Sigur Rós – Takk…

Sigur Rós - Takk...
Einkunn: 4
Utgafuar: 2005
Label: Smekkleysa

Er Takk… jafnmikil snilld og íslenskir fjölmiðlar hafa látið í veðri vaka hingað til?

Nú þegar mesta hæpið er búið og Takk… er ekki lengur á topp tíu á Amazon.com bestseller-listanum, þá er kannski ágætt að skoða plötuna hlutlægt og á sanngjörnum samkeppnisgrundvelli. Með öðrum orðum, er Takk… jafnmikil snilld og íslenskir fjölmiðlar hafa látið í veðri vaka hingað til?

Svarið er einfalt: Nei.

Ég geri mér grein fyrir því að það er kannski eilítið erfitt að taka mig alvarlega, ég skrifaði jú þúsund orða dóm í Morgunblaðið um tónleika Sigur Rósar í Laugardalshöll, gaf þeim sex stjörnur af fimm mögulegum (strandaði einhversstaðar á ritstjórnarfundi) og hafði fyrirsögnina „Það besta sem guð hefur skapað“. Tökum samt sem dæmi lagið „Sæglópur“. Þegar skylduskruðningarnir í lok lagsins á undan eru búnir (annað hvert lag á plötunni hefst ýmist eða lýkur á einhverskonar skruðningum) þá spilar hljómborðsleikarinn Kjartan þrjá einfalda hljóma á píanó. Stefið minnir helst á upphaf einhvers lags af nýju Coldplay plötunni – þ.e. ekki á neitt síðan sú fyrrum ágæta sveit var… ágæt. Í tæpar tvær mínútur þá heldur þetta áfram, Jónsi syngur afskaplega óræða laglínu yfir ekki nema sæmilega áhugaverðan grunninn allt þar til fremur trylltar trommur ryðja sér til rúms í kringum 1:50 markið. Mínútu seinna koma hinsvegar virkilega flott hljómaskipti sem endurtaka sig síðan á fjórðu mínútu. Ætli þessi hljómaskipti megi ekki kalla einskonar viðlag lagsins, þau eru allavega ris þess.

Síðari hluti lagsins er alltaðþví væminn, píanóið slær hreina dúr- og mollhljóma til skiptis, á slaginu, og strengirnir gera þetta síðan álíka sætt og tvær skálar af súkkulaði Lucky Charms. Með karamellusósu. „Sæglópur“ er sjö og hálf mínúta og maður man varla eftir því þegar því lýkur, það er helst að Coldplayska píanóstefið sitji eftir í manni, og ekki af góðu.

Lagið á undan „Sæglópi“ er „Sé lest“. Bjöllur klingja og sýlófónar eru lamdir, en þetta er ekki lag fyrir fimmaur. Þetta er heldur ekki naumhyggjulegt meistaraverk eða áhugaverð klifunartilraun – þetta er stefnulaus samsoðningur í ætt við Ba Ba Ti Ki Di Do sem hefur líklegast eingöngu ratað á plötuna vegna valskaflans í lok hans (þetta er ekki polka-kafli einsog einn fjölmiðill lét hafa eftir sér í haust). Hann er vissulega skemmtilegur en ekki nægilega kraftmikill og nær ekki að hafa þau áhrif á plötu sem hann hafði þegar lúðrasveitin marseraði yfir sviðið á tónleikunum sl. sunnudag.

Þá er það „Mílanó“, „centerpiece“ plötunnar (ef ritstjórnin leyfir mér að sletta). Það er langt og ekki nógu gott til að standa undir mínútum tíu. Í því er eiginlega bara ein laglína sem er endurtekin aftur og aftur og hápunktur lagsins er svo óspennandi að hann verður fyrir vikið einn af lágpunktum plötunnar. Ég saknaði þess ekki á tónleikunum.

En þetta er náttúrulega allt bara á mælikvarða Sigur Rósar. Öll þessi lög væru afburðarverk á plötum annarra – og hin lögin átta á Takk… eru frábær. „Glósóla“ þekkja allir inn og út og vita þ.a.l. að rokksprengingin undir lok lagsins er virkilega glæsileg. Hún sýnir að Sigur Rós hafa alltaf verið poppað rokkband undir álfahúfunum. Lokalagið „Heysátan“ er eitt besta lag Sigur Rósar hingað til – útsetningin er ekki mikil að vöxtum og start/stop byggingin fær mann alltaf til að halda að platan sé búin þegar hún er það ekki. Mikið verð ég alltaf glaður þegar ég veit það eru ennþá ein til tvær mínútur eftir. „Hoppípolla“ tekst síðan á einhvern ótrúlegan hátt að teygja sig yfir hárfína línuna sem skilur það frá væmni og hallærisleika án þess að missa nokkurntímann jafnvægið.

