Opeth – Ghost Reveries

Opeth - Ghost Reveries
Einkunn: 5
Utgafuar: 2005
Label: Roadrunner

Ég kláraði árslistann minn of snemma. Þetta er plata ársins.

Ég hef alltaf haft óbeit á dauðarokki. Mér finnst ég nánast gamall þegar ég heyri það því ég skil ekki útá hvað það gengur. Öskur og læti og drungalegheit. Textar um Satan, dauða og ógeð.
Vinur minn benti mér að að ég myndi örugglega fíla Opeth. Ég hélt nú ekki. Þótt ég hafi hlustað á Pantera, Meshuggah og ýmislegt þungt þá var ég sko ekki til í að gefa einhverju dauðarokksbandi séns. Enda heyrt í Deceide og ekki hrifinn af því. Ég var aldrei í þessari dauðarokksbylgju sem gekk yfir hérna fyrir nokkrum árum. Aldrei getað heyrt eitt einasta lag út úr þessari tónlist. Bara öskur og læti. Yfirleitt illa spilað líka. Eða kannski á það bara að vera þannig. Skiptir ekki máli. Ekki mitt stöff.
Svo fæ ég í hendurnar Ghost Reveries með Opeth. Vinur minn segir mér að gefa henni tíma og þá muni ég uppskera. Hmm… já auðvitað…iss. En sem tilraun þá verð ég að gera þetta og gefa þeim sanngjarnt tækifæri.

Fyrsta hlustun:

Platan byrjar með látum. Fyst koma nokkrir mjúkir gítarhljómar en svo koma öskur og lætu og mig langar strax að ýta á stopptakkann og henda disknum úr. Heil plata af þessu? Æi nei. En eftir nokkrar mínútur gjörbreytis lagið og dettur niður í gullfallegann kafla sem fær hárin á bakinu á mér að rísa. Hvað er þetta?
Snjallir að henda inn einum flottum kafla þessir drengir. Örugglega bara þessi eini og svo restin meiri öskur og læti þar sem ekki er hægt að greina mun á hljómaskiptingum. Bara grís. En hvað er þetta? Lagið bara heldur áfram að vera flott og verður flottara? Hmm.. kannski dæmdi ég þetta fullhart án þess að vita hvað ég var að fara að hlusta á.

Læt plötuna malla og opna netið til að fræðast aðeins um þetta sænska band. Á meðan ég er að því get ég ekki annað en tekið eftir því að þetta er allt öðruvísi en ég hélt að dauðarokk ætti að vera. Þetta er flott á köflum. Meirisegja mjög flott.

Ég les á netinu að þeir byrjuðu víst sem dæmigert dauðarokksband en hafa með árunum þróast út í fleiri stíla og meiri melódíur og minni öskrusöng og meiri venjulegan söng. Flott hjá þeim en ég á ekki eftir að endast þessa plötu í gegn. Endalaus kaflaskipti og mikið að gerast. Of mikið. En kannski er það vegna þess að ég er ekki að einbeita mér nóg?

Ég sé að þessi plata er að toppa árslistana hjá flestum rokkurum á netinu. Ekki alveg að kaupa þetta eftir fyrstu hlustun en þarna lag númer 4 er rosa flott samt, svona Zeppelin fílingur í því næstum, svona „Kashmir“ dæmi. Greinilega eitthvað spunnið í þetta band.
Ég kannski skelli henni í aftur við tækifæri og sjái hvort þetta vinnur á.

2 vikum seinna:

Ok. Sko þessi plata er búin að vera í spilaranum í bílnum mínum, tölvunni og heimilsgræjunum núna í svona 2 vikur án þess að ég verði leiður á henni og ég er alltaf að finna eitthvað nýtt og heillandi. Er ég dauðarokkari?
Ekki beint. Ég get ekki skilgreint þessa hljómsveit öðruvísi en tilraunaband; víst koma níðþungir kaflar með dauðarokkssöng (ég er farinn að fíla þá í tætlur!) en þeir eru ekki allsráðandi. En þvílíkur effekt þegar þeir koma inn sem mótsögn við restina af plötunni sem er ja.. hvað skal segja? Hreinlega falleg. En ekki í svona Anthony and the Johnssons/Sigur Rósar hugmynd af hvað er fallegt en falleg á annan hátt sem erfitt er að lýsa. Drungalega fallegt. Það er samt nokkuð sem er líkt með þessu og fyrrnenfndum listamönnum. Það er ástríða í þessari tónlist. Ég hef ekki heyrt svona vel samda og útsetta þungarokksplötu síðan.. ja síðan held ég bara aldrei. Hver einasta stund á þessari plötu skiptir máli. Það fer enginn tími til spillis. Engin uppfyllingarlög eins og eru á sumum plötum. Öll lögin hérna eru gullmolar og passa saman til að mynda eina heild. Maður tekur ekki eftir hvar lag endar og byrjar. Þessi plata hefur nánast dáleiðandi áhrif á mig. Það hefur gerst að ég hef sett á fyrsta lagið og ætlað að hlusta bara á það og ranka svo við mér þegar platan er að enda. Það er tilgangslaust að fjalla um stök lög. Platan í heild sinni er drungaleg en samt jákvæð á einhvern hátt. Stakar, einfaldar píanólínur birtast kannski alltíeinu eftir drungalega gítarkafla og á einvhern óskiljanlegan hátt passar það allt svo vel saman að maður tekur ekki eftir því.

