Kimono – Arctic Death Ship

Kimono - Arctic Death Ship
Einkunn: 2
Utgafuar: 2005
Label: Smekkleysa

Kimono hafa pottþéttan grunn en húsið er ennþá rétt fokhelt og vindurinn næðir í gegn.

Hafið þið einhvern tímann látið geisladisk í tækið til að kynna tónlistina fyrir vini ykkar? Það er alltaf jafn erfitt að byrja ekki að tala um tónlistina og þannig trufla hinn nýja hlustanda. Um leið og það gerist er hættan sú að samtalið leiðist í áttir frá tónlistinni og þá er tilgangurinn með að kynna tónlistina farinn. Fyrirhöfnin fyrir bý. Ég held að það sé ágætis mælikvarði á hversu vel tónlist grípur hlustandann hversu lengi samtalið helst við tónlistina. Þegar það kemur að hinum nýja disk Kimono þá er ég hræddur um að samtalið myndi ráfa ansi fljótt í aðrar áttir.

Fyrsti samanburðurinn sem mér datt í hug þegar ég skellti Arctic Death Ship í tækið var David Bowie að taka lög eftir Nick Cave – bara ekki eins áhugavert. Sú samlíking dofnaði þó fljótt þegar ég fór að kafa aðeins betur ofan í lögin og fékk betri tilfinningu fyrir stefnu Kimono. Þeir spila ágætis indie með austurlenskum áhrifum, leggja áherslu á hljóðfæraleik fram yfir söng og laglínur og tel ég að það sé sá eiginleiki sem dregur þá niður í mínum eyrum. Það sem einkennir þessa plötu eru lög sem byrja öll vel, státa af fínum hljóðfæraleik, stórskemmtilegum gítarsamspilum en fara svo hvergi, enda á sama tóni og þau byrja á.

Í hvert skipti sem ég setti plötuna af stað þá fannst mér eins og Kimono væru farnir að vaxa á mér þar sem byrjanir laganna lofa allar svo góðu en svo gerist ekkert. Landslag plötunnar er danskt. Algerlega flatt með einni Öskjuhlíð einhvers staðar úti í móa, í tilfelli Arctic Death Ship er það lagið „Sober“ sem sker sig aðeins úr fjöldanum. Þar er ágætislag á ferðinni sem fylgir alveg formúlunni sem ég nefni hér á undan en söngurinn er mjög sjarmerandi og lokakaflinn er einn af fáum stöðum þar sem Kimono hitnar blóðið örlítið. Að sjálfsögðu eru önnur lög sem eru þess virði að hlusta á; smáskífan „Aftermath“ og spænsktextaða „Sonar“ taka spretti sem fá mann til að sperra eyrun en það er þessi hvimleiða tilhneiging til að sleppa króknum, eins og Þorvaldur Bjarni myndi orða það, sem fær mann til að búast við meiru af Kimono heldur en þeir skila af sér.

Þessi plata er uppfull af flottum hlutum, góðum hugmyndum og metnaðarfullum útfærslum en það sem bregst er uppbygging laganna. Kimono hafa pottþéttan grunn en húsið er ennþá rétt fokhelt og vindurinn næðir í gegn. Ég ber mikla virðingu fyrir sveitinni því þessir drengir eru metnaðarfullir og vilja greinilega búa til eitthvað sem er þess virði að hlusta á. Þeir geta bara svo miklu betur.

15 responses to “Kimono – Arctic Death Ship”

 1. ammarollli says:

  nú er ég ósammála, mér finnst þessi plata mjög góð. Allavegana myndi ég gefa henni 3,5

 2. Árni Þór says:

  Ég er algjörlega ósammála þessari umfjöllun að næstum öllu leiti. Já ég veit að tónlist er smekksatriði en fyrir mér verða diskar ekki mikið betri en einmitt þessi. Þessi diskur er svo stútfullur af geðveikum gítarlínum/sönglínum/bassastefum og síðast en ekki síst brjáluðum trommurleik!

  Ég get samt sem áður alveg skilið að ef þú ert maður sem hlustar bara eftir grípandi söngmelódíum melódíum þá muntu ekki fíla þennan disk því að eins og þú bentir á er ekkert það mikið af söng á honum. EN, ef maður hugsar aðeins lengra en bara melódíur og hvað grípur þig við fyrstu hlustun og ferð virkilega að skoða og pæla í tónlistinni þá finnurðu svo mikið mikið meira en þú bjóst við.

  Þessi diskur er snilldarlega unnin á allan hátt. Frábært hljóðfæra leikur og mjög verð produceraður!

  Fær 4,5 – 5 hjá mér .. án efa!

 3. Halldór says:

  Já, ég vissi að þetta yrði óvinsæll dómur en hvað á ég að gera? Feika áhuga af því að allir eru að missa sig yfir þessari plötu? Nei. Held ekki.

