• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

White Stripes í Köben 26/10/05

  • Birt: 17/11/2005
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

White Stripes í Köben 26/10/05

Vá White Stripes

Kristján Hansen, gestapenni Rjómans í Köben, fór á tónleika með White Stripes. Gott að vita hverju við eigum von á sunnudaginn. Jack og Meg eru að koma.
Tónleikarnir voru haldnir í gömlu lestarvagnaverkstæði í suðvesturhluta Kaupmannahafnar. Smart tónleikastaður.
Raveonettes voru byrjuð þegar ég mætti en það sem ég sá og heyrði var nóg til þess að kveikja áhuga á bandinu. Ekki meira um það að segja.

Um leið og Danirnir yfirgáfu senuna birtust prúðbúnustu rótarar sem ég hef nokkurn tíma séð. Jakkafataklæddir karlar í svörtu frá toppi til táar nema með rauða fjöður í hattinum og rauðan klút í brjóstvasanum. Ótrúlega smart og skrítið að enginn skuli hafa púllað þetta trix fyrr. Hélt það vera nátturulögmál að rótarar væru í teygðum stuttermabolum og illa til hafðir.

En þá loks að máli málanna. Slökkt var á ljósunum og uppá sviðið strunsaði Jack með Meg í eftirdragi. Hengdi gítarinn á sig og byrjaði á einhverju magnaðasta rokksjói sem ég nokkurn tíma orðið vitni að. Bara hann og hún. Engin annar á sviðinu en samt þessi rosalegi kraftur. Get ekki talið upp lögin í réttri röð. En mér skilst að þau hafi aldrei fyrirfram ákveðinn lagalista og miðað við samskipti þeirra á sviðinu þá trúi ég því. Virtist vera sem Jack spilaði bara það sem hann langaði til og hún fylgdi svo með. Meg söng tvö lög, mini-lagið „Passive Manipulation“ og „In the Cold Cold Night“ af Elephant. Smart gert hjá henni.
Jack er sennilega ein svakalegasta rokkstjarna okkar tíma. Hrein unun að sjá hann skipta á milli hljóðfæra og einn af hápunktunum var þegar hann spilaði á sílafón í „The Nurse“ og strax á eftir í rosalega útgáfu af „Ball & Biscuit“. Virkilega flott og röddin maður – ótrúleg. Hann er sá eini sem kemur til greina þegar „Oh Darling“, „Birthday“ og „Helter Skelter“ verða tekinn á Paul McCartney tribute tónleikum – hvenær sem þeir nú verða. Næstum búinn að gleyma að minnast á „Jolene“ coverið. Dolly Parton fékk uppreisn æru á þessum tónleikum þökk sé Jack og Meg.

Alla vega væri það ótrúlega kjánalegt að láta White Stripes í Höllinni fram hjá sér fara. Svona fyrirfram þá reikna ég með að þetta verði bestu tónleikar sem haldnir hafa verið á þeim stað síðan Pulp spiluðu þar fyrir að verða tíu árum síðan. Kannski maður bóki far heim.

Leave a Reply