• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Siggi Ármann – Music for the addicted

 • Birt: 08/02/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 17

Siggi Ármann - Music for the addicted
Einkunn: 1.5
Utgafuar: 2005
Label: Smekkleysa

Haltu mér, slepptu mér sambönd eru stórhættuleg.

Siggi Ármann er hér að gefa út sína aðra plötu en fyrri platan Mindscape vakti ágætis athygli enda Sigur Rósar menn hrifnir af drengnum og fengu hann til að hita upp fyrir sig á nokkrum tónleikum. Það eitt vekur nógu mikið umtal til að athuga hvað Siggi Ármann sé að bardúsa með gítarinn sinn. En er það nóg?

Ég er í óttalegu haltu mér, slepptu mér sambandi við Sigga Ármann. Eina stundina er ég svo skotinn í sætu krúttlegu og einföldu lögunum hans að ég gæti grátið gleðitárum og hina get ég ekki hlustað á hann og verð hreinlega bara fúll og finnst þetta þá alls ekkert merkilegt.

Siggi spilar einföld og allt að því barnaleg lög og hann raular með. Já, hann raular. Stundum virkar þetta eins og t.d. „One Little Cowboy“ af fyrstu plötu Sigga Ármanns ber vitni um en stundum fellur spilaborgin með raulið í fararbroddi eins og t.d. lagið „White Cocaine Sky“ á þessari plötu sýnir þar sem að raulið drepur lagið strax í fyrsta versi, það er hreinlega raulað í allt of djúpum tónum. „One Little Cowboy“ finnst mér æðislegt sem að flestir ættu að athuga.

Lag sem að skylda er að hlusta á hér er „Elephant Man“ en þar er bara nokkuð hress laglína í gangi miðað við Sigga Ármann og fallegt einlægt píanó spilar undir. Það er því miður stundum þannig á góðu lögunum á þessari plötu að það eru önnur hljóðfæri en Sigga sem halda lögunum í góðu bókunum mínum. „Boys don´t cry“ og „I dive into you“ eru sömuleiðis góð lög sem í raun draga plötuna í þá einkunn sem hún fær.

Ég er alls ekki að reyna að vera leiðinlegur, svartsýnn eða neitt slíkt. Ég hreinlega næ ekki stílnum hans Sigga Ármanns. Öll lögin sem mér finnst ég ná og finnast skemmtileg eru í hraðari og hressari kantinum svona miðað við hans lög og eiga það sameiginlegt að innihalda fleiri hljóðfæri en bara gítarinn hans Sigga. Lögin er kannski svolítið einhæf og mikið af því sama en þó ætla ég að segja aftur að lögin sem eru góð eru virkilega góð og allt að því frábær en það er bara því miður ekki nóg.

Ég held að við ættum að hætta saman.

17 Athugasemdir

 1. Jonni · 09/02/2006

  Hér er ég hreinlega ekki viss um að texti og einkunn eigi saman, eða jú ég er viss, þetta er svona haltu mér slepptu mér dómur sem rökstyður ekki þá niðurstöðu sem gagnrýnandi dregur upp. Ég er ekki að reyna að vera leiðinlegur en að þykja eitthvað ekki skemmtilegt og ná ekki stíl listamanns er ekki nóg til að fella jafn þungan dóm á verk sem er jafn heiðarlegt og Music for the addicted er, sérstaklega þegar orð eins og “virkilega góð” og “frábær” eru notuð yfir sum laga plötunnar. Það er ljóst að í dag er frábært greinilega ekki nóg.

 2. Pabbi · 09/02/2006

  Sammála síðasta ræðumanni.

 3. Guðmundur Jóhannsson · 09/02/2006

  Ég skil punktinn þinn Jonni. Ég hefði kannski getað sett fleiri dæmi þarna með en í raun finnst mér diskurinn bara leiðinlegur. Hvort það sé hreinlega af því að ég fatti ekki Sigga Ármann skal ég ekki segja um en eitthvað er það. Mér fannst Mindscape alveg ágæt en 2-3 góð lög á 12 laga plötu er ekki frábært og það verðskuldar ekki hærri einkun en þetta, að mínu mati.

 4. Ellioman · 09/02/2006

  Ég er ekki alveg sammála Jonna og Pabba en heldur ekki Gumma. Ég er kannski mitt á milli.

  Þó að eitthvað sé heiðarlegt eða einlægt að þá er það engin gæðastimpill. Siggi Ármann er ekki allra, svo einfalt er það.

