30 Seconds To Mars – A Beautiful Lie

30 Seconds To Mars - A Beautiful Lie
Einkunn: 1
Utgafuar: 2005
Label: Virgin/Immortal

Leiðinlegt eftir 30 sekúndur.

Það er auðvelt að skjóta á leikara sem vilja vera tónlistarmenn, sjáið bara Dogstar, hljómsveit Keanu Reeves, oft nefnd Dogshit. Keanu má þó eiga það að hann varar fólk við því að koma á tónleika með þeim. Kevin Bacon, Russell Crowe, Íslandsvinurinn Juliette Lewis og meira að segja wannabe leikarinn og leikstjórinn Stephen King, betur þekktur fyrir skrif sín, eru öll með hljómsveitir. Jennifer Lopez er eini leikarinn sem kemur upp í hugann þegar finna á einhvern leikara sem hefur “meikað” það sem tónlistarmaður.

Að vísu er William Shatner, sem þekktur er sem Captain Kirk úr Star Trek og Denny Crane úr Boston Legal búinn að gefa út nokkrar plötur sem eru alveg æðislegar.
Æðislega fyndnar sko.

Svo er það Jared Leto. Best þekktur úr kvikmyndum eins og Fight Club, Panic Room og sjónvarpsþáttunum My So-Called Life. Hljómsveitin hans heitir 30 Seconds to Mars.

Ég heyrði plötu þeirra sem var samnefnd hljómsveitinni fyrir nokkrum árum og var nokkuð hrifinn af ýmsu þar. Ágætis blanda af geimglamúr David Bowie og industrial synthasándi Nine Inch Nails. Að vísu nokkuð um að þeir hljómuðu eins og Linkin Park en samt ekki nóg til að skemma fyrir. Skemmtilega útsett og hljóðrituð plata. Jared getur vel sungið og einna helst dró það niður þá plötu að textarnir voru ekki uppá marga fiska. Klisjukenndir og barnalegir. En einhvern veginn náði einlægnin að bjarga þessu fyrir horn og lög eins og „Capricorn (A brand new name)” og „Echelon” voru þrælflott.

Þeir voru rakkaðir niður allsstaðar og í flestum gagnrýnum var eins og gagnrýnendur væru fúlir yfir því að enn einn leikarinn væri að þykjast vera tónlistarmaður. Ég er hræddur um að platan hafi ekki alveg fengið sanngjarna gagnrýni. Margir „alvöru” tónlistarmenn hafa gert mun verri plötur. Ég nefni engin nöfn.

*hóst*moby*hóst*

Nýja plata 30 Seconds To Mars heitir A Beautiful Lie og er því miður arfaslök. Hvort sem um er að ræða leikarann Jared Leto eða tónlistarmanninn er ekki hægt að skafa utan af því. Þessi plata er drepleiðinleg. Hér vantar alla húkkana sem voru á fyrri plötunni sem og útsetningarnar sem drógu lögin upp um nokkur stig. Farið er geimglamúrsándið og einnig industrípælingarnar. Hljómsveitin hljómar nú eins og hvert annað háskólarokkband frá Ameríku.

Fyrsta lagið sem heitir „Attack” er skásta lagið á plötunni en eftir það tekur við hvert lagið leiðinlegra en það á undan. Aðdáendur fyrri plötunnar geta eflaust fundið eitthvað sem þeir fíla en ég er ekki að heyra það sem fékk mig til að sperra eyrun á þeirri fyrri.

Textarnir hafa ekkert skánað, lög sem fjalla um ástarsambönd og sambandsslit. Hversu mörg lög er hægt að semja um þetta sama viðfangsefni?

Það er óþarfi að fjalla um stök lög. Platan rennur í gegn og skilur ekkert eftir sig. Lögin keimlík og hreint út sagt leiðinleg. Svo virðist sem Leto og félagar í 30 Seconds To Mars séu búnir að missa það. Voru þetta kannski bara 30 sekúndur af hæfileikum?

Þetta er svolítið pirrandi því strákarnir hafa allt sem þarf til að meika það. Myndarlegan söngvara með fína rödd og sambönd. Þeir eru fínir hljóðfæraleikarar og vandvirkir.
Það vantar aðeins tvo hluti.
Eitthvað að segja og betri lög. Kannski ekkert „aðeins” í því.

Lögin voru til staðar á fyrri plötunni og ég bjóst við að þessi plata yrði áframhald á því nema með betri textum. Því miður er raunin önnur.

Ég held að Jared Leto ætti ekki að hætta við leikaraferilinn alveg strax.

8 responses to “30 Seconds To Mars – A Beautiful Lie”

 1. Maggigunn says:

  Ég er sammála þér með fyrri plötu hljómsveitarinnar. Mér finnst hún allt í lagi en textarnir aftur á móti mjög slæmir.

  Ég hef ekki hlustað á þessa plötu og get ekki sagt að ég sé eitthvað að plana kaup á þessum grip, sérstaklega eftir þennan sleggjudóm og alla hina slæmu dómana sem platan hefur fengið.

 2. Halldór says:

  Hún fær 3,5 hjá mér.

 3. Davíð Alexander says:

  Ný merking fyrir sleggjudóm, nokk sniðugt…

 4. Ólafur J. says:

  Jamm ég varð fyrir vonbrigðum með þessa plötu. Fyrri platan var alveg stórkostleg að mínu mati og ég var að vona að þeir myndu halda áfram og þróa þetta geim-rokk sem var í gangi þar. Á þessari plötu eru bara örfá lög sem minna eitthvað á þá gömlu og restin fetar meðalveginn mjög þröngt.

 5. Kiddi says:

  fyrsta platan með þeim er lítill gimsteinn sem fáir hafa heyrt eða vita um. Ég vonandist eftir miklu með nýju plötunni en varð fyrir miklum vonbrigðum. allt sem gerði þá svo kúl og einstaka er horfið.

 6. Sigurður says:

  Jennifer Lopez var tónlistarkona áður en hún varð leikari held ég allveg örugglega. svo hún meikaði það sem tónlistarmaður og varð svo leikkona en meikaði ekki mikið í því hlutverki

 7. Alex says:

  Ég leiðrétti tafarlaust að Jennifer Lopez klifraði upp metorðaskalann á dansinum, því hún var dansari áður en hún gerðist leikkona (dansaði meiraðsegja í myndbandi með MC Hammer, Can’t Touch This!). Nú, svo gerðist hún leikkona, varð fræg og með peninga og fór svo að gera tónlist. Takk fyrir.

 8. Bjarni says:

  Fáviti þetta er geðveik hljómsveit, svo er jared búinn að leika í nokkrum góðum myndum

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.