• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Madonna – Confessions On A Dance Floor

 • Birt: 16/01/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 7

Madonna - Confessions On A Dance Floor
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2005
Label: Warner Bros.

Ekkert rugl, bara dans.

Madonna, ein mesta stríðshetja poppbransans, gefur hér út 10. stúdíóplötuna sína (að sándtrökkunum ótöldum). Confessions On A Dance Floor er, eins og mörgum er orðið kunnugt, gegnheil dansplata sem líður í gegn án nokkurs slits milli laga, allt í einni skvettu. Madonna er með einstaka hæfileika til að aðlagast tíðarandanum og búa alltaf til tiltölulega ferskt popp. Með öðrum orðum þá staðnast hún ekki í eigin tíma og verður að vorkunnarverðri tímaskekkju tónlistarbransans. 23 ár er heil eilífð í bransanum og þar að auki er ekki auðvelt að vera síferskur tónlistarmaður, 47-ára tveggja barna móðir og eiginkona. Ray Of Light var hin fínasta plata, en þetta var farið að líta ansi illa út á síðustu tveimur plötunum hennar, Music og American Life, þar sem hún var farin að klæðast kúrekastígvélum og syngja frekar hallærisleg lög með pólítískum og „sjálfskoðandi” texta. „American Life” var gott dæmi um hryllilegt lag sem fékk mig til að kafroðna í framan og loka augunum af skömm. Hún má þó eiga það Madonna að hún reynir alltaf að gera eitthvað nýtt.

Í þetta skiptið framleiðir hún plötuna með aðstoð og puttum Stuart Price, aka Les Rythmes Digitales / Thin White Duke / Jaques lu Cont, meðlimur Zoot Woman. Margir muna eflaust eftir Darkdancer plötunni hans sem kom út 1999 og hrundi af stað retróteknóöldu sem hressaði aldeilis upp á dansgólf bæjarins. Stuart Price tekur þátt í að semja öll lög nema tvö, „How High” og „Like It Or Not”, en þau eru gerð ásamt Bloodshy & Avanti og eru merkilega langsístu lög plötunnar. Kannski hefur „Toxic” lagið þeirra handa Britney bara verið heppni.

Platan byrjar á „Hung Up”, stórgóðu danslagi með sampli úr Abba-slagaranum „Gimme Gimme Gimme”. Eftirlifandi Abbar veita örsjaldan (bara einu sinni áður!) samþykki sín fyrir sömpl, en eftir Benny og Björn er haft að þeir voru einfaldlega svo hrifnir af því sem Madonna var búin að gera við lagstúfinn að þeir gátu ekki annað en veitt henni samþykki sitt. Það er hægt að skoða lögin á plötunni útfrá ýmsum atriðum, en það er alveg ljóst að þetta lag er með dansstuðulinn 9,5 af 10. Litla Abba-stefið matar feitan bassa og effektaþrungna framvindu sem stuðlar að gríðarlegu dilli og bomsi à la Price. Flestir ættu að hafa heyrt þessa fyrstu smáskífu á útvarpinu en það verður ekki annað sagt en að þetta er pottþéttur dansgólfatryllir.

Ef að finna á meðaldansstuðul allra laganna á plötunni, þá er hún ekki nema rétt yfir meðallagi, því eins gott og fyrsta lagið „Hung Up” er, þá eru önnur sem rétt jaðra við að fá tærnar til að hreyfa sig, eins og „Like It Or Not” og „Forbidden Love”, sem er öllu áhugaverðara fyrir retróhljóðin sín sem minna sterklega á Pet Shop Boys (Stuart Price er yfirlýstur aðdáandi þeirra og er stoltur af áhrifum þeirra í tónlist sinni). Þessi sömu einkennandi retróhljóð Stuarts má finna á „Get Together”, stórgott danslag þar sem kökuskrautið er orðið betri en sjálf kakan. Eftir hundleiðinlegt intró Madonnu í „Sorry” þar sem hún sýnir tungumálakunnáttu sína er hægt að taka róbotadansinn í bland við flóknari mtv-spor. Ég er ekki frá því að hækkað sé í hljóðstyrknum í masternum í lok lagsins, allt í nafni dansins. Ég mótmæli ekki.

„I Love New York” fer sennilega á smáskífu einhverntíma, nægilega útvarpshæfileika hefur það. Lagið byrjar á skítugu gítarriffi sem gæti eins verið byrjunin á einhverju léttu með Nine Inch Nails. Lagið er fullt af aggressívum fítonskrafti sem stangast fullkomlega á við unglingalegan textann um uppáhaldsborgina sína. Varúð: textinn er asnalegur („I don’t like cities, but I love New York / Other cities make me feel like a dork”) en eins og komið hefur fram, þá er textinn ekki lykillinn að umræddri plötu, þó að hann hafi kannski verið það áður fyrr. Betur hefði Madonna mátt syngja tvíræðan og kynferðislegan texta, enda gefur músíkin ekkert annað til kynna.

