu

Leave a Reply