• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Ampop – My Delusions

 • Birt: 19/01/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 9

Ampop - My Delusions
Einkunn: 4
Utgafuar: 2005
Label: Dennis/Sena

Við erum að tala um einhvers konar indí popptónlist og það af bestu gerð.

Ég man fyrir örfáum árum þegar ég fór á Airwaves og Ampop var að spila. Ég var búinn að heyra ágætis hluti og ákvað að kíkja aðeins á þetta. Það sem ég heyrði þá er mjög ólíkt því sem ég heyri á þessari plötu. Þá voru þeir að fikta við rafræna tónlist einhvers konar og þótt það væri ágætt þá var ég ekkert að falla mikið fyrir því. Þess vegna kom það mér mjög á óvart að heyra þá stefnubreytingu til hins betra sem þessi plata býður upp á. Við erum að tala um einhvers konar indí popptónlist og það af bestu gerð.

Strax frá fyrstu hljómunum í „Eternal Bliss“ grípur platan mann þar sem lagið byrjar af miklum krafti og vill að maður taki eftir því sem maður gerir. Athyglinni er síðan haldið í gegnum plötuna með góðum lagasmíðum og sú áferð sem er á hljómi plötunnar tryggir að manni finnst vera heildarsvipur sem í mínum bókum er alltaf gott. Það er ansi erfitt að velja út einhver lög sem eru öðrum fremri því flest eru þau virkilega góð. „Ordinary World“ hefur dáleiðandi píanóstef sem leiðir mann í gegnum versið og í viðlaginu er kominn taktur í lagið sem minnir mann svolítið á sirkustónlist en er virkilega flott. „Weather Report“ er svona ekta lag til að hlusta á þegar maður er nývaknaður, soldið sybbinn og er ekki alveg tilbúinn að koma sér af stað. Lagið fer hljóðlega af stað með píanói, kassagítar og rödduðum söng en þegar trommurnar koma inn er maður tilbúinn að fara á fætur og takast á við það sem dagurinn býður upp á. „3 Hours of Daylight“ er frábær endir á virkilega góðri plötu, svona ekta lag til að enda plötu. Birgir segir okkur að allt muni verða gott og maður getur ekki annað en verið bjartsýnn enda er lagið eitthvað svo upplífgandi.

Ef lýsa ætti tónlist þeirra mætti segja að hún er frekar tilfinningaleg sem passar mjög vel við þennan hljóm og það skraut sem þeir bæta við plötuna (lesist: strengir og einstaka viðlit í gamla rafræna bakgrunninn þeirra) en þó án þess að fara yfir strikið yfir í væmni. Rödd Birgis passar síðan eins og flís við rass við tónlistina sem framreidd er fyrir okkur; tilfinningaleg og með þennan rosalega ísl-enskuhreim sem passar einhvern veginn svo furðuvel við þetta, því oft getur það verið pirrandi hversu augljóst er að söngvarinn sé íslenskur. Styrkleiki hljómsveitarinnar felst í því að vera jafnvíg á hina rólegu kafla sem og hina fjörugri og finna hina réttu blöndu þarna á milli sem lag þarf að hafa. Þeim tekst það í flestum laganna á plötunni en það er helst „Precious“ sem er svolítið síðra en hin lögin séu þau borin saman eitt og eitt. Það passar samt vel í heildina.

Svo ég summeri þetta upp í lokin þá verð ég að segja að platan er virkilega góð, vinnur á við hverja hlustun og þessi stefnubreyting þeirra kom mér á óvart, skemmtilega á óvart. Það er ekki verið að finna upp hjólið hér en það er verið að taka þá hönnun, bæta hana og það bara helvíti vel.

9 Athugasemdir

 1. Már Egilsson · 20/01/2006

  “stefnubreytingu til hins betra”
  Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst “Made for Market” svona 10 sinnum betri en þessi diskur (reyndar með betri íslenskum diskum sem ég hef heyrt). En það er auðvitað eðlilegt að smekkur fólks sé mismunandi. Ef við höldum áfram að líkja þessu við hjólahönnun þá myndi ég segja að það eina sem þeir hafi gert í þetta skiptið er að bæta við lituðum perlum á teinana. Þá þykir mér verra að þeir hafa líka tekið spilið úr teinunum.

 2. Hjalti · 20/01/2006

  Finnst þessi plata ágæt en ekki meira en það. Finnst hún eiga skilið 2.5-3 frekar.

 3. þossi · 21/01/2006

  Sammála fyrstu mönnum um að þessi plata sé ekkert til að hrópa húrra fyrir

 4. Arnar · 21/01/2006

  Ósammála ykkur öllum, mér finnst hún mjög góð.

 5. Högni · 23/01/2006

  Finnst þetta vel heppnuð plata og er nokkuð sammála dómnum

 6. Gísli · 12/03/2006

  Þessi plata er bara snilld og sleppiði því bara að gefa álit á þessu ef þið ykkur fannst hun slæm

 7. davíð HR · 13/03/2006

  þessi plata er bara snilld og það besta sem hefur komið fyrir íslenska tónlist fyrir utan sigur rós og mugison

 8. Siggi · 26/03/2006

  Þetta er að mínu mati ein besta íslenska plata sem hefur verið gefin út. Ampop eru snillingar og ennþá betri live. Ef ég er ósammála einhverju í þessari grein þá er það að hafa ekki gefið þeim betri einkunn

 9. villi þór · 01/05/2006

  þetta er snilldar plata, án efa ein besta íslensla sem hefur verið gefin út…

Leave a Reply