• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Flís – Vottur

 • Birt: 19/11/2005
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

Flís - Vottur
Einkunn: 4
Utgafuar: 2005
Label: 12 Tónar

…eins og gott sjerríglas heima í stofu á jólunum.

Flísarmenn hafa spilað lengi lengi saman, ýmist sem tríóið Flís eða í öðrum grúppum og þá yfirleitt með fremstu hljóðfæraleikurum landsins. Þeir eru í hringiðu djasslífsins á Íslandi, hafa spilað allar tegundir af tónlist og hafa líka spilað hana út um allt. Það er því huggulegt að vita til þess að þessir víðförlu menn einbeiti sér ætíð að litla píanótríóinu sínu. Í sumar gáfu þeir út plötu tileinkaða Hauki Morthens, Vottur, þar sem þeir setja vel valin lög í eigin búning.

Útsetningarnar Flísarmanna einkennast af fullkominni virðingu fyrir upprunalegu lögunum. Þeir fara aldrei út á hálan ís í impróvíseringum sínum og hlaða ekki hljómana óþarflega mörgum nótum. Lengdin á lögunum er líka passleg og eru þeir alveg óhræddir við að taka t.d. „Brúnaljósin brúnu” á 1:46, í stað þess að freistast í óþarfa 8-mínútna stykki þar sem allir meðlimir ná a.m.k. fjórum impróvíseringarkórusum.

Á plötunni má finna öll helstu lög Hauks sem allir landsmenn þekkja jafnvel og ég veit ekki hvað. „Bláu augun þín” og „Til eru fræ” eru meðal þeirra laga sem heyra má á plötunni í hægum og tregafullum búningi og með tillitssömum píanóleik Davíðs Þórs Jónssonar. Síðarnefnda lagið öðlast skuggalegan blæ með symbalaóm Helga Svavars Helgasonar á trommusettinu og ég fæ það nánast á tilfinninguna að verið sé að endurvekja gamla anda. Í hressari lögum Hauks geta Flísarmenn spreytt sig á stuðinu, eins og í „Farin” og „Kveðjukossinn”, þar sem Davíð tekur út hressar píanórispur. Hendurnar þekja allt lyklaborðið í hröðum og öruggum hendingum sem eru oft á ystu mörkum píanósins. Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á bassanum sýnir svo mjög músíkalska hlið í gullfallegu ballöðunni „Í kvöld”, þar sem hann leikur, verð ég að segja, hjartnæmt sóló.

Fjörugustu lögin á plötunni eru örugglega „Hæ mambó” og „Ó borg mín borg”. Áður en sprengjunni er kastað í fyrra laginu spilar Davíð forspil á dótapíanói, sem hljómar auðvitað alltaf skemmtilega. Heldur meiri latínsveifla er í Flísarútsetningunni en hjá Hauki og skartar hún skemmtilegum hendingum frá Davíð og Valdimar sem vinnur sig yfir í asa-Bartók pizzicató. Síðarnefnda lagið er svo blásið meiri og agressívari takti heldur en fyrirrennari þess, þar sem smellna laglínan hljómar yfir ákveðnum bassanótum Valda.

Platan er pottþétt, bráðhugguleg frá upphafi til enda og á heima á öllum íslenskum heimilum. Hún er eins og gott sjerríglas heima í stofu á jólunum. Fullkomin íslensk dinnerplata ef fólk kýs að hlusta á plötuna þannig. Allt samspil er fyrirtak og hljóma mennirnir eins og þeir hafi spilað lengi saman, sem enda raunin er. Þeir taka hvorki sénsa né kynna heiminum neinar nýjungar en þeim hefur heldur betur tekist að votta Hauki Morthens þá virðingu sem honum sæmir. Þegar svona færir menn taka bestu lög Hauks þá getur útkoman eiginlega ekki klikkað. Enda hún gerir það ekki, heldur svínvirkar.

2 Athugasemdir

 1. Davíð · 22/11/2005

  Er Simbi sjómaður þarna, með bond-byrjun og öllu? þá kaupi ég hana án frekari umhugsunar. Góður dómur.

 2. Guðrún Inga · 30/01/2006

  Þetta er mjög fínn dómur – hjartanlega sammála. Góður fílingur sem fylgir þessari plötu. Ég mun kaupa allt sem Flís gefur út hér eftir.

Leave a Reply