• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Singapore Sling – Taste The Blood of Singapore Sling

 • Birt: 22/12/2005
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 6

Singapore Sling - Taste The Blood of Singapore Sling
Einkunn: 4
Utgafuar: 2005
Label: 12 tónar/Sheptone

Singapore Sling tekur enga áhættu á þessari plötu, heldur gerir það sem hljómsveitin gerir best; að spila hrátt, skítugt og kröftugt rokk

Fyrir þremur árum síðan gaf Singapore Sling út sína fyrstu plötu, Curse of Singapore Sling, sem var ein ferskasta plata ársins 2002. Í fyrra kom svo út önnur plata hljómsveitarinnar, en ganrýnendur hér heima voru ekki allir á einu máli um gæði hennar. Aðeins þremur mánuðum síðar virtist sem að hljómsveitin myndi halda yfir móðuna miklu, því þrír meðlimir hljómsveitarinnar höfðu þá yfirgefið hana og sá fjórði var í námi í Japan. Singapore Sling spilaði þó á Airwaves hátíðinni líkt og til að sanna að hún væri engan vegin á förum, og í byrjun næsta árs var hún orðin fullmönnuð á ný.

Hefur hljómsveitin nú gefið út sína þriðju plötu, rúmu ári eftir að flestir höfðu afskrifað hana. Platan ber heitið Taste the blood of Singapore Sling og eru fram- og afturhliðar plötunnar álika smekklegar og nafnið. Hljómsveitin hefur sjaldan verið jafn þétt og virðast nýir meðlimir smellpassa inn í hljómsveitina. Við fyrstu hlustun minnir platan um margt á fyrstu plötu sveitarinnar, bæði hvað varðar gítarhljóm og stemningu en við nánari hlustun má merkja fleiri utanaðkomandi áhrif en áður. Singapore Sling tekur enga áhættu á þessari plötu, heldur gerir það sem hljómsveitin gerir best; að spila hrátt, skítugt og kröftugt rokk, þar sem gítarinn er í aðalhlutverki. Hljómsveitin notar trommuheila í fyrsta skipti á þessari plötu, en hún þurfti að reiða sig hann á meðan hana vantaði trommuleikara síðasta vetur, og þjónar það lögunum ágætlega. Dauðinn er Henriki Björnssyni, aðalsprautu hljómsveitarinnar, greinilega mjög hugeikinn þar sem orðið „dead” kemur fyrir í tveim lagatitlum.

Fyrsta lagið á plötunni ber heitið „Song for the Dead“ og lofar það mjög góðu um framhaldið, hraðar kröftugar gítarstrokur í bland við angurværa harmóníu sem kann að hljóma þversagnarkennt í fyrstu en virkar í raun mjög svalt á mann. Annað lag plötunnar, „Blues in Black“, hefst eins og þýskt krautrokk lag í anda hljómsveitarinnar Neu, en breytist þó um leið og söngur Henriks bætist ofan á gítarflóðið. Eftir það verður lagið ein heljarinnar rokkveisla sem líður áfram án þess að þreyta hlustandann nokkurn tímann. Einfaldleikinn hefur verið eitt af einkennismerkjun Slingaranna og hefur þeim farist það vel úr hendi til þessa. Á þetta til dæmis við þriðja lag plötunnar (þ.e.a.s. einfaldleikinn), „Saul“, sem raunar er veikasti hlekkur hennar. Lagið lofar mjög góðu í byrjun en hefur sig einhvern veginn aldrei upp yfir meðalmennskuna þrátt fyrir heiðarlega tilraun. Gaman væri samt að heyra það á tónleikum. Fjórða lag plötunnar, „Lose Your Head When Your Dead“, er hins vegar stórgott lag sem á mjög öflugan endasprett. „Long Past Crazy“ tvímælalaust besta lagið á plötunni og verður að teljast til betri lagasmíða Henriks. Fram að þessu hefur hljómsveitin aðeins tekið upp eitt lag eftir aðra höfunda, lagið „Dirty Water“ eftir hljómsveitina The Standells og færðu það þá í algjörlega nýjan búning. Hér tekur Singapore Sling aftur á móti gamalt lag eftir hljómsveitina The Cramps sem ber heitið „The Crusher“. Nálgunin er frekar hefðbundin og Henrik setur sig í hlutverk Lux Interior og ferst það bara vel úr hendi. Húmorinn sem fylgir upprunalegu útgáfunni hverfur þó undir þykku lagi af gítaróhljóðum í flutningi Singapore Sling, en það er frekar jákvætt heldur en hitt. Í „So Soft, So Hard“ má heyra endurómun frá fyrri verkum Singapore Sling. þegar tvær mínútur eru liðnar af laginu kemur gítarstef sem virðist ætla að lyfta laginu á nýtt plan og maður byrjar að setja sig í nýjar stellingar. Það endist þó því miður stutt og tekur lagið litlum breytingum það sem eftir lifir.

Á heildina litið er þessi plata virðingarvert framtak hjá Singapore Sling eftir allt sem á undan er gengið og lofar mjög góðu um framhaldið. Singapore Sling á engan sinn líka hér á landi og hefur auðgað tónlistarflóru Íslands hin síðari ár. Því er það fagnaðarefni í hvert sinn sem hljómsveitin gefur út nýja plötu.

6 Athugasemdir

 1. Davíð · 23/12/2005

  Fínn dómur, en finnst ekki alveg vera samræmi milli tölu (4) og orða. En það er maske bara vitleysa í mér.

 2. Palli · 23/12/2005

  Ég bjóst nú alveg við því að sumum mynda finnast vera misræmi á milli tölu og orða. En ég vil benda á það, að sumt sem kannski hljómar neikvætt í huga lesenda er kannski jákvætt í huga þess sem ritar. Til að mynda segi ég að hljómsveitin taki engar áhættur. Þetta finnst mörgum tónlistaráhugamnninum mjög neikvætt. Í þessu tilfelli finnst mér það jákvætt þar sem Singapore Sling eru að gera það sem þeir gera best, og í raun er enginn hljómsveit sem mér dettur í hug hér á Íslandi sem getur spilað þessa gerð af rokki eins vel. Eins gagnrýni ég tvö lög plötunnar, Saul annars vega og So Soft, So Hard hins vegar harkalegar heldur en önnur lög plötunnar. Þetta eru ekki slæm lög, langt í frá. Það vantar bara svolítið upp á til þess að þau gætu staðið jafnfætis öðrum lögum plötunnar.

 3. Gunni · 24/12/2005

  The Crusher er ekki eftir The Cramps heldur hljómsveitina The Novas frá Minneapolis. Kom út 1964. Bara smá besserviss… og gleðileg jól!

 4. Palli · 24/12/2005

  Takk fyrir þessar upplýsingar Gunni og gleðilega hátið.

 5. Hjalti · 26/12/2005

  Voðalega er þetta cover samt amatör…

 6. ásgeir · 14/06/2006

  hvað er etta, þetta er fínn slingari mar, flott lag

Leave a Reply