Það er einmitt helsta afrek Sigur Rósar á þessari fjórðu eiginlegu plötu sinni að gæla svo afdráttarlaust við væmni og hallæri án þess að halla sér of langt og skella með andlitið í sandinn handan línunnar. Einsog ég hef minnst á eru andartökin nokkur þar sem maður heldur að þeir séu fallnir, en meiraðsegja þegar hálfljóta píanóið kemur inn í „Gong“ þá tekst þeim enhvernveginn að halda sér einlægum og trúverðugum . Kannski hefði mér ekki fundist það ef ég hefði ekki séð meirihlutann af þessum lögum á tónleikum fyrir stuttu – en það er á þann hátt sem eyru mín skynja músíkina með þá reynslu í farteskinu.

Takk… er í svipuðum flokki og undanfarinn vanmetni ( ) sem ég er nýbúinn að endurnýja kynnin við (ég hvet ykkur til hins sama). Hún er miklu léttari, miklu bjartari, en á það sameiginlegt með svigaplötunni að vera a) eftirbátur Ágætis byrjunar og b) virkilega góð án þess þó að vera fullkomin. Á ( ) voru það lög fimm og sjö sem skemmdu fyrir heildinni, hér er það óáhugaverður miðjuhlutinn sem ég skeit yfir í upphafi.

Svo: Nei, Takk… er ekki jafnmikil snilld og íslenskir fjömiðlar hafa sumir hverjir haldið fram, en hún er engu að síður frábær og vafalítið ein besta íslenska plata þessa árs.

31 responses to “Sigur Rós – Takk…”

 1. Gunnar says:

  guðlast

 2. myggapleazzze!!! says:

  greinilega er engin ritstjórn þarna hjá ykkur…

 3. Sóley says:

  Fínn dómur. Alltaf gaman að heyra í fólki sem hefur aðra skoðun en margir aðrir enda fáráðnlegt að ímynda sér að allir hafi sömu skoðun á listaverki.

 4. Ottar says:

  Eg veit ekki hvort folk se ad fatta thad eda ekki, en 4 er mjog god einkunn (eg personulega er ad rokka a milli 4 og 4,5 a thessa plotu). Hvad vardar rynina tha er hun vel rokstudd tho svo eg se ekki sammala skodunum Atla a t.d. Milano. Einnig verdur ad hafa i huga ad Sigur Ros gafu ut meistarastykkid Agætis Byrjun og thad verdur audvitad ad taka med i reikninginn, enda segir Atli ad thessi log sem hann telji upp seu midad vid Sigur Rosar standarda, sem eru ansi hair.
  Ef folk ætlar ad kommenta reynid ad hafa thetta malefnalegt en ekki bara koma med eitt ord, fæstir taka mark a thannig kommentum.

 5. Jonas says:

  Er nokkuð sáttur við þessa gagnrýni, Heysátan er fínt lag en mitt uppáhald á þessari plötu er Gong, það er eitthvað við trommuleikinn í því lagi sem er ekki samkvæmt þeirra formúlu, sem er bara fínt. Mér finnst ()platan best, kannski að þvi að maður er komin leið á Á.B. þetta er kannski svipað með Radiohead, mér finnst Kid A platan langbesta platan. Annars verð ég að gefa umsjónarmönnum þessa vefs mikið “credit” fyrir frábært framtak, komin tími til á almennilega síðu sem fjallar um “góða” tónlist.

