• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

I Am the Avalanche – I Am the Avalanche

 • Birt: 22/11/2005
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 9

I Am the Avalanche - I Am the Avalanche
Einkunn: 0.5
Utgafuar: 2005
Label: Drive-Thru

Ég á satt best að segja í stökustu erfiðleikum með að finna eitthvað raunverulega jákvætt við þessa plötu. Jú, það er sæmilega grípandi bassalína í einu laginu. Gefum þeim það.

Fílarðu Blink 182? Fílarðu Offspring í seinni tíð? Fílarðu Sum 41? Fílarðu Busted en finnst bara vanta hörkuna í þá? Þá gæti I Am the Avalanche mögulega verið eitthvað fyrir þig – en ekki stóla á það.

Blink 182 fá sympatíuhlustun af því að þeir eru að reyna að vera fyndnir og skemmtilegir en mistekst alltaf jafn hrapallega, Busted fá sympatíuhlustun af því að þeir eru átta ára og Sum 41 fá sympatíuhlustun af því að söngvarinn þeirra er með Downs-syndróm. Ég veit ekki af hverju í ósköpunum einhver ætti að hlusta á I Am the Avalanche.

Tuttugu sekúndum eftir að fyrsta lag I Am the Avalanche rann – eða hökti öllu heldur af stað fyrir eyrunum á mér í fyrsta sinn hugsaði ég: „Æi, úff…þetta lofar ekki góðu“. Það kom síðan á daginn að þetta fyrsta lag, „Dead and Gone“, er kannski illskásta lagið á þessu fánýta plöturæksni.

Forsprakki I Am the Avalanche er emóhetjan Vinnie Caruana sem gerði þann illa hirta garð víst frægan fyrir fáeinum árum með fyrri sveit sinni, The Movielife. Undirritaður þekkir ekkert til þeirrar sveitar og mun tæpast leggja sig eftir því að kynna sér hana nánar hér eftir. Ég hef heyrt útundan mér að I Am the Avalanche sé langframbærilegasta afurð Drive-Thru útgáfunnar til þessa, ef frá er talið efni forverans Movielife. Ef einhver fótur er fyrir því þá held ég að mér leyfist að kalla Drive-Thru versta label heims. Þetta er ekkert nema eitthvað póstgruggemógervipönkdrasl. Sum 41 og Blink 182 mínus slaka glensið og númerin í nafninu. Linkin Park mínus allt hipphoppelementið. Busted plús þyngri spilamennska og nokkur ár. Gárungar hafa nefnt þessa tónlist screamo (samsuða orðanna scream og emo) og ég get lagt blessun mína yfir það orð. Ég lít á það sem samheiti fyrir alla tónlist sem hefur að geyma angistarfullan eilífðartáning sem heldur að hann sé töff, öskrar úr sér lungun í öllum lögum og hljómar eins og hann sé grátandi á meðan. Ofurnefjaðar rembingsöskurtilraunir Vinnies Caruana eru í besta falli óþolandi og í versta falli…eitthvað sem ég þori ekki að leiða hugann að. Spilamennskan er litlu skárri. Allir kunna þeir jú á hljóðfærin sín en þeir hafa litla hugmynd um það hvernig best er að láta þau spila saman til að úr verði eitthvað sem vit er í.

Ef ég reyndi að halda því fram að textarnir sem Caruana hefur barið saman fyrir þessa plötu væru frumlegir og skemmtilegir þá væri ég að ljúga. Vinnie litli virðist eiga erfitt og ómögulegt líf. Kærusturnar hrynja utan af honum eins og andlitin af Jacko og alltaf þegar hann er ekki að tjasla saman textum um löngu flogna bólfélaga þá er hann að íhuga sjálfsmorð. „Always breaking something/ Always losing something/ I’ll figure it out some other day/ Cause right now I’m wanting something else.“ Nei, það er víst ekki tekið út með sældinni að vera frontmaðurinn í leiðinlegu emóbandi.

