• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Stórsveit Nix Noltes – Orkideur Hawaí

 • Birt: 18/02/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 5

Stórsveit Nix Noltes - Orkideur Hawaí
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2005
Label: 12 Tónar

Hver veit nema ég skelli henni á fóninn í einhverri teitinni og fái mannskapinn til að taka með mér trylltan dans.

Þessa plötu hef ég haft í pokahorni mínu í nokkra mánuði og verið að byggja upp í mér kjark til að skrifa um hana. Setti hana nefnilega í spilarann er fékk hana fyrst í hendur mér, skellti headphonsunum á mig og hrökk svo í kút er ég setti plötuna í gang að hef ekki haft í mér að hlusta á hana aftur. Fannst þetta voða mikill hávaði eitthvað. Það þýðir þó ekki að vera með svona aumingjaskap ef maður vill láta kalla sig tónlistargagnrýnanda af einhverjum toga svo plötunni var skellt aftur í spilarann.

Nix Nolte liðar spila svokallaða balkantónlist og eru alveg helskemmtilegir á tónleikum (er orðið á götunni). Ég fæ samt á tilfinninguna er ég legg nógu vel við hlustir að það sé bara eitthvað sem ekki passi við þetta. Fólk segir að hvíti maðurinn geti ekki spilað blús eins vel og svarti maðurinn gerir það. Þannig líður mér er ég hlusta á Orkideur Hawaí. Nix Nolte liðar spila á hljóðfærin sín af fullkomnun en þeir spila ekki balkantónlist af fullkomnun – það vantar bara eitthvað pínulítið uppá (ef þið skiljið hvað ég meina).

Á heildina litið er platan mjög hress og skemmtileg. Umbúðirnar eru reyndar aðeins of líkar umbúðum plötunnar Funeral með Arcade Fire. Flottar umbúðir engu að síður. Platan inniheldur ellefu lög sem samanstanda aðallega af búlgörskum þjóðlögum en þó læðist eitt grískt þarna inn í og annað a-evrópskt. Ekkert lag er frumsamið á plötunni (kannski óþarfi að taka það fram) svo ég get ekkert farið að gagnrýna það (þó mér finnist lögin hvert öðru leiðinlegra). Þetta eru bara ýmis konar þjóðlög sem þeir hafa kosið að taka upp á sína eigin arma. Þeir gera það nú svo sem ágætlega.

Ekkert er hægt að setja út á hljóðfæraleikinn hjá þessum tíu hljómsveitarmeðlimum. Þarna eru greinilega samankomnir alveg ótrúlega hæfileikaríkir hljóðfæraleikarar sem ná góðu samspili og þéttum hljómi. Þeir ná alveg að smita mann af spilagleðinni, því er ekki að neita. Til að toppa þetta allt saman þá má geta þess að öll hljóðritun plötunnar er lifandi. Ég verð nú að gefa þeim plús í kladdann fyrir það.

Það sem mér finnst svona leiðinlegt við þetta allt saman er aftur á móti sú staðreynd að tónlistin er mjög einhæf og takturinn í lögunum er alveg þvílíkt æstur að manni fer bara að líða illa á stundum. Það er greinilegt að maður eigi ekki að taka það rólega við þessa tónlist heldur skella henni á fóninn í partýum.

Hver veit nema ég skelli henni á fóninn í einhverri teitinni og fái mannskapinn til að taka með mér trylltan dans (þó þetta sé ekki alveg hvað ég mundi kalla uppáhaldstónlistina mína).

5 Athugasemdir

 1. Alex · 22/02/2006

  Það þarf nú varla að taka það fram að þessi tónlist er beinlínis ætluð partíum (þ.e.a.s. brúðkaupum og slíku) í viðkomandi a-evrópulöndum. Það vantar kannski sveitta suddaskapinn og fyrirhafnaleysið sem maður heyrir í infæddum tónlistarmönnum (Yuri Yunakov, Ivo Papasov, Fanfare Ciocarlia.. etc. etc.), en að öðru leyti finnst mér þau gera þetta helvíti vel. Ég hefði gefið plötunni 3,5 og ætla stolt að draga hana fram í íslenskum partíum.

 2. Már Egilsson · 22/02/2006

  Þau eru já alveg stórskemmtileg live, plötuna hef ég ekki heyrt en mér finnst þetta viðbjóðslegt kover.
  Tók einhver annar eftir því á Pitchfork að þau eru að spila með Animal Collective Í Bandaríkjunum í mars? Mér finnst það magnað.

 3. Alex · 22/02/2006

  Þau voru líka að túra með Animal Collective um Evrópu í kringum nóv-des ef mig minnir rétt.

 4. Helga · 23/02/2006

  Their spiludu a undan Animal Collective her i Aarhus DK i november.

 5. Unnsteinn!!! · 02/03/2007

  Frábær plata,

  og skemmtilegur taktur á mörgum stöðum ekki þessi týpíski 4/4 taktur.

  En þó er Stórsveitin skemmtilegust live.

  -uni

Leave a Reply