 6. Stígur says:

  Haha, fyndið að fólki skuli finnast 4 slæm einkunn. Ég hugsa að á topp 10 listanum mínum fyrir árið gæti hugsanlega verið að finna einhverjar plötur sem ég gef bara 3.5…svona svo fólk átti sig á standarnum…

 7. Helgi says:

  Fyndinn dómur. Vill rosalega mikið vera öðruvísi en aðrir og gefur til kynna að íslenskir fjölmiðlar séu á einhverri annarri skoðun en hann en gefur svo bara sama hörkudóminn og aðrir íslenskir og erlendir dómarar. Spyr í upphafi hvort Takk… sé jafnmikil snilld og íslenskir fjölmiðlar hafa látið í veðri vaka hingað til? og byrjar dóminn að segja að svarið sé einfalt Nei (og ef einhverjir gáfu henni 5/5 í Fréttablaðinu eða MBL en 4/5 hér af hverju er það aðalatriðið í dómnum?).

  Eða er rosalega mikill munur á útlenskum dómurum og íslenskum?

  Hér fær platan rosalega fínan dóm (4,0) sem er nánast það sama og sést annars staðar. Fær sambærilega einkunn að meðaltali hjá Metacritic (83) og 7,8 á Pitchfork.

 8. Stígur says:

  Hvert ertu að fara með þetta? Íslenskir fjölmiðlar gáfu þessari plötu flestir fullt hús, héldu fram að fullkominn og væri ein af 3-5 bestu íslensku plötum allra tíma. Atli er bara að benda á að hann sé ósammála þeim og að þeir dómar hafi verið skrifaðir í einhverskonar hæpvímu, sem ég held að sé alveg satt. Eins og hann segir: Þetta er mjög góð plata, en ekkert ódauðlegt meistaraverk.

 9. Stígur says:

  „héldu ÞVÍ fram að HÚN væri fullkomiN…“

  Afsakið þetta…

 10. bió says:

  Sammála Stíg.

  Snemma í Moggadómnum um plötuna segir (með leyfi fundarstjóra):

  “Við erum að tala um ein stærstu tíðindi ársins í framsækinni rokktónlist, og það með réttu og án allrar þjóðernisrembu. Svo stór er sveitin orðin. Svo mikilvæg. Og eftir vandlega íhugun og ítrekaða hlustun þá segir manni svo hugur að Takk…eigi aðeins eftir að gera Sigur Rós að ennþá stærra nafni, ennþá mikilvægari hljómsveit, því hún uppfyllir allar þær væntingar sem aðdáendur sveitarinnar gera til hennar og jafnvel gott betur.”

  Lokaorðin í dómnum í Mogganum eru svo þessi (með leyfi fundarstjóra):

  “Við erum nefnilega að tala um hljómsveit sem ber höfuð og herðar yfir allar aðrar sem fram á sjónarsviðið hafa komið í sögu íslenskrar tónlistar. Hljómsveit sem nú hefur sent frá sér þrjár af fimm bestu plötum íslenskrar rokksögu, algjör yfirburðaverk”

  Rólegur Clint!

 11. egill says:

  Kemst að sömu niðurstöðu og Atli. Sjálfum finnst mér Takk ekki koma með neitt nýtt að borðinu, ekkert sem að Sigur Rós hefur ekki gert áður. Líður svona eins og að þeir hafi byrjað á hálfum styrk í Ágætis Byrjun, og núna sé búið að hækka græjurnar í botn á Takk.

  Fín plata, en bara ekki neitt brautryðjandaverk, er ekki t.d. að gera neitt fyrir mig sem að Ágætis byrjun var að gera.

  Hreinræktaðir Sigurrósaraðdáendur falla líklega í stafi yfir plötunni, og ég get skilið það vel. En fyrir þau sem vilja sífellt leita að einhverju nýju og að nýrri upplifun, þá er Takk ekki að gera sig. Tel t.d. sjálfan mig falla í þann hóp.

  En, einkunin 4,0 er fín, enda er platan vel gerð og við skulum ekki taka það af þeim. Sigur Rós er orðin stór hljómsveit, og það sást best á tónleikunum á sunnudag (horfði reyndar á netupptökuna, eftir 10 tónleika með þeim þá nennir maður ekki meira í bili). Gaman að sjá breytinguna á sviðinu, umfangið o.s.frv.

  Skil ekki alveg þessi “guðlast” og “greinilega er engin ritstjórn þarna hjá ykkur…”, fólk getur sleppt því að kommenta ef það ætlar að vera með svona illa lyktandi svör.

 12. Arnar says:

  Þegar að ég heyrði Ágætis Byrjun fyrst varð ég ástfanginn.