Þessi plata kom mér aldeilis á óvart. Þið kannist öll við þessar plötur sem þið fílið alls ekki fyrst en svo alltíeinu: BANG! Og þið eruð húkkt. Þessi plata greip mig með kámugum krumlum og sleppir ekki. Ef ég hefði ekki verið búinn að skila inn árslistanum fyrir 2005 þá þyrfti ég að endurskoða hann. Munið hvað ég sagði um að þessi plata væri að toppa flesta árslista hjá rokkurum netsins? Það er ástæða fyrir því. Ég er reyndar alveg steinhissa á að þessi hljómsveit skuli ekki vera frægari en hún er. En kannski er það ekki skrítið. Þetta er ekki beint aðgengileg tónlist.

Þori ég að segja það? Kannski er ég brjálaður en þetta er plata ársins 2005 hjá mér. Engin plata á árinu hefur hreyft jafn mikið við mér, eða hrist jafn ærlega uppí mér skal frekar segja. Ég er búinn að vera að raula kafla úr lögum endalaust. Þessi plata ásækir mig í svefni og vöku. Það er einhver svartagaldur sem er stundaður þarna í Svíþjóð.

Það er erfitt að skrifa gagnrýni þegar maður er svona hrifinn af einhverju. Ég vill hljóma eins og atvinnumaður með rök og punkta en ég fer mjög fljótlega að blaðra eins og ástsjúkur unglingur með lýsingarorðadrullu þegar ég reyni að lýsa þessari plötu. Ég er búinn að reyna að skrifa gagnrýni sem er eðlileg (ef svoleiðis er til) en ég get það bara ekki. Þessi plata hefur hrært of mikið í mér til að ég geti hljómað eins og viti borinn maður.
Eflaust á enginn eftir skilja hvað ég er að meina að vilja gefa þessari plötu 5 stjörnur. En ef við lítum yfir sögu þungarokksins þá eru nokkrar lykilplötur sem hægt er að nefna. Til dæmis: Led Zeppelin IV, Highway to Hell með AC/DC, Paranoid með Black Sabbath, Master of Puppets með Metallica, Alive II með Kiss, Number of the Beast með Iron Maiden og fleiri. Þetta eru allt tímamótaplötur sem höfðu áhrif á alla tónlistarmenn í geiranum. Ghost Reveries með Opeth á heima í þessum flokki.

Þungarokk hefur verið í ákveðinni stöðnun á síðustu árum en hér eru Opeth að sýna okkur leiðina fram á við. Þeir taka fyrsta skrefið út í óvissuna og aðrir eiga eftir að fylgja á eftir. Þótt ég ætli ekki að missa mig alveg og kalla Opeth bestu hljómsveit í heimi og Ghost Reveries bestu plötu allra tíma eins og Kerrang! Magazine gerði þá ætla ég að segja þetta: Ghost Reveries er tímamótaverk, og á eftir að vera nefnd í sömu ándrá og þessar plötur sem ég nefndi hér að framan að nokkrum árum liðnum, þótt fáir viti af henni núna. En ég veit að þegar ég lít til baka yfir árin þá mun árið 2005 vera árið þar sem ég keypti íbúð, byrjaði að skrifa fyrir Rjómann og heyrði Ghost Reveries með Opeth í fyrsta sinn. Meistaraverk.

19 responses to “Opeth – Ghost Reveries”

 1. Arnar says:

  Nú langar mig að fara að hlusta á dauðarokk!

 2. Dagur says:

  Jámm, flott hjá ykkur að koma loksins með dóm um metal plötu! Ég er ekki mikill metal-fan en gjörsamlega nær mér og ég get ekki hætt að hlusta!! Þar á meðal er nýjasta plata The Dillinger Escape Plan, Miss Machine. Snilldar plata og þessir hljóðfæraleikarar eru meistarar, en maður verður að taka þessum hljómsveitum með opnum huga þótt maður sé ekkert endilega alltof hrifinn af tónlistarstefnunni. En allavega þá verðið þið að tékka á The Dillinger Escape Plan strax í gær!

 3. Kiddi says:

  hef aðeins heyrt í Dillinger Escape Plan með Mike Patton. Flott stöff.

 4. Arnar says:

  Veit ekki alveg með þessa plötu, rólegu kaflarnir eru frábærir, gítarsólóin mögnuð og söngurinn (þegar hann er ekki að öskra) er fallegur. Er samt ekki hrifinn af metal svona yfirleitt og þarf að pína mig til að hlusta á ‘hörðu kaflana’, og það er ekki gaman að pína sig til að hlusta á tónlist.

 5. Már Egilsson says:

  Já kannski maður kíki á þessa plötu, hef aðeins heyrt “Still Life” með þessum gaurum og finnst hún fín plata þó ég fái smá hroll í sumum hallærisköflum.
  Mikið er coverið á þessu annars ótrúlega fráhrindandi.

