• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Útgáfutónleikar Dikta

  • Birt: 02/12/2005
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Útgáfutónleikar Dikta

Gaukur á Stöng 16. nóvember

Dikta hélt hressa tónleika á Gauki á Stöng. Mr. Silla hitaði upp.
Það er miðvikudagurinn 16. nóvember og fólk er mætt tímanlega á útgáfutónleika Dikta á Gauknum. Um klukkan hálf tíu er staðurinn orðinn gott sem fullur og enn hálftími í það að stúlkan með feminíska nafnið, Mr. Silla, gangi á svið. Ég hafði náð mér í borð undir hljóðmannabúrinu, enda mestar líkur á að fá gott sánd þar, og sit þar rífandi plastið utan af nýkeyptri plötu Dikta, Hunting for Happiness. Meira um hana seinna.

Mr. Silla er ung og efnileg stúlka sem stígur á svið vopnuð gítari og fartölvu. Hún er látlaus, í gallabuxum og hettupeysu, og tekur sex laga prógramm, þar af eru fjögur tökulög og sjálfur er ég ekki viss um þau tvö sem ganga af, hvort þau séu frumsamin eða ekki. Þau hverfa alla vega í skuggann af hinum sem eru m.a. „Prototype“ með Outkast (eða Andre 3000 eftir því hvernig maður lítur á það) og „Lose My Breath“ með Destiny’s Child. Ég tel mig nokkuð góðan að hafa þekkt hið fyrra en þurfti hjálp með það seinna.

Mr. Silla útfærir tökulögin sín á þann hátt að róa þau niður og gerir þannig ballöður úr mishressum lögum. Mér finnst þessi stíll orðinn ofnotaður, líkt og þegar róleg lög eru tekin og gerð að háskólarokklögum, og mundi ég vilja sjá þessa frábæru söngkonu nýta hæfileika sína á skilvirkari hátt. Tölvutaktarnir hennar bera vott um takmarkaðan skilning á trommutöktum og gítarspilið er óöruggt og sumsstaðar alveg óþarft. Allan tímann er ég að velta fyrir mér hvernig hún myndi hljóma með metnaðarfullri hljómsveit. Salurinn er þó að fíla þetta.

Eftir stutt hlé er sviðið orðið myrkvað og meðlimir Dikta læðast inn á sviðið undir áköfu lófaklappi. Þeir koma sér fyrir og hefja leikinn á „Losing Every Day“, upphafslagi nýju plötunnar, án þess að kveikja ljósin. Ingi Ókind situr við ljósaborðið í búrinu og ég sé nú að við eigum eftir að fá vel ígrundaða tónleika, bæði hvað varðar tónlist og ljósa„showið“. Tónar fyrsta lagsins byggja upp þunga og rytmíska stemmningu þar sem Haukur Heiðar Hauksson söngvari situr til hliðar við hljómborðið og er því enginn frontmaður til að einblína á. Í rökkrinu er það tónlistin sem fær að ríkja.

Að stórgóðu fyrsta lagi loknu fær krafturinn að taka við, Dikta tekur til við að rokka og ljósin fara að blikka. Þessi sveit er mjög vel samhæfð og gefur mikið af sér við flutninginn. Þeir eru kannski ekki hoppandi út um allt sviði, eru frekar látlausir í sviðsframkomunni, en tónlistin hreyfir við manni og Haukur syngur betur en ég hef heyrt í honum áður. Ég sá eitt sinn tónleika þar sem hann var hálflatur við að syngja en svo er ekki raunin í kvöld. Helst er gaman að Skúla bassaleikara þar sem hann festir bassann alveg upp undir handakrika, með tilheyrandi skekkingu líkamstellingarinnar, og stígur sinn minimalíska dans. Ekki dregur það úr því að hann er greinilega „fyndni gaurinn“ í sveitinni og fær mann til að brosa með minnstu svipbrigðum. Mætti þó vinna aðeins meira í bakröddinni.

„Nákvæmlega. Þarna er hann. Hressi gaurinn“, segir Haukur Heiðar söngvari Dikta eftir tónleikagestur gargar yfir salinn. „Við pöntuðum þrjá, fengum bara einn“, bætir hann við og steinrotar mann. Þeir spila alvarlega tónlist en Dikta tekur sig engan veginn of alvarlega á sviði, tala kannski ekki út í eitt en Haukur söngvari heldur uppi stemningunni með því að dæla úr sér fimmaurunum milli laga. Sumir hverjir hitta beint í mark, aðrir kannski ekki eins nákvæmir.

Dikta tekur tólf lög, sum eftirminnileg, önnur ekki eins en engin auðgleymanleg og það er ánægjulegt að heyra að þeir leyfa sér að sýna tilfinningar í lögum sínum í bland við rokkið. Hápunkturinn kemur í laginu „This Song Will Save the World“ þar sem þrír gestaspilarar koma upp á svið og taka í gítar, trompet og hljómborð. „Þrír gítarar í einu“, segir Haukur, „Þetta hefur aldrei verið gert áður“. Þrátt fyrir plássleysi á sviðinu er engan veginn þröngt á þingi í laginu og er flutningnum er lokið er ég búinn að fá peningana virði fyrir kvöldið. Og ekki er allt búið enn.

Tíminn flýgur og áður en ég veit af þá eru lög plötunar öll liðin hjá og Dikta þakkar fyrir sig. Eins og hefð er fyrir þegar fólk er ánægt með framkomu sveitarinnar þá eru þeir klappaðir upp, nokkuð sem þeir segjast hafa „gleymt“ að undirbúa sig undir og enda á því að spila „Tamínóru“ vegna óska áhorfenda. Mig grunar að það sé ekki uppáhaldslagið þeirra þar sem það á rætur sína að rekja til Músíktilraunatímabils þeirra en þeir láta það ekki á sig fá og enda kvöldið með sóma. Lög kvöldsins eru „This Song Will Save the World“, „Chloë“ og „My Other Big Brother“. Ég þakka kærlega fyrir mig.

Leave a Reply