Tvö næstsíðustu lög plötunnar náðu aldeilis athygli mína. Um er að ræða „Isaac”, eitt langbesta lag plötunnar að mínu mati, og „Push”, sem væri það næstbesta ef ekki væri fyrir vandræðilegt Kærleiksbjarnarviðlagið sem skemmir fyrir. Yitzhak Sinwani, félagi Madonnu í Kabbalah-stöðinni í London, ljáir „Isaac” raddböndum sínum og syngur eitthvað trúarlegs eðlis á hebresku. Laginu hefur verið mótmælt af gyðingum sem telja að hún vanvirði nafn Ísaks spámanns frá 16.öld, en sjálf segir Madonna hafa skýrt lagið í höfuðið á Yitzhak félaga sínum sem syngur, enda er Isaac einfaldlega ensk þýðing á nafni hans. Lagið hefur allt til að sprengja dansgólf: feita uppbyggingu, frábæran söng Yitzhak, humm Madonnu í stíl við Ray of Light plötuna, rof eftir tvo þriðju lagsins, platbyrjun og svo sprengju í lokin til þess að allir sleppi sér. „Push” er stimplað af sándinu hans Price og minnir jafnvel á lagið „Hey You (What’s That Sound)” af Darkdancer plötunni. Orðið „push”, hálffalskar bjöllur og skemmtileg drumkithljóð er allt nóg til að hrífa upp úr skónum. Núna er bara að vona að út komi smáskífa með rímixum sem laga viðlagavandamálið.

Inn á milli frábæru laganna koma einstaka katastrófur sem hljóma eins og eitthvað í framhaldi af American Life. Í „How High”, syngur Madonna ómerkilegan texta í gegnum síu. Þetta lag er helsta feilspor plötunnar, ásamt „Like It Or Not”. Spurning hverjum er að kenna, Bloodshy & Avanti eða Madonnu. Það hlýtur samt að teljast undraverð tilviljun að langlélegustu lög plötunnar eru akkúrat afurðir fyrrnefndra meðframleiðenda, lög sem Stuart Price kom ekki nálægt nema í lokavinnslu. Svona lög valda mér óhug; klisjukenndar strengjabyrjanir og síaðar Cher-raddir er eitthvað sem popparar ættu að vera farnir að kunna að forðast. Þrátt fyrir afskaplega misgóð lög er engu að síður sterkur heildarsvipur yfir plötunni sem gerir það að verkum að hún hljómar ekki eins og einhver safnplata gerð af mismunandi pródúserum. Þetta er að miklu leyti Stuart Price að þakka, en Madonna gleymir aldrei að viðurkenna þátt meðframleiðenda sinna í tónlist hennar.

Madonna hefur enn einu sinni skipt um stefnu með Confessions On A Dance Floor. Enginn bjóst við hreinni og beinni dansplötu. Hún hefur lagt pólitísku skoðanirnar og djúpu textana til hliðar, fengið hæfileikaríkan breskan plötusnúð til liðs við sig að þessu sinni og búið til pjúra dansplötu frá A til Ö. Margir vilja meina að Madonnu hraki við þetta útspil. Er hún hér með hætt að búa til nýtt og ögrandi popp? Ætlar hún þá bara að setjast í eftirlaunastólinn og fara auðveldu leiðina, gefa út einhverja dansplötu? Auðvitað ekki. Það ætti að vera orðið ljóst að það þarf eitthvað aðeins meira en flottan líkama og ágæta rödd til að endast 23 ár í tónlistarbransanum, sérstaklega í eins sveiflukenndum bransa og poppinu. Gleymum ekki að áður en hún lagðist út í tónlistina færðist hún upp metorðaskalann á hæfileikum sínum í dansi. Madonna er fjölbreytt, hæfileikarík og gáfuð kona sem kemur hér enn aftur á óvart og gefur út alveg hreint ágæta plötu. Ekkert rugl, bara dans.

7 Athugasemdir

 1. egill · 17/01/2006

  Verð að játa það að ég átti virkilega erfitt með að hlusta á Hung up til að byrja með, einmitt afþví að ABBA hafa bara einu sinni áður leyft notkun á sampli úr þeirra efni. Maður er bara ekki vanur því að heyra ABBA í þessu samhengi. Var bara virkilega skrýtið og þurfti smá tíma til að venjast.

 2. Ari · 17/01/2006

  Veit e-r hvert hitt samplið er aftur?

 3. egill · 17/01/2006

  Fugees fengu leyfi til að nota The Name of the Game í Rumble in the Jungle.

 4. Ari · 18/01/2006

  Geðveikt lag samt…

 5. egill · 18/01/2006

  Og fín partýplata, fengi 4 rjóma hjá mér sem slík, en er sammála þessari einkunn sem hún fékk. Sem Madonnu-plata þá er hún bara 2,5 🙂

 6. Scweppes · 21/01/2006

  Finnst ykkur samt ekkert ómerkilegt að sampla þegar engu er bætt við? Þ.e. þetta er bara Abba lag með nýrri sönglínu? Finnst þetta slappt hjá henni.

 7. kiddi · 21/01/2006

  vandamálið með poppbransann í dag er að fólk nennir ekki að semja lög. End of story.

  Eftir nokkur ár veður bara í gangi svona re-issues af gömlu drasli, remixað og eitthvað.. með nýjum sögvrum…

  þú veist True Blue platan remixuð nema með Jessicu Simpson að syngja. It’s gonna happen folks.

  eða svo er ég bara fúll á móti.

Leave a Reply