 6. arnarfreyr says:

  Sammála því að þetta cover sé fráhrindandi.. en ég hlustaði á tónbrot af amazon.com og þau þótti mér alls ekki fráhrindandi. Hlusta ekkert á metal en eftir þennan dóm er ég ekki frá því að ég líti aðeins við á þeim klúbbnum.

 7. Benni says:

  Mastodon. Það er aðal þungarokkshljómsveitin, slær öllum við.

 8. Kiddi says:

  Mastodon eru flottir, en mér finnst ekki eins og þeir séu alveg búnir að gera það sem þeir geta. Eru á réttri leið þó. Spenntur að heyra næstu plötu.

 9. Hallgrímur says:

  Frábær plata, en ég get nú ekki tekið undir að þetta sé neitt tímamótaverk. Þetta er meira rökrétt framhald af því sem Opeth hafa verið að gera, og ef ég ætti að velja eitt tímamótaverk af þeirra plötum mundi ég frekar hallast að Still Life, eða hugsanlega Blackwater Park.

  Ekki að það sé þarmeð sagt að þeir séu eitthvað að standa í stað eða endurtaka sig, þvert á móti, gáfu tildæmis út plötu gersneyddu öllu dauðarokki, Damnation, sem var nokkurskonar yin fyrir yang Deliverance. *andar* Gaman að sjá dóm um metalplötu á þessari skemmtilegu síðu.

  Ég hef ekki tjáð mig áður hér og vil bara nota tækifærið og óska aðstandendum til hamingju.

 10. Hallgrímur says:

  til hamingju með vefinn átti þetta að vera. Þó það sé nú gaman að fá metal-dóm kallar það kannski ekki á sérstakar hamingjuóskir.

 11. Kiddi says:

  mér finnst þetta nefnilega vera stórt stökk framávið frá Still Live og Blackwater Park. Það er eins og Opeth séu loksins búnir að fá öll elementin í tónlist sinni til að vinna saman. Damnation og Deliverance virðast hafa verið æfingar í sitt hvoru extreminu sem núna blandast ofurfínt saman í Ghost Reveries.

  Þessi plata ásamt Deadwing með Porcupine Tree eru alveg ómissandi fyrir alla tónlistaráhugamenn.

 12. Þorsteinn Kolbeinsson says:

  Er þessi Kiddi sem skrifar hérna sá Kristinn sem skrifar umsögnina sjálfa?

 13. Þorsteinn Kolbeinsson says:

  Er þessi Kiddi sem skrifar hérna sá Kristinn sem skrifar umsögnina sjálfa?

 14. Þorsteinn Sigurðsson says:

  Mér finnst þessi plata nú bara ekkert spes miðað við önnur (meistara)verk Opeth.
  Still Life og Blackwater Park tróna á toppnum.

 15. Heiðrún says:

  Ég get klárlega sagt að þessi plata sé með bestu plötum í Metali.
  Opeth eru snillingar á hljóðfærin og manni líður bara vel við að hlusta á þá.
  Það hefur verið sagt að Opeth og Dimmu Borgir séu bestu Black Metal hljómsveitirnar hljóðfærislega. Nóturnar og hljómurinn er svo vandaður og úthugsað. Sannkallaðir meistarar.
  Ég þekki nokkrar manneskjur sem eru ekki mikið fyrir Metal, en geta samt hlustað á Opeth. Þeir eru einfaldlega snillingar og þessi plata meistaraverk.

 16. Björn says:

  Hreint listaverk sem þessi plata er, ég er alveg fullkomlega sammála Heiðrúnu hér að ofan. Það eru ekki margar hljómsveitir sem geta haldið áhuga fólks gegnum lag sem er yfir 8 mín.

 17. lalli says:

  Opeth eru bara hreinir snillingar!!!
  eina orðið er VÁÁ!! ég heyrði eitt lag með þeim og ég varð að fá meira!! og nú er komin ný plata sem er hörð og svolítið róleg sem gerir opeth meiri atvinnumenn, í staðinn að öskra ekki einu sinni texta!!

 18. Jökull says:

  Heiðrún, þú ættir ekki að tjá þig um Opeth ef þú heldur að þeir séu black metall.

 19. Daníel Þór says:

  Öskra ekki einu sinni texta??? Hvað ertu að tala um lalli??

  Jæja mér finnst þessi plata ekki vera besta platan þeirra, en samt mjög góð. (eins og allar plöturnar þeirra)

  En til þess að hlusta á growl (“Öskur”) og þannig þurfið þið að hlusta á þetta aðeins þá venjisti þessu. Svo einfalt er það, ég þoldi ekki Death-/black-Metal og svoleiðis áður en ég gaf því séns og sko, núna fíla ég alveg Opeth og Children Of Bodom í BOTN! Ég er líka aðeins farinn að hlusta á Dimmu Borgir, Cannibal Corpse og svoleiðis.

  }-When the rich wage war, it’s the poor who die.-{

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.