• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Takk fyrir okkur

  • Birt: 29/11/2005
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Takk fyrir okkur

Sigur Rós í Laugardalshöll

Miklu meira en bara tónleikar. Heklugos? Hvar varst þú 27. nóvember 2005?
Loksins komu þeir. Loksins gátum við komið saman. Þeir sem hafa séð Sigur Rós í Fríkirkjunni, í Háskólabíói, í Óperunni eða á Ströndum á liðnum árum vonuðust eftir líkri upplifun en þó er farið að fyrnast eilítið yfir þá reynslu þar sem þrjú ár eru liðin frá síðustu tónleikum þeirra hér heima (var það ekki bara í Háskólabíói?). Þeir sem hafa ekki séð hljómsveitina áður vonuðust eftir einhverju sérstöku – þeir fengu svo sannarlega eitthvað sérstakt. Þetta var magnað kvöld. Það er svolítið erfitt að skrifa um þessa tónleika. Sigur Rós er sérstök hljómsveit og Sigur Rós á heimavelli er sérstök upplifun. Þetta var meira en bara tónlist. Þetta var Takk fyrir okkur.

Eftir inngang strengjasveitarinnar Animu hóf Sigur Rós leik bak við gríðardulu sem skildi að gesti og hljómveitina. Þetta var frábært. Skuggar og ljós léku stóru rullu. Hljóðið og var flott. Umgjörðin var góð. Dulúðin var í aukahlutverki en Jónsi, Kjartan, Georg og Orri voru aðal. Þeir voru mættir. Hversu oft má maður segja frábært?

Ég hafði hugsað mér að skrifa niður nördalega punkta, lagalista og komment en þetta eru bara ekki þannig tónleikar. Maður skal hlusta og einbeita sér að því. Enda missti ég pennann sem ég var með snemma kvölds – guðleg forsjón þar að verki. Maður á ekki að skrifa. Maður á að hlusta. Ég hef ekki hugmynd um hvaða lög fengu að hljóma eða í hvaða röð. Skiptir ekki máli. Þetta voru náttúruhamfarir með gæsahúð. Hvar þarf að punkta hjá sér í miðju Heklugosi? Það er augljóst að slíkt er upplifun situr í manni. Ég var í Laugardalshöll 27. nóvember 2005.

Sigur Rós spiluðu í tæpa tvo og hálfa klukkutíma. Við sögu kom Amina, níu manna lúðrasveit og mjög vel útfærð ljósa- og myndasýning. Hápunktar voru nokkrir. Lög eins og „Viðrar vel til loftárása“, „Hopp í polla“ og „Hafssól“ má taka út úr. Kannski má ekki taka neitt út úr? Þetta var bara frábær heild.

Höllin var smekkfull og úr stúkunni var það bara töff. Harmakvein heyrðust af gólfinu og ku loftlítið þar hafa verið, ungar stúlkur og drengir féllu í ómegin og þurftu að hverfa á braut. Líklega hefði þurft að hafa loftræstinguna aðeins betri eða fólkið heldur færra til að allt væri fullkomið fyrir alla. Allir í sætum næst?

Sigur Rós er stórfengleg hljómsveit. Stórfenglegri er hún á tónleikum en á plötunum. Þetta er meira en bara músík. Það er í raun sorglegt að einungis rúmlega 5500 manns voru á staðnum. Af hverju var ekki öll þjóðin í húsinu? Öll þjóðin getur þó sameinast við viðtækin fljótlega því Rás 2 tók tónleikana upp og mun flytja þá innan tíðar og á mánudaginn má sjá vefupptöku af tónleikunum á vef NME. Má þetta ekki koma líka út á plötu?

Takk fyrir okkur!

Mynd af Sigur-Ros.com

[Uppfært 3/12: Á heimasíðu Sigur Rósar má finna vefupptöku, myndir og umfjöllun um tónleikana. Það er mjög töff hjá þeim.]

Leave a Reply