• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Helgi Hrafn Jónsson – Glóandi

 • Birt: 11/01/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

Helgi Hrafn Jónsson - Glóandi
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2005
Label: Material records

Undir radarnum flaug hann frá Austurríki með ljúfa plötu í farteskinu.

Helgi Hrafn Jónsson gaf út plötuna Glóandi í fyrra. Hún flaug undir radar fjölmiðlanna eins og svo margar aðrar. Hún kom inn fyrir landhelgina frá Austurríki þaðan sem Helgi gerir út án þess að nokkur tæki eftir. Helgi Hrafn hefur aldrei keppt í Idol stjörnuleit og því setja frænkur diskinn hans ekki jólapakka. Idolstjörnur fljúga hátt og þær sjást sko á jólagjafaradarnum. Nóg um það.

Helgi Hrafn hefur getið sér gott orð á undanförnum árum fyrir hæfileika í básúnuleik, meðal annars með Sigur Rós, áður með Beefolk, m.a. á listahátíð, og löngu löngu áður með Bossanova. Nú kemur Helgi með pjúra poppplötu. Enn bætir Helgi því á sig blómum – lengi getur hinn hæfaleikaríki klassískmenntaði básúnu(ein)leikari á sig blómum bætt.

Helgi flytur á plötunni tíu lög – þar af átta eftir hann sjálfan. Það er auðvelt að kenna lögin, útsetningarnar og flutninginn við það sem einkennt hefur hugljúfari og poppaðri enda popptónlistarinnar undanfarin ár. Auðvelt að láta hugan reika til Coldplay og slíkra popphljómsveita þar sem píanó og gítar skiptast á að vera í aðalhlutverki og söngvarinn á til að vera eilítið þjáður er hann lýsir sterkum tilfinningum sínum til tónlistarinnar. Til dæmis má nefna upphafslag plötunnar, „Make me fall“ , sem hefst á endurteknum píanóhljómum, söngurinn kemur inn og svo trommurinnar. Klassíkt form – alþekkt minni – engu að síður hið ágætasta lag. Fleiri lög falla að þessu formi á plötunni, nærtækast er að nefna næsta lag, „Hali Hali“ sem dæmi.

Titillagið „Glóandi“ er sungið á íslensku eitt tveggja laga á plötunni. Þegar ég heyrði það fyrst fannst mér það alltaf byrja hálf undarlega. Raddbeiting Helga ekki að grípa mig en lagið vex er líður. Ekki frá því að mér þyki meira spennandi að heyra hann syngja á íslensku. Skil reyndar ágætlega að einhver sem gerir út frá Austurríki syngi ekki á íslensku (hvar er þýskan?).

“Lighting up for good“ er að mínu viti helsta hittara efnið á plötunni. Með mjög lifandi viðlagi í sérlega coldplayskum stíl. Lagið sem þú myndir helst hoppa með á konsert. Rödinn hans Helga er ekki mjög stór og stundum hefur maður á tilfinningunni að hann sé ekki alveg búinn að ákveða hvernig hann ætlar að beita henni á plötunni. Stundum er hann mikið ofan í hálsi/koki í raddbeitingunni en lætur hana fljóta óþvingaða þess á milli.

Rómantíkin er víða innan seilingar. „Orbital“ er rólegur ástaróður þar sem rödd og gítarspila aðalhlutverkin og önnur hljóðfæri koma vart við sögu. Ágætt lag við kertaljós en frekar tilþrifalítið líkt og lögin „Circles Ashore“ og „Turnaround“ sem greipast illa í heilabörkinn.

Fyrirfram hefði ég búist við að blásturshljóðfæri léku stærra hlutverk á plötunni í ljósi bakgrunns höfundarins. Þau njóta sín þó vel þar sem þeim er teflt fram. Í saknaðarsöngnum „1993“, hinu laginu sem er sungið á íslensku, er blásturshljóðfærakaflinn snemma lags lang bestur og þegar básúnan fær að njóta sín í lokin setur hún skemmtilegan blæ. Meira brass næst takk.

Platan hefur fallegan heildarsvip. Lögin eru ágætlega útsett en söngurinn er oftast fremur tilþrifalítill – en þó fallegur. Lögin eru mörg hver heldur lík og mörg hver ekki mjög eftirminnileg. Ég var svolítið lengi að melta lögin, þau heilluðu mig ekki við fyrstu hlustun – eða aðra. Í dag eru „Make me fall“ og „Glóandi“ lögin sem mér hefur tekist að fá á heilann. Unnu mikið á, eftir mikla vinnu, og mér þykja þau þrælgóð í dag – sérstaklega hið síðara. Reyndar gildir þetta um mörg lögin. Virka sum hver óspennandi við fyrstu sýn en vinna vel á.

Platan gefur ágæt fyrirheit um tónlistarmanninn Helga Hrafn Jónsson. Spurningin er í mínum huga ekki hvort við heyrum meira frá Helga heldur fremur hvort við sjáum meira í þessum dúr eða þar sem básúnan, djassistinn eða hvaða mynd af hæfileikamanninum sem hann dregur fram næst, fær meira hlutverk. Svo má allt eins búast við skemmtilegm bræðingi af þessu öllu saman. Á maður ekki bara að vona það?

2 Athugasemdir

 1. Andrés · 24/01/2006

  Ég hef bara aldrei heyrt um þessa plötu. Myndbandið á síðunni er nokkuð skemmtilegt. Ágætis dómur.

 2. dodds · 14/02/2006

  Eg tel Helga Jónsson vera einn mesta talent í íslenskri tónlist í dag,Söngur Helga er mjög fallegur og músíkalskur, hann mótar laglínur á einstakan ljóðrænann hátt.Stundum örlar á framburði að Helgi er búinn að dvelja í Austuríki lengi.Öll lögin á plötunni eru góð,nokkur frábær,hljóðfæraleikur einstaklega góður, enda valinn maður í hverju rúmi.Frá fyrstu hlustun fannst mér þessi plata frábær.

Leave a Reply