  Ég og Sigur Rós höfum haldið þessu ástarsambandi gangandi í gegnum árin og þetta samband styrkist bara og styrkist í hvert einasta sinn sem ég set Takk… á fóninn.

  Auðvitað hafa allir sínar skoðanir, ég persónulega myndi gefa þessari plötu 4,5 – 5,0 og ég veit að Sigur Rós mun bara bæta sig sem hljómsveit, mér þykja þeir ná mikilli fjölbreytni miðað við sveit sem að hefur skapað sinn einstaka hljóm. Ágætis Byrjun var pjúra gleði, () var sorgleg og Takk.. er einfaldlega hugljúf og krúttleg.

  Allt frábærar plötur.

  Sigur Rós er vafalaust í flokki með böndum eins og Pink Floyd og fleirum, munu hafa mikil áhrif á sögu tónlistar.
  Þeir hafa bara eitthvað við sig sem stuðlar að svo mikilli vellíðan og tónleikarnir voru eins og tveggja tíma fullnæging sem að ég upplifa síðan aftur og aftur með því að hlusta á Takk…

  kv. Arnar

 13. ótrúlega sammála þessum dómi, og einkunninni..
  mér finnst Sé Lest, Sæglópur og Svo Hljótt allt fremur ómerkileg lög (þ.e. miðað við Sigur rósar standardinn) og Mílanó er bara of líkt mörgu sem þeir hafa gert áður, en ekki eins gott..

  það toppar þá hinsvegar ekkert þegar þeir eru uppá sitt besta (sbr. Glósóli, Gong og Hoppípolla)

  svo vill ég koma því á framfæri að mér finnst ( ) vera vanmetin plata.. hún inniheldur besta lagið þeirra að mínu mati (nr.8).. þeim mistókst reyndar að mínu mati eitthvað aðeins með sum lögin í stúdíóinu, t.d. þó að lag nr. 5 séð við það að svæfa mann fyrstu 7 mínúturnar, þá er það með flottasta klæmax í sögu tónlistar…
  tilgangslaust innlegg, en allavegana…

 14. Davíð Alexander says:

  Það er líka furðulegt að segja 4/5 og 5/5 sé nánast sama einkunin. Burtséð frá tölfræðinni (20%, slatti) þá er miklu meiri munur á [4/5 og 5/5] en t.d. [3/5 og 4/5]. Fullkomnun er bara allt annað og meira en “mjög gott”. Persónulega myndi ég jafnvel segja plata geti ekki verið fullkomin fyrr en hún hefur öðlast persónulega merkingu fyrir manni yfir lengri tíma. Fer kannski eftir því hvort fólk trúi á ást við fyrstu sýn/hlustun.

 15. kalli says:

  Mér finnst þessi dómur frekar fáránlegur. Í upphafi eru íslenskir fjölmiðlar gagnrýndir fyrir að vera með einhverskonar fyrirframgefna sigur rósar dýrkun, en svo er það nákvæmlega sama upp á teningnum hér:

  ,,En þetta er náttúrulega allt bara á mælikvarða Sigur Rósar. Öll þessi lög væru afburðarverk á plötum annarra”

  Og þetta kemur eftir að gagnrýnandi hefur talið upp fullt af göllum. Djöfull hljóta aðrar íslenskar hljómsveitir þá að vera lélegar í hans augum.

 16. Jæja, ætli það sé þá ekki kominn tími á að ég svari einhverju af þessu sjálfur.

  Helgi: Mér finnst vera talsverður munur á 4/5 og 5/5. Og já, ég get vel trúað því að íslenskir fjölmiðlar fjalli á annan hátt en erlendir um Sigur Rós.

  Kalli: Ég er ekki að gagnrýna íslenska fjölmiðla fyrir „fyrirframgefna [S]igur [R]ósar dýrkun”, heldur er ég einfaldlega að gefa mér það að ég kunni að vera ósammála. Sem ég reynist síðan vera að nokkru leyti.
  Ég skildi þetta ekki alveg með aðrar íslenskar hljómsveitir, en vil koma því á framfæri að yfirleitt er ég mjög hrifinn af þeirri tónsköpun sem fer fram hér á landi.

