Megasukk – Hús datt

Megasukk - Hús datt
Einkunn: 3
Utgafuar: 2005
Label: Smekkleysa

…að mestu skemmtilega slísí og flott.

Ég er á þeirri skoðun að ef öll heimsbyggðin talaði sama tungumálið þá væri Megas almennt álitinn besti textahöfundur veraldar. Flóknara er það ekki. Það getur því verið dálítið erfitt að setja út á menn eins og Megas. Manni finnst þeir einfaldlega ekki eiga það skilið. Við skulum samt reyna.

Megas og kórdrengirnir í Súkkat, þeir Hafþór og Gunnar, hafa troðið upp saman undir safnheitinu Megasukk reglulega í áratug. Tíu ár er óralangur tími og líklega flestir á því að plata frá þeim félögum sé löngu orðin tímabær. Þeir hefðu hins vegar kannski mátt leggja öllu meiri metnað og vinnu í hana.

Þegar ný plata sem Megas er á einhvern hátt viðriðinn ratar í greipar manns þá er eftirvæntingin eðlilega mest eftir textunum sem kallinn býður upp á. Það verða því að teljast nokkur vonbrigði að stór hluti lagatextanna á Hús datt eru alls ekki eftir Megas – eða þá Súkkatdrengi – heldur ýmist hálfgerð tökulög eða gömul ljóð yfir nýjum lagasmíðum. Þetta heppnast þó sem betur fer oft mjög vel. Megas og félagar skilja auðvitað manna best hvaða ljóð annarra eru hnyttin og skemmtileg og við hæfi að prýði plötu eins og þessa. Þannig má þarna finna tvö lög með textum eftir Jónas Árnason sem smellpassa sem rólegri lögin inn á milli óknyttanna í Megasukkspiltum og eitt ljúft og gott lag undir ljóði nóbelskáldsins, „Ontaríó“, sem ég kýs að kalla einskonar forvera megasískrar textagerðar. Eins tekst þeim einhvern veginn – merkilegt nokk – að blása nýju lífi í það úrsérgengna lag „Á fætur“ eftir Grím Thomsen („Táp og fjör og frískir menn“). Önnur tökulög eru verr heppnuð. „Laugardagskvöld“ eftir Magnús Ásgeirsson og lagið „Vindlingar og viskí“ sem Haukur Morthens gerði það gott með um árið eru óþarfi og til þess fallin að hoppað sé yfir þau og ljóð Jónasar Hallgrímssonar, „Hugnun“, fellur flatt í þeim búningi sem þeir kjósa að klæða það í.

En fyrir þá sem vilja njóta orðsnilldar Megasar er eftir sem áður af nógu að taka. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvað Megas átti við þegar hann sagði í viðtali um daginn að á Hús datt væri að finna eintómt gleðipopp. Nú verð ég seint talinn til hneykslunargjarnari manna – ég kippi mér lítið upp við húmor af allra grófustu gerð hef kosið að líta svo á að ekkert sé til sem ekki megi grínast með. Samt sem áður liggur við að mér finnist magnið af klúrheitum í textum Megasar á þessari plötu vera kannski, hugsanlega, allt að því óviðeigandi – svona á hátíðarstundum. Auðvitað er hægt að gera slíka texta almennilega og fara vel með það – það sanna margir textanna á Hús datt sem eru oft lystilega vel samdir og góðir. En þegar annað hvert lag er farið að fjalla um einhvers konar kynferðismisnotkun, gjarnan á börnum, þá er gamanið nú farið að nálgast hættumörk.

Að því sögðu þá er þetta að mestu skemmtilega slísí og flott. Megas snýr upp á eigin texta þegar hann breytir sígildu „Fatlafóli“ í „Fólafat“ og gerir að óforbetranlegum barnaníðingi sem „lymskaði með sleikjó lítil börn til sín“. Lagið á tæpast möguleika á að velta forveranum úr sessi sem ein helsta útileguklassík síðari ára, en er meira en nógu ferskt til að réttlæta eigin tilvist. Sérstaklega er skemmtileg samfélagsrýnin sem birtist í línunni um ákveðinn umtalaðan fjölmiðil. Megas gerir hlustendum mikinn óleik, líklega vísvitandi, með laginu „Pabbarabb“, þar sem hann flytur fremur óbarnvænan texta yfir lagi sem margir ættu að kannast við af gamalli jólaplötu Ómars Ragnarssonar („Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla í gamla hellinum“). Nú er jólalagið ónýtt – en það er óneitanlega sterkt að tengja þetta umfjöllunarefni jólunum á þennan hátt. Óskapnaðurinn er svo trappaður niður um nokkur stig í laginu „Ljóðað á lausráðna“, með persónulegustu og flottustu lögum plötunnar, þar sem segir meðal annars: „Létta þungu feigðarfargi/ af fegurð kvölds og lífs sem fjarar/ út og nakin nærðu bjargi/ nauða af sál í viðjum karar.“

