Brynhildur & BBØ’s – Grrrr…

Brynhildur & BBØ's - Grrrr...
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2005
Label: 12 Tónar

…ágætis kóverplata með sjarmerandi leikkonu.

Brynhildur Guðjónsdóttir, betur þekkt sem hin íslenska Piaf, hefur algjörlega slegið í gegn í leikritinu Edith Piaf sem sýnt hefur verið undanfarin misseri í Þjóðleikhúsinu og er hún líklega vinsælasta leikkona Íslands um þessar mundir. Í fyrra kom út platan Edith Piaf með lögum úr leikritinu, öll sungin af þessari þokkafullu leikkonu með stóru augun. Hið farsæla samstarf sem Brynhildur hefur átt með meðleikurum sínum í leikritinu og með útgáfufyrirtækinu 12 Tónum hefur leitt af sér plötuna Grrr…. Á plötunni leikur hún ásamt þrælflinkum spilurum sem af einhverju ástæðum kalla sig BBØ’s (ég veit ekkert hvað þetta þýðir), þeim Birgi Bragasyni bassaleikara, Tatu Kantomaa harmónikkuleikara og Matthíasi Hemstock trommuleikara. Þeir tveir síðastnefndu eru einmitt meðlimir Rússíbananna, sem gefur okkur vísbendingu um hvers konar hressum hljóðfæraleik má eiga von á á plötunni.

Platan er samansafn af erlendum kóverlögum af ýmsum toga, t.d. með Patsy Cline, Eartha Kitt og Astor Piazzola. Ábreiðurnar eru í mínímalískum útsetningum hljóðfæratríósins sem ná þó að gera mikið úr litlu. Útkoman getur verið skrautleg, enda ekki auðvelt að ímynda sér t.d. Blondielag með harmónikku, bassa og trommum. Ábreiðurnar eru misgóðar, sumar frekar flatar og óspennandi en aðrar rífa þetta upp með sjarmanum í Brynhildi og skemmtilegum hljóðfæraleik.

Kóverlögin eru á ensku, ítölsku og spænsku, og spanna ýmislegt frá huggulegum djassidjass yfir í popp frá áttunda áratugnum eins og Blondie lagið „Hangin on the Telephone”, með sætri bassalínu og fyndnum harmónikkuleik. Astor Piazzola lagið argentínska „Libertango” er hér ásamt texta Grace Jones og kallast „I’ve Seen That Face Before”. Lagið er pottþétt, strákarnir spila það vel og Brynhildur er með fína djúpa rödd. Kántrífílíngurinn næst síðan nokkuð vel í Patsy Cline laginu „Walking After Midnight”, þar sem nikkan kemur í stað slidegítars í upprunalega laginu.

Í laginu „Baby It’s Cold Outside” syngur Brynhildur dúó ásamt hinum landsþekkta dægurlagasöngvara Krumma úr Mínus. Nei, afsakið, hann er víst harður rokkari. Ég spái því að innan nokkurra ára gefi Krummi út sólóplötu með ástarballöðum. Þetta þarf ekki að vera slæm þróun því hann er með sallafína rödd í ætt við Rottugengið. En þessi plöturýni er ekki um hann, snúum okkur því aftur að Brynhildi.

Rödd Brynhildar er þétt og kröftug en maður fær það á tilfinningunni að hún syngi aldrei frá hjartanu, heldur sé alltaf að leika hlutverk. Það glittir helst í einhverja einlægni í Pointer Sisters ábreiðunni „Slow Hand”. Til lengdar verður allur þessi leikur þreytandi, enda er hér eingöngu um tónlist að ræða og manni finnst helst vanta sjónrænu hliðina.

Hljóðfæraleikurinn allur á plötunni er sérstaklega skemmtilegur og vil ég nefna t.d. brillíant harmónikkuleik Tatu í laginu „Where Is My Man?” undir lokin. Þetta sama lag skartar einnig rispum (e. scratch) frá Gísla Galdri og er sennilega besta lag plötunnar. Það hefði verið gaman að heyra meira af svona samsuðu.

Þetta er ágætis kóverplata með sjarmerandi leikkonu fyrir þá sem hafa áhuga. Aðdáendur hinnar íslensku Piaf ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum.

3 responses to “Brynhildur & BBØ’s – Grrrr…”

 1. Gunnar says:

  Ég held að það sé Brynhildur & the BBQ’s (Barbeques semsagt).

 2. Guðjón says:

  ég hélt að það væri BBQ´s líka en skv 12tonar.is er það með Ö en svo segir skifan.is að það sé með Q.

  Veit einhvern hvað er rétt?

 3. Sigrún says:

  Já, ég verð að segja að mér finns platan eiga meira en 2,5 stjörnur fyrir. Ég er sammála greinarhöfundi um hvað platan er frumleg og fjörug, Brynhildur er með himneska rödd, og sýnir á þessari plötu hversu fjölbreytt hún er. Mér finnst hins vegar að greinahöfundur mætti greina frá því hvað það var sem dró plötuna niður í einkunn, hverjir gallarnir voru, fyrir utan þegar hann segir að platan sé þreytandi til lengdar og hann fái á tilfinninguna að Brynhildur sé ekki að syngja frá hjartanu.
  Takk fyrir

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.