• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

The Prodigy – The Singles – 1990 – 2005

 • Birt: 04/12/2005
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 4

The Prodigy - The Singles - 1990 - 2005
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2005
Label: XL Recordings / Smekkleysa

Svo er alltaf gott að eiga plötuna fyrir partý enda mörg ansi dansvæn lög þarna.

Árið er 1992, staðurinn er Vitinn, félagsheimili unglinga í Hafnarfirði. Ungur drengur heyrir lag, lag sem er ólíkt öllu öðru og heltekur hann. Lagið er „Out of Space” með The Prodigy. Ekki minnkar áhuginn þegar drengurinn sér myndbandið og sér Leeroy taka þessa fáránlega hröðu og flottu fótahreyfingu sem drengurinn átti aldrei eftir að ná en vildi svo mikið. Svona mætti kannski lýsa kynnum mínum af The Prodigy og tónlistinni sem ég vanalega kalla ’92 tónlist, rave-ið. Fleiri lög áttu eftir að fylgja í kjölfarið og ég átti eftir að fíla þau.

Núna einum þrettán árum siðar er kominn út diskurinn Their Law – The Singles 1990-2005 sem eins og nafnið gefur til kynna eru smáskífurnar af plötunum. Gripurinn sem um ræðir er 15 laga diskur og er skiptingin nokkuð jöfn en samt er aðeins meiri áhersla á fyrri tvær plötur hljómsveitarinnar, Experience og Music for the Jilted Generation. Hvort ástæðan sé sú að þeir einfaldlega gáfu út fleiri smáskífur á þeim tíma veit ég hreinlega ekki en þetta er ágætis blanda hérna. Öll lögin sem þú býst við eru hérna, enda eru þetta jú smáskífurnar og því kannski ekki hægt að gagnrýna það að eitthvað uppáhaldslagið þitt sem aldrei varð smáskífa vanti. Það hefði verið hægt ef þetta væri Best of.

Það er nokkuð augljóst að rætur The Prodigy liggja í dansmenningunni og eftir því sem árin liðu og stíllinn þróaðist, þróuðust þeir með og rokkið kom inn í þetta og svo rappið en undirstaðan er alltaf þessi feiti taktur sem lætur þig vilja dansa. Eins og áður kemur fram voru þeir í framvarðarsveit rave-ins og sannar Experience það mjög vel. Lög eins og „Charly”, „Out of Space” og „Everybody in the Place” eru hérna og eru mjög gott dæmi um rave-tónlistina. Sumar smáskífurnar frá þessum tíma hljóma öðruvísi en sömu lögin á plötunni. T.d. er „Charly” í smáskífuforminu betri heldur en útgáfan á plötunni að mínu mati.

Þegar Music for the Jilted Generation kom út var greinilegt að hljómsveitin var að þróast. Syntha-píanólínurnar fengu í auknu mæli að víkja fyrir hörðum gítarriffum í anda Rage Against the Machine en takturinn var ennþá til staðar, jafnvel harðari en á fyrirrennaranum. Persónulega finnst mér Music for the Jilted Generation vera besti diskurinn, besta heildin og mesta fjölbreytnin og á honum er að finna eitt besta lag þeirra, „No Good (Start the Dance)” sem minnti óneitanlega á gamla efnið þeirra frá Experience en passaði samt svo vel inn í nýja efnið. Mætti jafnvel segja hlekkurinn milli platnanna enda minnir mig að þetta hafi verið fyrsta smáskífan. Annað frábært lag er svo „Voodoo People” sem er meira í tengslum við það sem þeir voru að þróast út í. Danssmellur dauðans.

