Raul Midón – State Of Mind

Raul Midón - State Of Mind
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2005
Label: Manhattan Records

…huggulegt dillipopp, lengra nær það ekki.

Netheimurinn veitti Raul góðar viðtökur um árið þegar myndband af honum í David Letterman fór í dreifingu. Víða var nafni hans getið og persónulega varð ég stórhrifin af þessum blinda gítarvirtúósó þenjandi raddböndin við lagið „State of Mind”. Raul er dökkur hálf-mexíkanskur bandaríkjamaður sem er smátt og smátt að færast upp metorðaskalann. Tónlist Raul er afskaplega lituð af þessum tvöfalda uppruna hans og er í raun blanda af hvoru tveggja – hamborgari með salsasósu, með leyfi.

Raul spilar fantavel á kassagítarinn sinn og skín það í gegn á disknum ásamt röddinni. Svo ég taki lagið „State of Mind” sem dæmi, þá gegnir kassagítarinn hlutverki bassa, tromma og gítars. Ofan á hröðu fingrahreyfingarnar lætur Raul hljóma í flaututónana, svo að úr verður marglaga og nokkuð þykk hljóðkaka. Röddin hans Raul er eins og gúmmí en ekki nóg með það, þá getur hann líka hermt eftir trompet. Tónlistin er fjölbreytt: R n’ B, popp, soul og jafnvel létt ska má heyra á disknum, oftar en ekki með latínó-yfirvafi. Öll tónlistin á það sameiginlegt að vera afskaplega suðræn og sólrík.

„State of Mind” er besta lagið á plötunni. Ekki spurning. Móralískur og sjálfskoðandi textinn passar vel við geðveikt lagið. En eftir að laginu lýkur hrynja allar væntingarnar mínar og ég stend frammi fyrir huggulegu dillipoppi. Vissulega skara sum lögin fram úr öðrum, eins og „Sittin’ In The Middle” og „Sunshine (I Can Fly)”, en restin er ansi flöt og bragðlítil. „Mystery Girl” er huggulegt meðalpopplag sem gæti fengið einhverja útvarpsspilun. „Waited All My Life” hljómar eins og Whitney Houston B-side (með fullri virðingu fyrir þeirri dásamlegu söngkonu). Spilamennskan er öll til fyrirmyndar, lengra nær það ekki.

Stevie Wonder er ekki talsmaður Raul að ástæðulausu og ljáir honum lið með munnhörpunni sinni í lögunum „Expressions of Love” og „Sunshine (I Can Fly)”. Stevie klikkar ekki. En eins og komið hefur fram er fátt annað á plötunni sem stendur upp úr. Vert er þó að minnast á „I Would Do Anything”, þar sem Raul leggur gítarinn til hliðar og syngur yfir undirleik kongatromma og panflautu. Þetta er lag er afskaplega frískandi í ljósi þess sem á undan hefur komið. Raul býður okkur meira að segja til Mexíkó í lokin og syngur á spænsku.

Raul hefur alla burði til þess að verða stór og mikilvægur tónlistarmaður. Hann gæti orðið næsti Ray Charles eða Stevie Wonder, þó að það sé að sjálfsögðu kjaftæði að gera fötlun hans að einhverju atriði. En afhverju gaf hann út eitthvað bara sæmilegt? Ég varð hálffúl út í hann fyrir að láta frá sér svona meðalplötu eftir að hafa sýnt hvað í sér býr. Hann hefur röddina, kann aldeilis á gítarinn og semur fín lög. En ná hæfileikar hans ekki lengra? Misskiljið ekki, platan er prýðileg afþreying og á fullkomlega rétt á sér… en ég var satt að segja að bíða eftir einhverju meiru og merkilegra frá þessum manni. Eitthvað beittara og bitastæðara, eitthvað í líkingu við eða í framhaldi af „State of Mind”. Djúsí hamborgara með sterkri heimatilbúinni salsasósu, ekki Spicy McCheese. En hann er nú bara svotil að byrja ferilinn sinn. Hann má eiga það.

One response to “Raul Midón – State Of Mind”

  1. Arnar says:

    Þessi gaur er magnaður, sá hann taka State of Mind í Jay Leno einhverntímann og hreifst ótrúlega af honum.

    Það er samt það eina sem ég hef séð af kallinum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.