 17. Stígur says:

  Íslenskir fjölmiðlar eru hvergi gagnrýndir fyrir það að “vera með einhverskonar fyrirframgefna sigur rósar dýrkun”. Hins vegar eru þeir gagnrýndir fyrir það að láta berast með hæpstraumnum og sveipa plötuna óverðskulduðum dýrðarljóma án þess að hafa gefið sér nægan tíma til að vega hana og meta með almennilega gagnrýnum eyrum.

 18. æææ… ég veit það ekki. Mér finnst Sigurrós vera ofmetin hljómsveit, ég er hættur að hlusta á þá. Ég á samt plöturnar á einu eða öðru formi (ahemm) og hef hlustað á þær og reynt af miklum mætti að sjá (og heyra) það sem aðrir sjá (og heyra) en það er ekki að gerast. Bið fólk að afsaka þó ég guðlasti í hina áttina og fíli nýju plötuna engan vegin.

 19. Hjalti Jón says:

  Skemmtileg gagnrýni sem ég er að mörgu leiti sammála. Einhverju leiti ósammála. Sé lest er vissulega ekki mikið lag en gegnir samt að mínu mati lykilhlutverki á plötunni . Þetta lag undirstrikar anda plötunnar sem er blanda af ró og kyrrð á móti prakkaraskap og sköpunargleði.
  Gagnrýni Atla á Sæglóp og Milano þykir mér eiga mikinn rétt á sér og mér þykir þau of löng og flöt miðað við að um Sigur Rós sé að ræða. Rétt eins og nokkur lög á ( ).
  En þegar kemur til alls bæta Glósóli, Hoppípolla, Heysátan og Andvari meira en upp fyrir það að mínu mati.
  Sama þó að þessi plata sé ekki jafnsterk og maður veit að verk með Sigur Rós getur verið er hún eigi að síður frábær.
  Ég segi þetta án þjóðrembu en mér finnst oft þegar ég hlusta á Sigur Rós, að í þeirra popkúlturu músík iðnaði sem við lifum í sé Sigur Rós gífurlega mikilvæg hljómsveit. Sigur Rós nær að vera ótrúlega aðgengileg en gefa þó aldrei nokkurn hluta af sérstæðu sinni. Þetta er ein af þeim hljómsveitum sem eru að gera plötuna að listverki á ný. Ég man þegar ég hlustaði á Ágætis Byrjun í fyrsta skipti leið mér eins og ég væri að heyra tónlist í fyrsta skiptið, tilfinning uppgvötvunar og gleði verður seint ofmetin og það er sú tilfinning sem Sigur Rós nær að kalla fram. Og er ein af fáum til þess.

 20. Maggigunn says:

  Ég er 100% sammála þessum dómi. Mér finnst meira að segja ( ) betri en Takk.

  Ég skil heldur ekki öll þessi neikvæðu komment. Þessi komment eru eiginlega bara bull.

  Rjóminn býður upp á frábæra plötudóma og ég hef lengi beðið eftir einhverju svona. Það er enginn á Fréttablaðinu eða DV (Trausti sleppur reyndar stundum) sem skrifar góða dóma og það eru bara sumir á Morgunblaðinu sem mér finnst skrifa flotta dóma. Árni Matt til að mynda.

 21. bjössi says:

  svolítið fyndið hvað það er mikið af fólki hérna að gagnrýna gagnrýnina. og þrasa um hvort platan sé mjög góð eða rosalega góð 🙂 þetta er 100% huglægt…

  p.s. ég er sammála um mílanó, finnst það frekar þunnt. hins vegar finnst mér sé lest frábært lag… líður mjög vel þegar ég hlusta á það.

 22. Ívar E. says:

  Ég er fullkomlega sammála þessum dómi. Fyrsti hluti plötunnar er frábær, miðjuhlutinn hálfdöll einhvern veginn og svo rís hún upp og verður aftur frábær. Ég missi undantekningalaust einbeitinguna og fer að leiðast fyrir miðju…Mílanó er bara ógeðslega leiðinlegt lag t.d.

 23. Palli says:

  Lesið gagnrýni Wire, segir allt sem segja þarf.

 24. hausi says:

  er þessi plata ekki barnaplata ??!!!

