• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Hefur heyrt af þessum?

  • Birt: 30/11/2005
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Hefur heyrt af þessum?

Íslenskar tónlistarsíður á Netinu

Eru íslenskar tónlistarvefsíður eins og keldusvín í íslenskum mýrum?
Í tilefni af tilnefningu Rjómans til Íslensku vefverðlaunanna sem besti afþreyingarvefur landsins er rétt að benda á nokkrar góðar íslenskar tónlistarsíður. Að mínu viti er ekki um auðugan garð að gresja hvað varðar íslenskar tónlistarvefsíður. Nokkrar eru þó góðar og verðar ábendingar. Til dæmis þessar hér.

Sýrður rjómi
Árni Þór fór með Sýrðan rjóma í útvarpið árið 1993 á Útrás, útvarpsstöð framhaldsskólanema, og seinna á Rás 2, útvarpi allra landsmanna. Nú á Sýrður rjómi bara heima á Netinu og skellir reglulega og óreglulega fram nýjum og spennandi hljóðdæmum. Markmiðið með síðunni er einfaldlega að leyfa nördum að fylgjast með hvað Sýrður rjómi er að hlusta á. Þarna má finna nýtt og ferskt hæpað indídót og eins eitthvað sem er ólíklegt að rekast á annars staðar. Alltaf má þó treysta á að efnið sé nýtt og ferskt.

Kíkið á: http://syrdurrjomi.blogspot.com/

Mixteip Palla
Páll Hilmarsson var einu sinni alltaf að taka upp spólur – oft fyrir hann sjálfan en oftast fyrir einhverjar stelpur. Lögin voru valin af kostgæfni því spólan var í sjálfu sér skilaboð til viðtakandans og átti að kalla fram einhverjar sérstakar tilfinningar eins og Palli skrifar sjálfur. Þessi spólugerð var stór hluti tónlistarupplifun Palla og síðan hann lagði þetta af hefur hann hlustað miklu minna á tónlist. Það finnst honum leiðinlegt og því langar hann til að breyta því og því heldur hann nú utan um stafræn mixteip eða tekur á móti gamaldags spólum til birtingar á vefnum sínum. Eina reglan er að það þurfa að vera tvær hliðar (A og B) og lengdin þarf að vera annaðhvort 60 eða 90 mínútur. Mér finnst þetta hrikalega töff. Á maður að senda honum mixteip?

Kíkið á: http://www.kaninka.net/mixteip/

Dr. Gunni
Maðurinn sem hitaði með bandi sínu upp fyrir Fræbblana og Utangarðsmenn 12. apríl árið 1980 og stjórnar spurningakeppni 25 árum síðar heldur úti fjörlegri tónlistarsíðu. Heldur utan um mp3 skrár með eigin músik, playlista gamalla sjónvarpsþátta og margt annað. Mest um vert er að skoða vikuleg tóndæmi þar sem iðulega leynast skemmtilegar kræsingar. Oft eitthvað skrýtið og gamalt eða nýtt og furðulegt. Skrifar svo stuttar lýsingar á þessu öllu saman sem oft vekja forvitni.

Kíkið á: http://www.this.is/drgunni/

Smekkleysa
Fellur kannski ekki alveg í sama óháða ég-er-einn-heima-að-nördast flokkinn og hinar ábendingarnar en þó vert að nefna. Vefbúð Smekkleysu selur hvorki Miðnætursólborgina eða Ammæli en er engu að síður sérlega töff. Fullt af hljóðdæmum að finna þarna og því flott að benda útlenskum nördavinum á ævintýrið. Benni „Karate“ sendir svo vinalega pósta út á póstlista með ferskum ábendingum. Manni finnst til dæmis bráðvanta sambærilega þjónustu hjá 12 tónum. Hvar er síðan ykkar strákar?

Kíkið á: Http://www.smekkleysa.is

Poppland
Nýlenda Rokklands sem er smám saman að verða að heimsveldi á sér aukasjálf á Netinu. Þar eru fréttir, eilítil plötuumfjöllun og síðast en ekki síst tónleikaupptökur. Algjörlega ekki óháð-einn-heima-dót en er mikilvægt í uppeldi þjóðarinnar. Hver vill líka ekki vita hvað Erla Ragnarsdóttir hlustar á þegar hún ryksugar?

Kíkið á: Http://www.ruv.is/poppland

Annað sem má kíkja á
Ofur áhugasamir nördar láta ekki staðar numið við fimm ábendingar heldur vilja meira. Þá má til dæmis kíkja á þessar hér:

Leave a Reply