• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Clearlake – Amber

  • Birt: 08/03/2006
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Clearlake - Amber
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2005
Label: Domino / 12 Tónar

Það er ekkert líf að treysta bara á einhvern annan til að manni líði sæmilega.

„You rely on someone else to make you feel alright“ er sungið trekk í trekk í upphafslagi plötunnar Amber sem breska rokkhljómsveitin Clearlake sendi frá sér á dögunum. Lagið heitir „No Kind of Life“ og þar með er væntanlega vísað til þess óskemmtilega ástands sem sá sem sungið er til þarf að búa við alla daga – eða ósjálfstæðisins. Gítarar væla, húðir eru lamdar og bassinn undirstrikar tóntegundina, en hér er fátt sem fær mann til að leggja við hlustir fram yfir eitthvað annað. (Raunar er ástandið í íslensku útvarpi á þann veginn að þetta lag væri líklegast besta lagið á ótilgreindum eftirmiðdegi.) Þrátt fyrir það er lagið gott, eitt besta lag plötunnar; í því er að finna einhverja grípandi melankólíu sem nær sterkari tökum á manni við endurteknar hlustanir.

Svo fallega hluti er ekki hægt að segja um lagið „Neon“ þar sem óþolandi munnharpa er endurtekin í sífellu og aðeins of blúsrokkaður gítar fær að elta stefið í blindni. Þessi gítarhljómur (þ.e. ekki einhver tiltekinn hljómur s.s. A-dúr eða Bes-moll, heldur magnarastillingin og effektar) á því miður eftir að setja leiðinlegan svip á plötuna, t.d í „Here to Learn“. Ferskari úrvinnsla á þessu ótrúlega hljóðfæri sem sífellt kemur á óvart hefði verið skemmtileg. Hér er ég þó ekki alveg sanngjarn því að í laginu „You Can’t Have Me“ reyna Clearlake að líkja eftir þeim gítarhljómi sem Jónsi úr Sigur Rós hefur orðið heimsfrægur fyrir með prýðilegum árangri. Umrætt lag stendur einnig upp úr á plötunni, falleg og tímalaus poppballaða sem ekkert er hægt að setja út á, hún hefði sómað sér ágætlega einhversstaðar á Hvíta albúminu.

Í laginu „Finally Free“ minna Clearlake á samlanda sína í Blur þegar þeir voru upp á sitt besta. Það er að sjálfsögðu hið besta mál enda Blur einhver albesta poppsveit tíunda áratugarins. Það er eitthvað afskaplega breskt við Clearlake þó að þeir syngi ekki um verkamannastéttir, te, sunnudagsviðaukann með dagblöðunum og neðanjarðarlestir. Kannski er það bara hreimurinn. Þá skortir hins vegar galsann sem einkenndi Íslandsvininn Albarn og sveitina hans. Ekki eru Clearlake að taka sig of alvarlega?

Titillag plötunnar er einmitt gríðarlega alvarlegt, samanstendur nær eingöngu af sellói, vindknúnum bjöllum (hvað kallast wind-chimes annars á íslensku?) og söngrödd. Lagið hefur alla burði til þess að verða epískt stórvirki innan um einfalt og poppað rokkið sem einkennir meirihluta plötunnar. Dularfull útsetningin ljær ögn óræðri laglínunni skemmtilegan blæ, en lagið rennur út í sandinn og lýkur áður en því tekst að stimpla sig inn í hugann á manni. Sama má segja um mörg „einfaldari“ lög plötunnar: þau eru einföld fjögurra gripa rokklög sem ná því varla að verða melódísk áður en strákarnir eru búnir að keyra í gegnum vers og viðlag og millispil og ég veit ekki hvað.

Einsog sjá má af ofangreindu þá er ég búinn að nefna allavega þrjár aðrar hljómsveitir sem Clearlake leita meðvitað eða ómeðvitað til hvað varðar hljóm og lagasmíðar. Hér gæti ég nefnt enn fleiri dæmi þar sem sveitin minnir á einhvern annan en sjálfa sig (t.d. eiga harmoníurnar í lok „Far Away“ margt skylt við proggsveitina knáu Yes, og hljómagangurinn í hinu hugljúfa „Dreamt That You Died“ minnir óþægilega á lag af fyrstu plötunni með A Silver Mt. Zion). Þessu ólíku áhrif virðast kannski vera efni í spennandi kokkteil á prenti, en Clearlake tekst að gera nægilega lítið úr þeim til að auðvelt sé að leiða þau hjá sér. Þeim tekst ekki að taka á sig sjálfstæða mynd. Amber er langt frá því að vera vond plata. Drengirnir mættu hinsvegar hlusta betur á sjálfa sig: það er ekkert líf að treysta bara á einhvern annan til að manni líði sæmilega.

Leave a Reply