 5. Lesandi · 09/02/2006

  Ég prófaði að smella á nafn höfundarins. Þá er hægt að lesa alla dóma sem hann hefur skrifað á þessa síðu. Eftir að hafa skoðað þessi verk höfundarins kemur dómur hans um Sigga Ármann alls ekki á óvart.

 6. toggipop · 09/02/2006

  Hvernig er hægt að finnast þessi plata skemmtileg, ég bara spyr? Er einhver hvati bakvið upphafningu þessarar plötu annar en snobb? Þetta er naív, þetta er raul, þetta er slappt. Er öllum sama, af því það er einlægt? Og hver er í raun til að meta hvað er einlægt og hvað ekki, ekki gæti ég fundið það út hvort Siggi sé einlægur eða ekki án þess að þekkja hann persónulega og ég sé ekki hverju það breytir í sjálfu sér. Ef tónlistin er léleg, þá á bara ekki að vera nóg að vera einlægur eða krúttlegur til að fólk taki því opnum örmum og fagni því sem hreinum gæðum. “Já, gítarspilið er slappt, söngurinn líka, lögin eru einsleit og frekar leiðinleg…en jiii hvað þetta er einlægt!”.

  Ég gef nú bara skít í svona snobb.

 7. Arnar · 09/02/2006

  Einlægt eða ekki, maðurinn raular.

 8. Arnar · 09/02/2006

  Svona á meðan ég man þá langar mig að sjá nokkra dóma hérna á þessari frábæru síðu.

  Belle & Sebastian – The Life Pursuit (býst við að hann sé að koma)
  Maximo Park – A Certain Trigger
  Editors – The Back Room
  The Rakes – Capture/Release

  Þó að þessir diskar hafi sumir komið út í fyrra væri gaman að sjá dóm um þá núna..hmm?

 9. Dikta · 09/02/2006

  Einkar einlægur dómur en spurning hvort það sé nóg? 😉

 10. Maggigunn · 09/02/2006

  Ég vil ekki vera útundan.

  Einlægni. Einlægni. Einlægni…einlægni?

 11. Sibbi · 09/02/2006

  Afhverju þarf að vera að slá einhverja varnagla og afsaka sig þegar dómurinn er kveðinn upp, er einhver glæpur að fíla ekki Sigga Ármann?

 12. Alexander Már · 09/02/2006

  Sé svosem enga varnagla í dómnum þannig lagað en það er rosalegt snobb í gangi í dag að fíla Sigga Ármann og svo er auðvitað sú regla oftast í gangi að íslenska tónlist eigi ekki að skrifa mjög illa um heldur lyfta upp í hæstu hæðir.

  Rjóminn má eiga það að hann er ekki hræddur við að segja það sem honum finnst og fyrir það fær hann hrós. Ég er ekki alltaf sammála Rjómamönnum í skrifum þeirra en þannig er nú bara tónlistin, það er ekki neitt eitt rétt þegar kemur að skoðunum fólks á henni. Skil ekki hvað fólk er að stökkva upp í hæstu hæðir hérna útaf þessum dómi.

  Haldið ykkar striki Rjómamenn.

 13. Pabbi · 09/02/2006

  Mér fannst nú bara ekki vera nógu mikið samhengi milli texta einkunnar.

 14. Pabbi · 09/02/2006

  Texta og einkunnar, átti þetta að vera hjá honum Pabba gamla

 15. Alexander Már · 09/02/2006

  Ég segi nú eins og Guðmundur sjálfur segir í sinni athugasemd hér ofar að ef það eru bara 1-3 lög góð á 12 laga plötu að þá er ekki mikið varið í hana og þessi einkunn bara sanngjörn.

  Þó hefði hann kannski getað rökstutt þetta betur án þess að þurfa að útskýra dóminn í kommenti.

  Þó hefur vefurinn það yfir t.d. blöð sem birta dóma að þar er hægt að ræða þá og eiga orð við þann sem skrifar frekar en að það sem að blaðamenn segja stendur óhrakið um ókomna tíð.

 16. hrafninn · 10/02/2006

  hef ekki heyrt plötuna en umfjöllunin lætur mig af einhverjum forvitnishvötum vilja tékka á henni svo það hlýtur að vera einhvers virði.

 17. Eldar · 07/03/2006

  Mér finnst þessi plata hreint afbragð. Rennur mjög skemmtilega í gegn. Hugljúf, vissulega einföld á köflum. En flott!

Leave a Reply