 25. Villi says:

  Eins mikið og ég tel mig virða persónubundnar skoðanir fólks ætla ég samt sem áður að gera eina til tvær athugasemdir á þessa gagnrýni

  Varðandi Sæglóp

  Það er mjög leiðinlegt að heyra að þér finnst lagið lélegt. (Ég geri ráð fyrir að þér finnist það lélegt þar sem þú talar um hversu einfalt það er.) Samt sem áður er það er ekkert alltaf spurning um að vera með nógu marga undarlega hljóma í lagi til að það verði flott. Þú sem tónlistarmaður í hlómsveitinni Norton ættir að vita það, þetta er oftar en ekki spurning um tilfinningar, alúð og umfram allt annað einlægni. Það eru einmitt nokkrir hlutir ásamt mörgum öðrum sem Sigur Rós hafa nóg af.

  Varðandi Sé Lest

  Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á hvað ég var hissa þegar þú sagðir í dómnum

  “Bjöllur klingja og sýlófónar eru lamdir, en þetta er ekki lag fyrir fimmaur.”

  Ég komst ekki hjá því að vellta því fyrir mig um hvað í ósköpunum þú værir að reyna að gera.
  Svarið lá í augum uppi, ef þú hefðir bara viðurkennt að þessi plata væri frábær þá væriru orðinn of “mainstream” og það vita allir að þú mátt ekki verða “mainstream.”

  Svo að við tölum um jákvæðar hliðar á dóminum þá er Milano lag sem er ekki að virka á plötunni. þetta lag er bara lag sem á ekki skilið 10 mín.
  En það er eitt sem ég get ekki skilið með bæði dóma gagnrýnanda og aðdáendur og það er Glósóli.

  Glósóli

  “Nú vaknar þú
  Allt virðist vera breytt
  Eg gægist út
  En er svo ekki neitt
  Ur-skóna finn svo
  A náttfötum hún
  I draumi fann svo
  Eg hékk á koðnun?

  Með sólinni er hún
  Og er hún, inni hér

  En hvar ert þú….

  Legg upp í göngu
  Og tölti götuna
  Sé ekk(ert) út
  Og nota stjörnurnar
  Sit(ur) endalaust hún
  Og klifrar svo út.

  Glósóli-leg hún
  Komdu út

  Mig vaknar draum-haf
  Mitt hjartað, slá
  Ufið hár.

  Sturlun við fjar-óð
  Sem skyldu-skrá.

  Og hér ert þú…

  Fannst mér…..

  Og hér ert þú
  Glósóli…..

  Og hér ert þú
  Glósóli…..

  Og hér ert þú
  Glósóli…..

  Og hér ert þú”
  (Tekið af síðunni http://www.alwaysontherun.net/sigur.htm#t2)

  Ég tek Glósóla sem dæmi af því að mér finnst það svo áberandi. Ég var einu sinni í Þýskalandi og ég hitti mann sem var eitthvað að spá í hvaða tungumál það var sem við vorum að tala og var yfir sig ánægður þegar hann komst að því að þetta var íslenska. Hann var nefnilega mikill Sigur-rósar aðdáandi, meira að segja það mikill að hann hafði lagt það á sig að byrja að læra tungumálið til að skilja hvað Jónsi væri að segja.
  Síðan eru textarnir hálf óskiljanlegir jafnvel fyrir okkur íslendingana. Síðan verð ég að viðurkenna að mér finnst lagið sjálft ekki passa inn í heildarhljóm plötunnar, en það er bara mín persónubundna skoðun.

  Þrátt fyrir margt sem ég er ekki sammála í dómnum þínum Atli, þá er ég samt sammála einkunargjöfinni en bara af því að nánast engin plata er það góð að eiga skilið fullt hús

  Með fyrirfram þökkum
  Vilhjálmur Sigurðarson

 26. Atli Bollason says:

  Þakka góðar ábendingar, Villi.

  Sæglópur finnst mér ekki lélegur vegna þess að hljómarnir eru einfaldir, öllu heldur vegna þess að þeir virka ekki og verða að endingu hallærislegir.

  Ég skildi ekki alveg hvað þú áttir við með Sé lest, en það sem ég átti við kemur fáum orðum seinna: lagið er „stefnulaus samsoðningur í ætt við Ba Ba Ti Ki Di Do“.

  Varðandi mainstreamið þá snýst þetta ekki um það. Einsog kemur bersýnilega fram í dómnum þykir mér platan mjög góð – bara ekki jafn rosalega góð og margir lýstu yfir í haust.

