System of a Down – Hypnotize

System of a Down - Hypnotize
Einkunn: 4
Utgafuar: 2005
Label: Sony

SOAD eru búnir að eyða veiku punktunum, finna þá sterku og nýta sér þá til að gera þrusu rokkplötu.

System of a Down er um margt óvenjulegt band. Spila einhverskonar melódískan metal og fylgja að vissu leyti eftir vinsældum Deftones og KoRn, þó að tónlist þeirra sé af öðrum meiði.

Sveitarmeðlimir eru af armenskum uppruna og fjalla opinskátt um pólitískar skoðanir sínar í textum, þá ekki síst gagnrýni á hernaðarbrölt.

Segja má að þeir hafi stimplað sig hressilega inn með annarri plötu sinni Toxicity hérlendis, og hafa í raun ekki misstigið sig síðan. Á síðasta ári gáfu þeir svo út tvöfalda plötu sem tekin var upp 2004, Mezmerize/Hypnotize, en höfðu þann háttinn á að gefa fyrri hlutann út í maí og þann síðari í nóvember. Hugmyndin var fengin frá nýjasta ferðamálafulltrúa landsins, Quentin Tarantino, og myndum hans Kill Bill eitt og tvö.

Hypnotize er rökrétt framhald af fyrri helmingnum en þó er talsverður munur á þessum plötum. Í samhengi við Mezmerize virkar hún nokkuð vandaðri, metnaðarfyllri og það sem skiptir kannski mestu er að hún bætir einhverju við. Þetta er ekki bara ný plata með SOAD heldur þróun, bæting. Það er styrkur plötunnar.

Hún er þung, með fallegum melódískum köflum inn á milli, meiri taktbreytingar en áður. Einnig fer samsöngur þeirra Serj og Darons í nýjar hæðir og er mun meira áberandi.

Hefst á „Attack” sem lemur mann í hausinn, þungt og svo gott. „Dreaming” hefur heyrst talsvert í útvarpi. Kröftug riff og öskur með rólegum köflum inn á milli. Klassískt SOAD og gefur tóninn fyrir restina. Það er ekki hægt að komast hjá því að heyra hvað samsöngurinn er búinn að taka mikið stökk fram á við, hljómar virkilega vel. Þeir kunna líka að koma hægari köflum náttúrulega inn í lögin og skapa þannig ansi miklar andstæður í lögunum.

„Attack” og „Dreaming” eru í þyngri kantinum miðað við það sem hefur áður heyrst með þeim.

Önnur áhugaverð lög eru „Hypnotize”, sem hefur heyrst eitthvað í spilun. Skondið samt að heyra laglínuna út „Sá ég spóa…” í byrjuninni. Einnig „Holy Mountains”, magnað lag, riffið í byrjun krækir strax í mann og síðan er ekki aftur snúið.

„Lonely day” er prýðileg ballaða, en gagnrýnendur hafa talað um að þarna sé Daron að sanna það að hann sé góður gítarleikari með sólói. Veit ekki um sannleiksgildi þessarar frásagnar, en hitt veit ég að hann er að gera flottari hluti víða á þessari plötu en í þessu sólói. Enda varla þeirra stíll að troða of miklu einstaklingsframtaki í lögin hjá SOAD, manni virðist heildin skipta mestu máli.

Hypnotize er líklega tæknilegasta plata SOAD, hugsanlega til að sýna gagnrýnendum í tvo heimana. Því hefur verið haldið fram að tónlistarkunnátta í sveitinni sé ekki mikil en þessi plata ætti að kveða slíkt niður. Þarna er að finna mun tæknilegri pælingar en á síðustu plötum, meira að gerast í lögunum, taktarnir breytast, og riffin flóknari.

Þetta er ein af þeim sem þurfa smá tíma í tækinu, hún var ekkert mögnuð við fyrstu hlustun en sótti hratt á.

Hún er einfaldlega þrusugóð og óþarfi að eyða of mörgum orðum um það. Ef þér líkar við það sem SOAD hafa verið að gera, eða bara gott rokk, er nokkuð öruggt að þú fílar þessa. Enda frábær plata. Munurinn á þessari og Mezmerize er að Hypnotize er þróun framávið.

SOAD eru búnir að eyða veiku punktunum, finna þá sterku og nýta sér þá til að gera þrusu rokkplötu.

2 responses to “System of a Down – Hypnotize”

  1. ammarolli says:

    mér fannst Mesmerize vera skemmtilegri. Annars góður dómur

  2. Dagur B. says:

    Finnst þetta Hypnotize/Mezmerize dæmi þeirra einfaldlega bara leiðinlegt…þoli ekki þegar helvítis gítarleikarinn byrjar að syngja! Ég gjörsamlega þoli það ekki! Finnst Steal This Album ekki sérstök en fyrstu tvær eru frábærar, en mér finnst SOAD frekar ofmetnir þó þeir séu ágætir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.