  Og átti ég þá að rétta plötuna einhverjum öðrum gagnrýnanda sem myndi fíla hana? Þetta er ekki vettvangur til þess að hæpa upp tónlist heldur bara segja hreinskilið álit og þegar ég hlustaði á þessa plötu þá náði hún aldrei athygli minni.

  Ég benti á sönglínurnar sem eitt dæmi um eitthvað sem mér fannst vanta. Auðvitað heyrði ég margt gott á þessari plötu en lokadómur að mínu mati var það að góðu hlutirnir byrjuðu en kláruðu sig aldrei til enda. Líkt og þurfa að hnerra án þess að hnerrinn komi. Mitt álit.

 4. Bogi says:

  Mér finnst þessi plata alveg vel yfir meðallagi. Hún toppar ekki mineur aggressive en samt alveg tímans virði að spá í. Annars eru Kimono fyrst og síðast tónleikaband og einir af þeim fremstu héðan frá íslandi þótt þeir séu staddir í þýskalandi.

 5. Jonni says:

  Ég hélt einmitt að rjóminn væri vettvangur til þess að lýsa hlutunum á sem réttastan og sanngjarnastan hátt. Það er ekki beint rétt mynd af hlutunum þegar eingöngu er dregin upp persónleg mynd af plötu en hún ekki skoðuð í stærra samhengi.

 6. Halldór says:

  Þú getur ekki ætlast til að hver einasta plata sé gagnrýnd af mörgum gagnrýnendum rjómans. Ég ætla ekki að hækka minn dóm þótt aðrir, hvort sem það eru lesendur eða pennar síðunnar, myndu gefa hærri einkunn og við á rjómanum höfum hreinlega ekki tíma til að hlusta á allar plötur sem eru gagnrýndar hér. Þú verður því miður að sætta þig við að verða ósammála einhverjum gagnrýnum okkar.

 7. Davíð says:

  Þú hefur kolranga mynd af gagnrýni Jonni, hún getur aldrei verið meira en persónulegt álit, og annað er lygi. Eru einhver almenn sannindi til um Diskóhouse? Sumir hata, aðrir elska.

 8. Kári Hólmar says:

  Hver í fokkinu hatar Diskóhouse? Og af hverju í ósköpunum?

 9. Benni says:

  Plötudómar eru ofmetið hugtak.

  Dómar lýsa oftast bakgrunni rýnandans meira en tónlistinni.

  Það er greinilegt í þessum dóm að Halldór veit ekki hvaðan Kimono koma. En svona eru plötudómar bara því miður oftast.

  Tónlistardómar eru auðvitað persónulegt mat en það er líka mikilvægt að setja hlutina í víðara samhengi bara svo maður geti séð að rýnandinn hafi eytt tíma í það sem hann er að skrifa um.

  Maður hefur oft lent í því að lesa fimm stjörnu dóma en ekki skilið neitt í dómnum…

 10. Davíð Alexander says:

  Þetta pakk hímir í hverju horni Kári, ég hef hitt fólk sem skeinir sér á Daft Punk geisladiskabæklingum með ánægjugrettu á fésinu.

  Benni, dómar lýsa skoðun rýnandans, punktur.

 11. Helgi says:

  5/5

 12. Benni says:

  Davíð, þess vegna segi ég að dómar eru ofmetnir, punktur.

  Dómar lýsa oftar en ekki rýnandanum betur en því sem þeir eru að skrifa um. Ég finn þig í fjöru ef þú ætlar að andmæla því.

 13. Davíð says:

  Virði og gildi dóms (fyrir þér, því maður er bara einn maður í einu) er í beinu sambandi við virðinguna/álitið sem þú hefur á tónlistarsmekk og viðhorfum gagnrýnandans. Svo það er mikilvægt að karakter hans komi fram í dómnum.

  En vissulega eru dómar ofmetnir af mörgum, þetta eru allt bara misvinsælar skoðanir.

 14. Halldór says:

  Mér finnst Kimono menn megi vera ánægðir með hvað menn eru reiðubúnir til að verja heiður þeirra. Það hefur í raun mun meira vægi en einstakur dómur frá mér.

 15. Atli Bollason says:

  Varðandi eðli plötudóma:

  Ég er ósammála Davíð (en ég er það yfirleitt) og mörgum öðrum um að plötudómar séu einungis skoðun rýnandans. Að mínu mati getur góður músíkskríbent komist að kjarna tónlistarinnar, krufið hana á tiltölulega hlutlægan hátt. Hann skilar kannski ekki algildum sannindum frá sér, en hann á að geta komist ansi nærri því að lýsa gæðum tónlistarinnar í tilteknu samhengi eða að ákveðnum forsendum gefnum.

  Það er ekki tilviljun að dómar hallist yfirleitt flestir í eina átt eða aðra.

  Góð gagnrýni er hafin yfir smekk. Smekkur er bara hugtak sem var búið til til þess að réttlæta vonda listsköpun.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.