 27. Lilja Kr. says:

  Ég er alveg sammála þessum dómi, flott að einhver þorir að koma fram með smá gagnrýni á þessa plötu.
  Einhver sagði að þessi plata væri kannski ekki alveg fyrir þá sem væru alltaf að leita eftir einhverju nýju, og ég er alveg sammála því, því þetta er ekkert sem maður bjóst ekki við.

 28. Ég get ekki sagt annað en ég sé sammála Atla uppá heildina að gera.

  Það er alveg rétt að íslenskir fjölmiðlar voru að hæpa plötuna ansi mikið upp. Í samanburði við fyrri útgáfur sveitarinnar (breiðskífur þ.e.) bliknar Takk.

  Hún er ekki næstum því jafn sterk og hinar 3 og er því sísta breiðskífu útgáfa þeirra hingað til.

  Ég er alveg á þeirri skoðun að Sigur Rós séu ekki ofur nema þeir rokki.

 29. Hildur Maral says:

  Jæja, það er greinilegt að fólk hefur miklar skoðanir á þessum dómi! Verð að hrósa ritdómnum Atli, þú segir þitt álit og kemur með ástæður fyrir afhverju Takk fær ekki fullt hús stiga, þótt þú gefir plötunni mjög góða dóma.

  Mín skoðun: (í lengra lagi)

  Takk undirstrikaði það að Sigur Rós er og mun líklegast alltaf vera mín uppáhalds íslenska hljómsveit. Ég tengist rosalega vel við tónlistina þeirra og Takk í heild sinni.

  Mér finnst Takk ekki sambærileg við neina aðra plötu Sigur Rósar. Þið eruð búin að koma með mörg komment þar sem þið reynið að finna samlíkingu við og bera saman Takk og (), og svo Takk og Ágætis Byrjun sem mér finnst persónulega ekki vera hægt að bera saman við neina aðra plötu. Ágætis Byrjun er einfaldlega meistaraverk og það er ekki hægt að ætlast til þess fyrir hlustun að Takk toppi hana.

  Varðandi dóminn um einstök lög á plötunni…

  Ég er sammála því að Mílanó er of langt lag, en tek á engan hátt undir með því sem Atli segir: “Í því er eiginlega bara ein laglína sem er endurtekin aftur og aftur og hápunktur lagsins er svo óspennandi að hann verður fyrir vikið einn af lágpunktum plötunnar” –

  Mér finnst hápunkturinn magnaður, og fékk massífan hroll þegar ég heyrði hann í fyrsta skipti. Og ég saknaði þess algjörlega á tónleikunum.

  Sæglópur finnst mér ekki eitt besta lag plötunnar eins og ég hef heyrt frá svo mörgum, en það er frábært engu að síður. Tek undir með því sem Villi sagði ofar, einfaldleiki virkar oft og í þessu tilviki finnst mér hann pottþétt gera það.

  Sé lest er svo eitt af krúttlegri lögum ársins, ekkert nema gott um það að segja. Og eftir tónleikana þeirra 27. getur maður ekki annað en brosað í kaflanum þar sem lúðrarnir komu á sviðið.

  Hápunktar Takk að mínu mati: Glósóli, Hoppípolla, Svo Hljótt, Gong og Heysátan.

  Takk fær 5/5 í einkunn hjá mér, það er ekkert sem getur eyðilagt ánægjuhrollinn sem fer um mig þegar ég hlusta á þessa plötu og það er vonlaust að ætla að setja einhverja aðra hljómsveit í spilarann en Sigur Rós eftir að Takk klárast.

  Hildur.

 30. Gummi says:

  ertu eitthvað geðveikur!?? Takk er snilldar plata í alla staði .. veit ekki hvaða sýru þú hlustar á vinurinn!! allavegana þú getur ekki “spottað” meistarverk þótt að það sé undir nefinu þá þér!

 31. Guðfinnur Sveinsson says:

  Mér finnst þetta frekar hörð gagnrýni á plötuna. Að mínu mati er þetta ein allra besta plata með íslenskum flytjendum fyrr og síðar!

  Platan leiðir mann inn í einhvers konar undursamlegt ferðalag hljóma sem gerir það að verkum að manni getur ekki liðið öðruvísi en vel við hlustunina.

  Frábær plata í alla staði og fær 4,5 af 5 hjá mér (9 af 10).

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.