• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

In Flames – Come Clarity

 • Birt: 03/03/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 5

In Flames - Come Clarity
Einkunn: 4
Utgafuar: 2005
Label: Nuclear Blast

Í heildina er þetta besta nýja plata ársins hingað til og það frá sænskri death metal sveit.

Ég hef smá samviskubit yfir að gagnrýna þessa plötu. Ég er nefninlega bara með skrifað eintak sem var halað niður af netinu og fyrir mér er það nokkurn veginn eins og að gagnrýna ljósmynd af málverki. Ég gerði heiðarlega tilraun til að versla plötuna inn hjá Skífuna en þrátt fyrir að hún hafi komið út fyrir mánuði virtist verslunin ekki vera búin að panta gripinn inn. Reyndar áttu þeir ekki eina einustu plötu með In Flames þrátt fyrir að þessi leiðandi dauðametalsveit Svíþjóðar hafi gefið út átta breiðskífur. Skammist ykkar!

Ég hef sjálfur ekki verið mikið fyrir dauðametalinn þar sem slæmur dauðametall er vel til þess fallinn til að valda hausverk en einstaka sinnum koma fram plötur sem ná að brjótast undan oki tónlistarflokkunar og vinna sér leið að tónlistarunnand- anum í mér. Come Clarity er tvímælalaust slík plata og miðað við að ég hafði ekki heyrt í þessari hljómsveit fyrir mánuði síðan þá hefur hún stokkið all verulega hátt á lista hjá mér með henni. Þetta er plata sem maður man eftir hvar maður heyrði hana fyrst.

Harðar, nánast vélrænar trommur, raddaðar gítarlínur, hörð vers og melódísk viðlög eru helstu einkenni á Come Clarity sem er ekki fjölbreytt plata. Lögin eru fylgja flest öll svipaðri rútínu en einhvern veginn tekst In Flames mönnum sífellt að halda athygli manns á meðan þeir vega salt á milli tanngnístandi hörku og óvenju grípandi viðlaga sem fengju Bon Jovi til að roðna.

Hljóðfæralega séð er þessi plata óaðfinnanleg. Þótt það finnist betri trommarar en Daniel Svensson þá er eitthvað virkilega sjarmerandi við taktana hans og nákvæmnin er gríðarleg – hvort sem það megi þakka honum eða stúdíóvinnslu. Drifkrafturinn í slagverkinu er einn og sér ástæða til að tékka á þessari plötu. Hins vegar er söngur Anders Fridén önnur slík ástæða og er virðingarvert hversu vel hann skiptir á milli öskurssöngs og fljótandi sönglína, þar sem hann gefur bestu rokksöngvurum ekkert eftir. Gítararnir eru einnig mjög áberandi þar sem raddaðar lead-línur ráða fram yfir ryþmaleik og er kannski ekki frumlegar en eiga þó vel við lögin og eru vel útfærðar.

Uppbyggingin er einnig góð og gera In Flames menn sér grein fyrir því að hlustandinn þarf smá hvíld af of til. Þá sér hið rólega titillag um að róa niður miðbik plötunnar og þannig undirbúa áheyrendur undir seinni hálfleik. Þeir kveðja svo á rólegu nótunum með hinu sönglausa og þokukennda „Your Bedtime Story is Scaring Everyone“. Inn á milli er hvergi gefið eftir.

Platan á sér þó nokkra mínusa. Hún jaðrar við að vera of löng eða of einhæf, þið megið velja. Í mínum huga leysir lausnin á öðrum vandanum hinn um leið. Einnig kemur fyrir að lögin séu ofhlaðin. Versti mínusinn þykir mér þó hversu ofunnið trommusándið er og er greinilegt að öllum hljóðum sem míkrafónarnir námu við upptökur hefur verið skipt út fyrir eitthvað sem In Flames hefur fundið safaríkara. Þetta veldur pínu ójafnvægi þar sem trommurnar færast mjög framarlega í hljóðblöndunina við þetta og stelur athyglinni talsvert frá öðrum þáttum laganna.

Í heildina er þetta besta nýja plata ársins hingað til og það frá sænskri death metal sveit. Laglegt afrek það, myndi ég segja. Ef ég ætti að mæla með lagi fyrir fólk að næla sér í á fullkomlega löglegan hátt þá myndi ég helst nefna lagið „Leeches“ sem, þrátt fyrir hræðilegan titil, er dregur upp góða mynd af plötunni og er einstaklega áheyrilegt. En helst myndi ég mæla með plötunni allri.

5 Athugasemdir

 1. Kiddi · 04/03/2006

  mun ég fíla þetta ef ég fíla Opeth?
  Ef svo er, þá ætla ég að tjekka á þessu.

 2. Halldór · 04/03/2006

  Ég á sjálfur eftir að tékka á Opeth (þótt hún sé á tölvunni minni – bilað hljóðkort) þannig að ég get ekki svarað því öðruvísi en að ég tel að þetta sé plata sem hafi getuna til að hrífa fólk sem er ekki aðdáendur þessarar stefnu. Þannig að endilega náðu þér í eitthvað lag af þessari plötu og sjáðu svo til.

 3. Sæmi · 12/03/2006

  Eitthverja hluta vegna þá fíla ég þetta ekki…allger skelfing, fæ hausverk

 4. Eddi · 17/03/2006

  In Flames eru ekki alveg í líkingu við Opeth nema þá að bæði böndin eru sænsk að uppruna.

 5. Siggi · 04/10/2006

  In Flames er hljómsveit sem maður þarf að gefa sér tíma í að hlusta á. Söngurinn getur virkað svolítið stuðandi á suma en hann venst fljótt. Það er um að gera að hlusta á eitthvað af eldra stöffinu frá þeim sem er hörku gott ef ekki betra en það nýjasta.

Leave a Reply