Þegar sveitir unga út plötum sem eru svona gjörsneyddar öllum listrænum metnaði og frumleika þá hlýtur það að vera lágmarkskrafa að á þeim plötum sé að finna eitthvað catchy stöff; einhver almennileg partýlög eða heimskulegt stuð sem maður gæti hugsað sér að heyra kannski aftur, þó ekki væri nema einu sinni eða tvisvar í framtíðinni. Maður vill eina flotta melódíu, eitt töff gítarriff…eitthvað! Ef afskaplega vel er að gáð má meira að segja finna slíkar nærri þurrausnar vinjar á allra verstu Lifehouse- eða Nickelbackplötum. I Am the Avalanche skila engu. Ég held að um það megi að miklu leyti kenna ranghugmyndum sveitarmeðlima um eigið ágæti og skorti á afslappelsi og skopskyni. Eins og einhverjir gætu hafa áttað sig á þá eru I Am the Avalanche ekki að skapa neitt breikþrú efni, ekkert frekar en aðrar mislukkaðar sveitir sem nefndar hafa verið hér. Ólíkt þeim sveitum virðast Vinnie Caruana og kompaní hins vegar alls ekki gera sér grein fyrir því. Þeir taka sig hátíðlega og hljóma eins og þeir standi í þeirri trú að þeir séu að tjá heiminum eitthvað sem skiptir máli. Það er jafnmikill reginmisskilningur og hugsast getur. Ég er hræddur um að með þessari plötu hafi meðlimir I Am the Avalanche fyrirgert aðgangi sínum að mínum eyrum komandi ár og aldir.

Eitt kvöldið nýlega gekk ég til náða strax eftir að hafa hlustað á upphafslag plötunnar, „Dead & Gone“. Þegar ég rumskaði morguninn eftir þá glumdi lagið enn í höfðinu á mér. Það þótti mér leiðinlegt þar sem lagið er ekki gott, en hins vegar má kannski segja að I Am the Avalanche hafi náð örlitlum hluta markmiða sinna með þessu, ef þeir höfðu einhver; þeir negldu eitthvað fast í koll hlustanda sem tolldi í það minnsta eina nótt. Ég held ég telji þeim það til hróss, svona fyrir kurteisissakir (án þess að þeir eigi það skilið). Ég á satt best að segja í stökustu erfiðleikum með að finna eitthvað raunverulega jákvætt við þessa plötu. Jú, það er sæmilega grípandi bassalína í einu laginu. Gefum þeim það.

9 Athugasemdir

 1. Skari · 23/11/2005

  Uss maður verður að fjárfesta í þessari stax á morgun. Beint í Skífuna að kaupa hana á 249999999kr

 2. Hjalti · 23/11/2005

  Veit ekki hvort það er jákvætt eða neikvætt en þegar maður les svona rosalega neikvæða dóma verður maður forvitinn og hálfpartinn langar að hlusta á þessa skelfingu.

 3. Hafþór · 23/11/2005

  Bróðir minn er í þessari hljómsveit, hann fór niður í kjallara að gráta…

 4. Arnar · 23/11/2005

  hahaha, vel víraður plötudómur.

  nú langar mig að hlusta á þetta.

 5. Maggigunn · 23/11/2005

  “Hafþór skrifaði þann 23.11.2005 kl. 01:50

  Bróðir minn er í þessari hljómsveit, hann fór niður í kjallara að gráta…”

  Hahahahahahha!

 6. Davíð · 23/11/2005

  Alltaf gaman að sjá eitthvað fara í hakkavélina. Ég fæ enga löngun til að tékka á þessu Hjalti, því minn skilningur er að þetta sé ekki fyndið lélegt heldur bara flat out lélegt. Enda er “Screamo” eitthvað það hrikalegasta konsept sem ég hef heyrt af…

 7. Daníel · 24/11/2005

  Ég stóðst ekki mátið og varð að hlusta aðeins á þá og verð að vera sammála þessum dómi um að þetta sé hið mesta rusl.

 8. Krista · 26/11/2005

  Já, maður er svona hálfhræddur við þetta eftir að hafa lesið þennan skrautlega dóm. Er semsagt verið að meina með þessu að allar hugsanlegar hljómsveitir sem flokkast undir þessa tónlistarstefnu séu rusl? Ef það er tilfellið þá hefur höfundur greinarinnar afskaplega rangt fyrir sér.

 9. Stígur · 26/11/2005

  Það var svosem ekki það sem ég meinti, en hins vegar hef ég aldrei heyrt tónlist af þessari gerð sem mér finnst ekki drasl…ég viðurkenni að ég hef ekkert lagt mig eftir því heldur. Það er samt ekki þar með sagt að hún sé ekki til. Krista má endilega benda mér á eitthvað gott, ég elska að láta koma mér á óvart.

Leave a Reply