Á The Fat of the Land urðu meiri breytingar. Maxwell og Keith fengu meira vægi og í stað þess að vera dansarar og að öskra einstaka frasa fóru þeir að rappa og syngja, svona nokkurn veginn. Þessi lög hafa jú ekki rosalega texta. „Firestarter” var fyrsta smáskífan og ég man hvað hún algjörlega skaut mig í kaf þegar ég heyrði hana fyrst. Krafturinn sem lagið bjó yfir var þvílíkur að maður hálfpartinn nærðist af honum og fór í dansæði. Í kjölfarið fylgdi „Breathe” og ég sannfærðist um að The Prodigy væri ein besta hljómsveit í heiminum, allaveganna danshljómsveit. Hver man svo ekki eftir dónalega myndbandinu við „Smack My Bitch Up” sem var bannað á flestum sjónvarpsstöðum og var bara spilað á kvöldin? Ef ég ætti að nefna eitthvað sem mér finnst einkenna þennan tíma hjá þeim og þessa plötu er hversu feitur takturinn er, allaveganna í þessum þremur smáskífulögum sem ég hef talið upp og hvað lögin eru ótrúlega dansvæn. Enda voru þau öll ósjaldan spiluð ef það var bjórkvöld í skólanum.

Ég verð að viðurkenna að ég hef nánast ekkert heyrt Always Outnumbered, Never Outgunned nema ef vera skyldi smáskífurnar. Menn tala um að þarna sé að hluta til afturhvarf til taktsins sem réð ríkjum í kringum Experience plötuna en undir áhrifum samt frá nýrra efni. „Girls” er t.d. bæði mjög retró, samanber taktinn og byrjunina á laginu en eftir því sem líður á lagið fara áhrif frá Aphex Twin að koma fram og þá sérstaklega í undirspilinu. Af þessari plötu er líklega leiðinlegasta lagið á þessari plötu að mínu mati „Hot Ride” þar sem Juliette Lewis syngur hluta laglínunnar úr „Up, Up and Away”. Það er bara eitthvað við þetta lag sem fer í taugarnar á mér en það er svo sem ekkert við því að gera.

Það er svolítið sniðugt að gefa út svona smáskífuplötu því þá er hægt að hindra að upp komi kröfur um að hitt eða þetta lag sé á plötunni eða að eitthvað lag vanti. Þetta eru bara smáskífurnar og þær eru þarna allar, nema „Baby Got a Temper” sem er líka slakt lag og ég held ég hafi heyrt að Liam fíli það ekki. Eitt annað sem er líka sniðugt við svona plötu er að ef einhver vill kynna sér hljómsveitina þá er þetta hálfgerður leiðarvísir og hlustandinn ætti að geta fundið út frá smáskífunum hvaða plötu hann gæti fílað. Það reyndar vantar meiri upplýsingar í bæklinginn sem fylgir til að þetta gangi fullkomlega eftir – hann er soldið rýr. Svo er alltaf gott að eiga plötuna fyrir partý enda mörg ansi dansvæn lög þarna.

4 Athugasemdir

 1. Maggigunn · 09/12/2005

  Nýja platan er ekki í sömu gæðum og hinar þrjár. En þær eru allar frábærar.

  Tónleikarnir sem The Prodigy hélt í fyrra voru góðir. Djöfull eru Keith og Maxim kúl á sviði. Ef ég hefði verið 10 ára drengur á þessum tónleikum þá hefði ég verið skíthræddur.

 2. Maggigunn · 09/12/2005

  Þegar ég talaði um nýju plötuna átti ég ekki við þessa plötu sem er verið að dæma, heldur Always Outnumbered, Never Outgunned.

 3. Þorsteinn · 12/01/2006

  Alveg hjartanlega sammála með að Charly lagið sem er á smáskífunni er MUN betra en það sem var á breiðskífunni.

  Varðandi síðari tvær plöturnar (Fat of the land og Always Outnumbered, Never Outgunned), þá eru þær töluvert tormeltar í byrjun, en með smá þolinmæði og hlustun verða þær að meistaraverkum. Man sérstaklega hvað ég taldi mig hafa misst trúna á Prodigy þegar ég heyrði Always Outnumbered, Never Outgunned fyrst. En svo núna er hún rétt á eftir Experience yfir þeirra bestu diska.
  Fat of the land verður samt ávallt þeirra sísta plata, enda væntingarnar orðnar svo gríðarlegar eftir alla biðina að það hefði ekki verið hægt að gera manni til geðs þá 😀

 4. hrafninn · 25/02/2006

  liam howlett er einhver mesti snillingur sem hefur synt með meginstraumnum gegnum árin.

  pottþéttur slagarabanki…

Leave a Reply