• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Hölt Hóra – Love Me Like You Elskar Mig

 • Birt: 03/02/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 3

Hölt Hóra - Love Me Like You Elskar Mig
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2005
Label: Hölt Hóra gefur út, 12 tónar dreifa

Þetta er skífa sem er þess virði að hlusta á til að kynnast hljómsveitinni en ég er nokkuð feginn að ég þurfti ekki að borga fyrir hana

Þessi gagnrýni er kannski pínu eftir á þar sem þessi skífa kom út um mitt síðasta ár en við hér á Rjómanum aðhyllumst „betra seint en aldrei“ hugsjónina og fyrirgefum Haltri Hóru fyrir að gefa út áður en Rjóminn fæddist.

Love Me Like Your Elskar Mig er sex laga EP-plata sem Hölt Hóra gefur sjálf út. Ef ég á að tala hreinskilnislega þá finnst mér þröngskífurnar frekar eiga heima sem kynningarefni hljómsveita fremur en söluvara þar sem ég hef aldrei rekist á slíka plötu sem ratar í spilarann minn aftur eftir að ég hef hlustað á þær í nokkur skipti. Þær fullnægja einfaldlega ekki þörf minni fyrir 45-60 mínútna tónverki og ef þær eru settar í spilara sem fara sjálfkarfa á „repeat“, líkt og í bílnum mínum, þá finnst mér ég ætíð vera að hlusta á sama lagið. En nóg um mínar kreddur, hvað inniheldur þessi plata?

Tónlist Haltrar Hóru fellur vel inn í bresku bylgjuna sem flæðir yfir ísland þessa dagana og er ekkert að bæta neinu nýju við. Ég ætla mér að kalla þetta brit-pönkpopp – af því ég get það. Sveitin tekur nokkra góða spretti þar sem maður heldur vel athyglinni, þá sér í lagi í „Act of Passion“ og „King of the Dancefloor“ en hin lögin, þótt þau hljómi vel í eyrum, skilja ekki mikið eftir sig þar sem þau eru fremur lík innbyrðis, bæði að byggingu og framkvæmd. Ég hefði viljað heyra flóknari laglínur í lögunum en þau eru sungin fremur eintóna og þreytist það fljótt og myndi örlítil tilraun til að gera eitthvað út fyrir kassann ekki saka. Þögnin í miðju titillaginu er svo algerlega óþarfi.

Textarnir fjalla allir um kvenfólk, partí, geðveilu og dauða, bara mismikið í hverju lagi og eru engin stórvirki, stuttir og stundum samhengislausir. Drengirnir gera sig meira að segja seka um þá stórkostlegu villu að rugla saman „your“ og „you’re“ í textabæklingnum sem stingur virkilega í augun á smámunasegg eins og mér. Titillinn er svo álíka óþjáll, þrátt fyrir þessa heiðarlegu tilraun til að gera báðum tungumálum hátt undir höfði.

Það jákvæða við þennan disk er að hann er kröftugur. Það er innlifun í spileríi og söng og greinilegt að hljómsveitinni er alvara í sinni tónlistarsköpun. Hljóðfæraleikurinn er fínn, ekkert verið að ofreyna sig en þeir skila sínu, gítararnir radda hvorn annan skemmtilega og trommurnar eiga sín andartök á disknum. Síðan er línan í lokalaginu fyrrnefnda gríðarlega ávanabindandi og langar mann helst að taka sporið eins og lagið býður manni hreinlega að gera. Diskhönnunin sjálf er alger snilld þar sem hið ónotaða yfirborð geisladisksins er gegnsætt… ég held þið verðið bara að sjá það sjálf.

Þetta er skífa sem er þess virði að hlusta á til að kynnast hljómsveitinni en ég er nokkuð feginn að ég þurfti ekki að borga fyrir hana. Hann er alla vega nógu góður til að ég muni kynna mér plötur þeirra í framtíðinni en þá vona ég líka að sveitin framleiði fleiri lög á borði við þau tvö sem nefnd eru að ofan og syngi aðeins fleiri laglínur. Það er hægt að pönka með tónum. Þangað til þá verður Love Me Like You Elskar Mig uppi í hillu hjá mér.

3 Athugasemdir

 1. Almar Daði Kristjánsson · 06/02/2006

  Það stendur nú á mínu eintaki af þessum ágæta disk að 12 Tónar hafi gefið hann út?

  Hmm…

 2. Ari · 06/02/2006

  Þeir gefa út sjálfir en 12 tónar dreifa, er búinn að breyta þessu

 3. Arnar Þór · 08/02/2006

  Mér þykir þessi EP plata lofa rosalega góðu og get ekki beðið eftir að heyra meira frá þeim.

  3,3 á kvikindið.

Leave a Reply