• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

The National – Alligator

 • Birt: 15/02/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 4

The National - Alligator
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2005
Label: Beggars UK

Ágætis plata. Þeir hafa grunninn til staðar og þurfa að byggja á honum, en ekki skýjaborgum.

The National er fimm manna hljómsveit frá (en ekki hvaðan?) New York en koma upphaflega frá Cincinnati, Ohio. Þeir bera sterkan keim af New York senunni og líkjast helst hristingi af Interpol, Strokes og jafnvel Lou Reed með sögum hans af drykkju, partýjum og almennum, indælum ólifnaði. The National skera sig úr með sérlega fallegum og jöfnum útsetningum. Við fyrstu hlustun hljóma þeir eins og hvert annað staðlað gítarindí en þegar maður leggur nánar við hlustir koma úr kafinu hljómborð, fiðlur, hörpur og fleira.

Lengi vel hélt ég þó að The National væri aðeins hliðarsjálf söngvarans Matt Beringers því ótrúleg barítónrödd hans yfirskyggir allt annað. Hún er djúp og seyðandi og á stundum er erfitt að einbeita sér að öðru en henni. Eftir eina hlustun af fyrsta laginu, „Secret Meeting“ er það heftað í heilabörkinn í „The Basement of my Brain“ eins og Matt segir sjálfur. Hinir meðlimir hljómsveitarinnar eru tvennir bræður – Devendorf bræðurnir og Dessner bræðurnir. Hinn máttarstólpinn í hljómsveitinni er trommarinn Brian Devendorf sem stjórnar lögunum af festu, stelur oft senunni og fer sjaldan út í ruglið.

En, nóg komið af lofinu – tími til kominn á niðurrifið og gallana (sem eru fleiri en tveir í þetta skiptið).

Ég hélt að loksins væru komnir verðugir arftakar Interpol í töffaraskap, grípandi lögum og viðmóti, þá er alltaf eins og það vanti eitthvað í hvert lag. Fyrir utan fyrsta og síðasta lagið, „Secret Meeting“ og „Mr. November“, þá renna lögin í gegn og skilja ekki mikið eftir sig, hvert öðru líkara.

Eftir tíu lög um sama umfangsefnið; drykkju, dóp og kellingar, þá renna á mann tvær grímur og mann byrjar að gruna að Mark og félagar séu að reyna ívið of mikið að vera hippogkúl og fyrir vikið missir maður trúnaðinn á hinar sögurnar sem á undan komu.

Tökum dæmi af öðru lagi plötunnar, „Karen“:

„Karen put me in a chair, fuck me and make me a drink”
„It’s a common fetish for a doting man, to ballerina on the coffee table, cock in hand“

Hver segir svona, í alvörunni? Ég er jafnhrifinn af góðum ólifnaði og hver annar en þetta er of grunnt og einhæft til að byggja heila plötu á og til að halda manni á tánum frá byrjun til enda.

Þeir minna á nördana sem umbreytast í sjálfskapaða töffara þegar þeir taka skrefið frá grunnskóla yfir í menntaskóla en eiga kannski ekkert ennþá inni fyrir töffaraskapnum. Þá er um að gera að búa til upplognar sögur af afrekum sem enginn kannast við.

En, og ég leyfi mér að sletta, „you fake it ’till you make it“ og það er von fyrir The National. Þeir hafa grunninn til staðar og þurfa að byggja á honum, en ekki skýjaborgum.

4 Athugasemdir

 1. Kristín · 16/02/2006

  Mér finnst þessi plata alveg frábær og myndi hiklaust gefa henni 4 í einkunn enda er þetta sú plata sem kom mér einna mest á óvart á síðasta ári. Það er rétt að textarnir eru fullmikið á köflum en mér finnst þeir komast upp með það… kannski gleypi ég bara við svona gúmmítöffarastælum 😉 Hvað varðar lögin sjálf þá er ég algjörlega ósammála því að þau skilji ekkert eftir sig. “Secret Meeting” og “Mr. November” eru vissulega með betri lögum á plötunni en mér þykir “Friend Of Mine” og “City Middle” alls ekki síðri og restin af lögunum almennt sterk.

 2. bió · 16/02/2006

  Frábær plata. Arftakar Interpol? Þetta er miklu betra band en Interpol. Ein af plötum síðasta árs. Ari fattar þetta einhvern tímann 😉

 3. Særún María · 16/02/2006

  Ég afskrifaði þessa plötu fljótlega eftir að ég keypti hana einhvern tímann í fyrra.

  Löngu seinna fór hún aftur í spilun og þá small eitthvað, mér finnst hún fín. “Looking For Astronauts” er held ég uppáhalds lagið mitt af henni.

  Samt algjörlega sammála með textana.

 4. Ingi Ingson · 20/05/2006

  Fyrri platan þeirra

  The National – “Sad Songs For Dirty Lovers”

  Var á lista 50 bestu platna Uncut blaðsins árið 2003.

Leave a Reply