• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Psychobilly

  • Birt: 23/01/2006
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Psychobilly

Hvað er það?

Í bók sinni Streetstyle segir Ted Polhemus að einfaldast væri að skilgreina Psychobilly sem samblanda af pönki og rokkabillý. En þetta á sér dýpri rætur.
Fyrir rétt rúmlega mánuði síðan kom bandaríski listamaðurinn Bob Log III til Íslands og hélt tónleika á Grand Rokk í boði Sheptone. Fór gott orð af tónleikum þessum og vakti ekki síst athygli hin stóri hjálmur sem Bob Log bar á höfði sér sem og símtólið sem hann söng í gegnum. Þegar ég sagði félögum mínum frá væntanlegri komu þessa manns spurðu þeir mig hvernig tónlist hann spilaði. Ég svarað þeim því að hann spilaði svokallaða psyhcobilly tónlist (þannig var tónlist hans lýst í Morgunblaðinu), sumir kinkuðu þá kolli, aðrir yptu öxlum. Hinir síðarnefndu vissu í rauninni ekkert hvað ég var að tala um og ljái ég þeim það ekki þar sem psychobilly hefur ekki átt upp á pallborðið hér á Íslandi síðan Langi Seli og Skuggarnir (og þar á undan Oxmá) voru og hétu (þeir kölluðu þetta reyndar killembilly, sjá bók dr. Gunna: Eru ekki allir í stuði. bls. 295).

Forsaga
En hvað er þá Psychobilly? Við skulum skoða það nánar. Í bók sinni Streetstyle segir Ted Polhemus að einfaldast væri að skilgreina Psychobilly sem samblanda af pönki og rokkabillý. En þetta á sér dýpri rætur. Á sjöunda áratug síðustu aldar hófst innrás breskra hljómsveitina inn á bandarískan markað og fyrir vikið féllu margar bandarískar hljómsveitir í skuggann. Þessar hljómsveitir þóttu ekki jafnfærar og þær bresku og áttu það gjarnan sameiginlegt að endast stutt. Margar af þessum hljómsveitum reyndu að bæta fyrir vankunnáttu sína með því að spila hærra og hraðara heldur en aðrar hljómsveitir og eru þessar hljómsveitir jafnan kallaðar garage-hljómsveitir í dag. Árið 1974 lét tónlistarmaðurinn Lenny Kaye taka saman lög með helstu Garage-böndunum og fékk safnið heitið Nuggets og var gefið út hið sama ár. Það er ekki síst þessu framtaki Kaye að þakka að nú fóru að spretta upp fullt af hljómsveitum er spiluðu háværari og hraðari rokktónlist í anda Garage-hljómsveitanna. Stuttu seinna braust pönkið út í New York og spiluðu flestar pönk-hljómsveitirnar á skemmtistaðnum The CBGB´s. Ein þessara hljómsveita skar sig verulega úr, bæði hvað varðaði tónlist og útlit. Þetta var hljómsveitin The Cramps.

The Cramps
Sagan segir að upphaf hljómsveitarinnar megi rekja til þess þegar Alice Cooper aðdáandin Erick Purkisher tók upp puttaferðalang einn að nafni Kristy Wallace á leið sinni til Sakramento í Kaliforníu árið 1972. Þau áttu seinna eftir að komast að því að þau væru bæði nemendur við Sacramento City Collage og þar að auki bæði skráð í námskeið sem bar heitið “Art and Shamanism”. Það þarf vart að taka það fram að þau urðu brátt bálskotin hvort í öðru og ákváðu að leigja saman íbúð. Þau fengu bæði mikinn áhuga á gömlum garage böndum og enn eldri rokkabillý plötum. Breyttu þau nöfnum sínum í Lux Interior og Poison Ivy og ákváðu að stofna hljómsveit sem þau skýrðu Raven Beauty. Árið 1975 var parið komið til New York eftir stutt stopp í Ohio og breyttu þau nú nafni hljómsveitarinnar í The Cramps. Í New York kynntust þau gítarleikaranum Greg Beckerleg, sem seinna breytti nafni sínu í Bryan Gregory og Nick Knox trommuleikara The Electric Eels og gengu þeir báðir fljótlega í hljómsveitina sem þá var orðin fullskipuð. Eins og áður sagði skar The Cramps sig frá öðrum hljómsveitum sem þá spiluðu í New York, ekki bara fyrir hráan garage og rokkabillý-stíl sinn heldur einnig fyrir útlit sitt. Á tónleikum litu þau oft út eins og zombíar frá 6. áratugnum eða voodoo töframenn og létu öllum illum látum (Ekki ósvipað Screamin Jay Hawkins á árum áður). Fljótlega myndaðist lítil sena í kringum hljómsveitina og útlit aðdáendanna varð sífellt furðulegra. Það var á þessum tíma sem orðin psychobilly eða voodoo-rockabilly fóru að sjást á auglýsingaveggspjöldum þeim sem hljómsveitin lét dreifa og hafa þau verið notuð síðan til þess að lýsa tónlist hennar.