Enn betri eru þau sárafáu lög þar sem meintri klámfengni er sleppt. Textinn við lagið „Fljótfærni“ er með þeim skemmtilegri sem finna má á plötunni og í laginu „Guðjón 2000“ er hlustanda tilkynnt að hann sé sjálfur Guðjón á ótal stöðum – þó ekki inn við beinið í þetta sinn. Lag Súkkatmanna, „Kúkur í lauginni“, er að finna í nýrri mynd undir heitinu „Bessastaðablús“ og þar fá að fljúga óborganlegar línur eins og „Ég er kúkur í lauginni/ láttu það berast hvar ég er/ því ég á von á því að forsetinn loks fatti/ hvar fálkaorðan best mundi sóma sér.“

Lítið er hægt að setja út á tæknilega hlið plötunnar. Hljóðfæraleikur er allur hinn glæsilegasti enda valinn maður þar í hverju rúmi. Það sem helst gæti angrað, einkum og sér í lagi við fyrstu hlustun, er það þegar raddir Megasar og Hafþórs fá að hljóma samtímis – sem er óþarflega oft. Hafþór sér víðast hvar um að syngja laglínuna nokk eins og hún var samin en Megas fer um víðan völl og bætir hinum og þessum tilbrigðum við aðra hverja línu. Það er eins og þeir hafi ekki heyrt hvor í annars söng við upptökur og það virkar fráhrindandi á sumum stöðum. Þetta vandist hins vegar sem betur fer mjög fljótt að mestu og kemur sums staðar frábærlega út, t.d. í „Á fætur“ og „Það stendur skrifað“ en venst ekki og er beinlínis óþægilegt annars staðar, t.d. í „Hugnun“ og „Bjarni bróðir“.

Eftir jafnlangt og farsælt samstarf bjóst ég satt best að segja við merkilegri plötu frá Megasukkinu. Ekki svo að skilja að platan sé slæm, alls ekki, en það þarf ekki að leita lengi til að finna mun betra efni frá hvorum um sig. Á Hús datt eru of fáir orginalar og allt að því þreytandi magn af sóðaskap. Vonum bara að þeir geri betur næst.

3 responses to “Megasukk – Hús datt”

  1. Ívar Erik. says:

    Ég held að fyrsta línan úr þessari rýni hafi einhvern tíma fengið að hljóma úr mínum eigin kjafti. Fullkomlega sammála þessu.

    Plötuna hef ég hins vegar ekki heyrt, fyrir utan einhver tvö lög, sem mér fannst því miður frekar fráhrindandi. Þori einhvern veginn að leggja í hana, er nokkuð viss um að hún standi ekki undir mínum væntingum, en þær fara nú reyndar minnkandi með hverjum deginum.

  2. Ég er að fýla þessa plötu í botn. En ég er þó ekki sammála þér að það sé um of að megas fari of frjálslega með laglínurnar. Mér finnst það vera mjög einkennandi fyrir þá að hafa þetta svona frjálslegt og óhefðbundið. Mér finnst það einmitt passa langflottast í laginu Bjarni bróðir.

    Þessi plata fær fullt hús hjá mér, maður þarf bara smá tíma til að kyngja henni niður en þegar maður rýnir vel í hana þá kemst maður að því hvursu mikið meistaraverk þetta er.

  3. Ég er búinn að hlusta á þessa plötu annað slagið í nokkra mánuði. Ég verð hrifnari við hverja hlustun. Ég er þó sammála að textarnir eru óþægilega grófir á köflum. Mér fannst líka mjög erfitt að hlusta á samsönginn til að byrja með. Í dag finnst mér þetta eitt sterkasta og besta einkenni plötunnar. Ég er algjörlega ósammála því að samsöngurinn í laginu Bjarni bróðir sé óþægilegur. Mér finnst einmitt þar séu þeir ótrúlega samstíga og góðir. Litla ljót finnst mér vera mjög hresst og skemmtilegt lag, verst að textinn er ekki boðlegur hverjum sem er. Ég vil taka það fram að ég hlusta nær einungis á plötuna í heyrnatólum. Ég get ekki boðið nærstöddum uppá klámvísur af þessu tagi, hvað þá börnum mínum. Það finnst mér frekar sorglegt, því að börnum mínum hefur þótt gaman að hlusta á eldra efni Súkkats. Sér í lagi Fjap.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.