• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Ertu að verða náttúrulaus?

  • Birt: 09/01/2006
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Ertu að verða náttúrulaus?

Tónleikar í Höllinni, laugardaginn 7.janúar

Já kannski. En það er alltaf gaman að fara á tónleika.

Aðalástæða þess að ég fór á þessa tónleika var sú að lænöppið var svo frábært. Vissi t.d. ekki að það ætti að byggja eitthvað sem heitir Reyðarál og skildi ekkert hví Damon Albarn var að syngja lag sem hét Aluminum (ísl: Ál) en nú er ég mun upplýstari um það þökk sé tónleikaveislunni sem ég fór á í gær.

Mikið var um heilaþvott á þessum tónleikum. „Let water be water” og fleira djúpstætt birtist á skjánum meðan við biðum eftir þvi að dagskráin hæfist. Foss var látinn duna uppi á tjaldinu í svona hálftíma sem varð nú bara til þess að ég þurfti að þjóta á klósettið. Hafði kannski sterkari áhrif á hina tónleikagestina.

Tónleikarnir hófust nú að endingu með honum KK. Hann stóð sig vonum framar og var fullur af orku á sviðinu, þvílíkur kraftur. Björk tók við af honum og skilaði sínu fyrir Bjarkaraðdáendur. Ég er ekki aðdáandi hennar númer eitt en hún fékk mig til að hætta að geispa í smá stund (þungt loft skiljiði). Múm-liðar voru næstir á svið og stóðu sig með stakri prýði. Voru með kór með sér á sviðinu og fékk ég alveg gæsahúð þegar þau fluttu lögin sín. Vá,hvað þetta var flott sungið og frábærlega flutt af þeim. Hápunktur kvöldsins kannski? Nei ekki alveg, því hann átti eftir að koma, ótrúlegt en satt.

Sigur Rós steig á stokk næst á eftir Múm og tóku bara eitt lag, „Heysátan”, á meðan hinir flytjendurnir tóku þrjú til fjögur lög. Ég hefði nú viljað sjá meira af þeim en var þó ánægð með að fá að heyra fallegasta lag nýjustu plötu þeirra Takk.

Eftir smá pásu, kom Magga Stína á svið. Hún var soldið spes eins og venjulega. En þetta var nú alveg fínt hjá henni svo sem. Ég var þeim mun spenntari fyrir því sem eftir átti að koma. Tími til kominn að rokka aðeins upp í mannskapnum því geispin voru orðin ófá af minni hálfu yfir rólegheitatónlistinni sem dunið hafði yfir Höllina. Rass hristi alla þreytu úr manni svo vægt sé til orða tekið. Þeir voru helsvalir þarna á sviðinu. Tóku eins og við mátti búast, „Kárahnjúkar”, við mikinn fögnuð viðstaddra. Í lokalagi þeirra buðu þeir svo velkomna á svið lúðrasveit Vesturbæjarskóla sem tók með þeim lagið „Celebrations”. Þvílíkur flutningur! Mann langaði ekkert frekar en að dilla sér við taktinn sem barst af sviðinu.

Pönkararnir í Dr. Spock komu næstir á svið og að sjálfsögðu smeygði Óttarr sér í bleiku spandexbuxurnar sínar, hvað annað. Dr. Spock stóðu fyrir sínu eins og venjulega og var trommuleikarinn, Addi, alveg að tapa sér á trommunum, þvílík var stemmningin.

Nú var komið að hápunkti kvöldsins að mati undirritaðrar. Damien Rice steig á svið ásamt hljómsveit sinni. Hann byrjaði á því að taka lagið „The Blower’s Daughter” og gerði það vel. Fallega söngkonan Lisa Hannigan var þarna með honum og ljáði honum rödd sína. Seinna lagið sem þau tóku var svo „I Remember” sem byrjar afskaplega rólega með söng hennar Lisu en brýst svo út í brjálæðislegt rokk og ról af hálfu Damien. Hann var alveg óður á gítarnum og söng af svo miklum krafti að ég hélt að þakið myndi rifna af Höllinni (og nei, Nick Cave var ekki á tónleikunum til að gera það). Svo sannarlega hápunktur kvöldsins, að mínu mati.

Mugison og Hjálmar voru næstu atriði á eftir Damien. Mugison var flottur í Little Trip útgáfunni sinni af „Murr Murr” og lét alla syngja með í hmmm hmmm kaflanum. Það var fyndið. Allur salurinn að reyna að syngja hmm hmm hmm hmm hástöfum, sem er hægara sagt en gert. Mugison tók síðan „Ljósvíkingur” með Hjálmum sem var svona pínu falskt hjá þeim en allt í lagi samt og Hjálmar tóku síðan þrjú lög sjálfir og héldu uppi þessari líka góðu stemmningu.
Ghostigital voru næstir á svið, skrýtnir að vanda. Kannski er það bara ég, en ég er bara greinilega ekki nógu flippuð til að geta hlustað á öskrin í Einari Erni, með fullri virðingu fyrir honum. Þegar Damon Albarn gekk til liðs við þá í nýsamda laginu „Aluminum”, þá var kátt í höllinni. Ég er allavega búin að vera raulandi „babababa bababa aluminium” í allan dag, sætt og skemmtilegt popplag í anda Damon Albarn. Einar Örn kom svo við og við inn í lagið með eitthvað flippað innlegg eins og: „stíflurnar eru inni í hausnum á mér/ekki uppi á landi” – úff, flippaður gaur.

Ham og Egó voru nú þeir einu sem eftir voru. Rokkararnir í Ham voru flottir og tóku alveg fjögur lög. Óttarr Proppé kom fram með hvorki meira né minna en þremur hljómsveitum þetta kvöld og var helsvalur í hvert sinn. Rokkaði í Rass, flippaði í Dr. Spock og var aðaltöffarinn á svæðinu með rokkguðum Íslands í Ham.
Þegar þeir tóku „Partýbær”, þá ætlaði allt að verða vitlaust. Lýðurinn trylltist alveg hreint og ég reyndi eftir bestu getu að dilla mér aðeins þarna lengst uppi í stúkunni.

Bubbi kom svo að lokum fram með Egó til að setja punktinn yfir i-ið. Tóku þeir helstu slagarana sína, þar á meðal „Fjöllin hafa vakað” og enduðu tónleikana með pompi og prakt, já og nokkrum flugeldum.

Ég er ánægð með þetta framtak. Mér líður eins og ég sé nýkomin af Live 8 okkar Íslendinga. Eini munurinn er sá að í gær var sungið til bjargar náttúru Íslands (sem fáir hafa farið að skoða) en á Live 8 var sungið til bjargar sveltandi börnum. Hvort er mikilvægara? Ég er ekki hér til að dæma um það. Flottir tónleikar samt.

Leave a Reply