• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Au Revoir Simone

  • Birt: 22/11/2005
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Au Revoir Simone

Aðalindígellurnar í viðtali.

Au Revoir Simone spiluðu á Airwaves um daginn og lýsa margir því yfir að hafa ekki verið samir síðan. Þær eru miðbæjarrottur dauðans frá New York og samþykktu þær létt spjall.
Au Revoir Simone eru:

Annie Hart – hljómborð og söngur
Erika Forster – hljómborð og söngur
Heather D’Angelo – hljómborð, trommuheili og söngur.

Rjóminn – Eilítið undarlegt þetta nafn ykkar, hvaðan kemur það?

Annie – Nafnið kemur úr myndinni Pee Wee’s Big Adventure. Hluti sögunnar snýst um gengilbeinuna Simone. Hún ákveður að flýja ömurleikann í Texas og stefna til Parísar en það hefur alltaf verið hennar æðsti draumur.

Rjóminn – Au Revoir Simone er ungt band. Hversu lengi hafið þið þekkst?

Annie – Hljómsveitin hefur verið til í tvö ár og við höfum kynnst hver annarri mjög náið á þeim tíma. Við eyðum heilu dögunum (og nóttunum) saman í æfingar og lagasmíðar.

Rjóminn – Hverjir eru aðaláhrifavaldar ykkar?

Annie – Ég er undir miklum áhrifum af Mates of State og samtvinnuðum röddunum þeirra. Ég fíla líka Minor Threat, Discount, Superaquello, Patsy Cline og The Beatles.

Erika – Broadcast, David Bowie, Electrelene, The Beatles, Morr Music tónlistarmenn eins og Guther & Ms. John Soda, Belle & Sebastian o.s.fr.v.

Heather – Ég er undir áhrifum af nánast hverju sem er. Ég er eins og risasvampur. Þess vegna gengur mér best að semja langt frá allri siðmenningu.

Rjóminn – En hvað hlustið þið mest á þessa dagana?

Annie – Við erum á tónleikaferðalagi þessa stundina og ég var bún að gera geðveik mix-teip áður en við lögðum af stað en það er að halda í mér lífinu einmitt núna. Ég er með m.a. The Concretes, grænu plötu Weezer, Exile in Guyville með Liz Phair og Superaquello. Unnusti minn bjó einnig til mixteip af öllum sjötommum sem hann hefur dálæti á. Á því eru mestmegnis indísmellir frá tíunda áratugnum.

Erika – Ég er að hlusta á nýju plötuna með Broadcast. Yuri Miyauchi, sem er hjá sama útgefanda og við í Japan, er geðveikur og tónlist hans er frábær á ferðalagi.

Heather – Ég hlusta bara á böndin sem við spilum með hverju sinni. Ég nýt hverrar mínútu af þögn sem ég fæ.

Rjóminn – Þið eruð nýbúnar að gefa út fyrsta diskinn ykkar, Verses Of Comfort, Assurance and Salvation. Hvernig hefur honum verið tekið – mikil athygli eða bara á jaðrinum?

Annie – Við höfum fengið mikla athygli í netheimum og bloggsamfélögum í BNA. En í Evrópu, þá sérstaklega í Bretlandi, erum við búin að fá helling af dómum og umfjöllunum. Við erum mjög ánægðar að vita af því að fólk er að hlusta á okkur þar.

Rjóminn – Hvað ætlið þið að gera til að fylgja disknum eftir – túra stanslaust eða beint í upptökuverið?

Annie – Svolítið beggja blands. Við erum að túra núna en við erum á leiðinni í upptökuver í mars til að taka upp næsta diskinn okkar. Svo er bara strax aftur á ferð og flug og næsta tónleikaferðalag verður ennþá stærra. Við getum núna einbeitt okkur að tónlistinni okkar að heilum hug og það er mjög gefandi að sjá verkin manns lifna við.

Rjóminn – Hver er munurinn á tónleikum í Brooklyn og tónleikum annars staðar?

Heather – Himinn og haf er á milli. Alls staðar sem við höfum komið í Evrópu og í Japan er frábær aðstaða, hljóðkerfi og tæknimenn. Hið sama er ekki hægt að segja um staði í New York en á móti kemur eigum við mikið af vinum og aðdáendum þar og það bætir upp fyrir margt.

Erika – Það er geðveikt gaman að vera „internationally travelling band“. Yfirleitt ef maður er kominn langt að til að spila fyrir fólk þá er líklegra að það sé áhugasamara um mann.

Rjóminn – Þið eruð hjá Moshi Moshi sem er búið að gera góða hluti undanfarið. Hvernig er að vera í kringum sveitir eins og Hot Chip, Bloc Party og Architecture in Helsinki að staðaldri?

Annie – Það er ótrúlega skemmtilegt og mikill innblástur. Við erum búnar að vera mikið í kringum Hot Chip og AiH upp á síðkastið. Hot Chip eru svo indælir og það er gott að tala við þá. Við héngum með AiH á Englandi og Íslandi í þessum túr. Þau eru svakahress! Við eyddum mörgum kvöldum að spjalla við Kath og Kim og hlusta á góða tónlist. Ástralir eru æði. Þau eru með báða fætur kyrfilega á jörðinni og þannig fólk er best að umgangast.

Rjóminn – Þekkið þið eitthvað til íslenskra banda? Náðuð þið tónleikunum hjá Apparat? Uppistaðan hjá þeim eru hljómborð líka.

Annie – Ég sá ekki Apparat en ég keypti diskinn þeirra og ég dýrka hann! Þeir eru svo brjálaðir. Tónlistin hljómar nánast eins og metall en með hljómborðum.

Erika – Áður en við spiluðum á Airwaves þá þekkti ég bara Björk, Sigur Rós og Múm. Mér finnst ég vera heppin að hafa kynnst fleiri böndum og virkilega séð hversu stórt hlutverk tónlist spilar í lífi fólksins á Íslandi.

Ljósmynd: Hjalti Jakobsson

Leave a Reply