Meira um The Cramps
Orðið Psychobilly kom fyrst fyrir í texta lagsins “One piece at a time” sem Johnny Cash flutti árið 1976 en þar minnist hann á Psychobilly-cadillac (textinn er í rauninni eftir Wayne Kemp). Eftir það hvarf þetta orð eða allt þangað til að það birtist á veggspjöldum The Cramps. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu árið 1978 og hét hún Gravest Hits og hafði aðeins að geyma eitt frumsamið lag, “The Human Fly”, en önnur lög á plötunni voru garagelög eins og “Surfin Bird” sem Trashmen höfðu áður gert frægt (sumir ættu að kannast við það úr myndinni Full Metal Jacket). Fyrsta breiðskífan kom síðan út árið 1980 og bar heitið Songs the Lord Taught Us en á henni standa upp úr lög eins og “Tv Set”, “Garbage Man”, “I Was a Teenage Werewolf” og hin kolbrjálaða útgáfa af laginu “Strychnine” eftir The Sonics. Önnur breiðskífa The Cramps var Psychadelic Jungle, en áður en að upptökur á henni hófust hafði gítarleikarinn Kid Congo Powers leyst Bryan Gregory af hólmi, á plötunni má finna mörg frábær lög eins og “Goo Goo Muck”, “Caveman” og “The Crusher”. Síðan 1980 hefur hljómsveitin gefið út fjöldan allan af plötum, flestar misjafnar af gæðum.

Bandarísk Psychobilly-bönd
Fljótlega á 9. áratugnum fóru hljómsveitir eins og The Cramps að spretta upp um öll Bandaríkin. Ein merkilegust þeirra var hljómsveitin Gun Club frá Los Angeles, en hún var stofnuð af gítarleikaranum Jeffrey Lee Pierce árið 1980. Fyrsta plata Gun Club var hin hráa og blúsaða Fire of Love en meðal laga á henni má helst geta “Preaching the blues”, “Promise Me”, “She´s Like Herion to Me” og “Jack on Fire”. Margir tónlistamenn áttu eftir að eiga viðkomu í hljómsveitinni í gegnum sögu hennar, þar á meðal áðurnefndur Kid Congo Powers sem seinna átti eftir að ganga til liðs við The Bad Seeds, hljómsveit Nick Caves. Meðal annarra helstu verka Gun Club eru plöturnar Miami, The Las Vegas Story og Mother Juno, en hljómsveitin leystist upp árið 1996 þegar Pierce lést eftir hafa barist í mörg ár við drykkjuvandamál. Meðal annarra helstu hljómsveita í Bandaríkjunum sem kenndu sig við Psychobilly má einnig nefna Reverend Horton Heat, The Stray Cats og The Pagans.

Bresk Psychobilly-bönd
Það kann að hljóma einkennilega en psychobilly tónlist náði hvað mestum vinsældum í Englandi. Þær hljómsveitir sem töldu sig spila þess konar tónlist í Englandi komu fyrst saman á skemmtistaðnum Klub Foot í London og varð staðurinn þeirra helsti samkomustaður. Eins og kemur fram í áðurnefndri bók Polhemus, Streetstyle, var blanda þeirra á bresku pönki og amerískri rokkabillý-tónlist að því er virtist næstum augljós (þetta gildir sérstaklega um bresku sveitirnar en þær amerísku áttu meiri rætur í garage-inu, sjá að ofan), hún var þó laus við alla væmni sem sumir seinni tíma rokkabillý-tónlistarmenn gerðu sig seka um og hélt sig frekar við þá reiði sem einkenndi fyrstu ár rokksins. Hér fundu pönkaranir að margt væri líkt með þeim og rokkabillýunum bæði í hegðun og viðhorfi. Psychobilly-hljómsveitirnar líkuðu vel kynferðislega framkomu rokkabillýanna, það hvernig þeir sniðgengu allt sem þótti fágað og fitugir hártopparnir fóru einnig saman við hugmyndir pönkaranna um uppreisn gegn viðteknum gildum. Psychobilly hljómsveitirnar stældu framkomu þeirra og útlit á mjög öfgafullan hátt en voru kannski öllu druslulegri en forverarnir.

Þekktust allra psychobilly-bandanna í Englandi var hljómsveitin The Meteors sem var stofnuð árið 1980 og spilaði reglulega á Klub Foot. Áhangendur hljómsveitarinnar kölluðu stíl þeirra “mutant rockabilly” þar sem fáranlega langir hártoppar þeirra voru iðulega litaðir grænir eða fjólubláir. Útlit þeirra og framkoma varð auðvitað til þess að þeir náðu ekki til breiðari áhorfenda-hóps og eða að fá að koma fram í sjónvarpi. Eins og hinar amerísku Psychobilly-hljómsveitir hefur The Meteors gefið frekar misjafnar plötur en þó ávallt haldið traustum aðdáendahópi sínum. Meðal annara vinsælla psychobilly hljómsveita í Englandi má geta The Stingrays, Batmobile og The Polecats.

Að lokum eru hér nokkrar plötur sem Rjóminn mælir með:

The Cramps – Songs That The Lord Taught Us.

The Cramps – Psychadelic Jungle.

Gun Club – Fire of Love.

The Meteors – From Zorch With Love.

Reverend Horton Heat – Smoke´em If You Got´em.

Leave a Reply