• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

The Delays – You See Colours

 • Birt: 09/03/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

The Delays - You See Colours
Einkunn: 1
Utgafuar: 2005
Label: Rough Trade

Sprungin pylsa með bernaisse.

Önnur plata Southampton sveitarinnar Delays kom út 6. mars og ber heitið You see Colours. Rough Trade gefur út plötuna sem gjarnan þykir gæðastimpill. Er gæðagripur hér á ferð?

Litbrigði tónlistarregnbogans eru síbreytileg. Fyrir fáum árum var ljóðrænt væl og sjálfsvorkunn ríkjandi í bresku poppi með Turin Brakes, Starsailor og jafnvel Keane. Þar hefði The Delays getað átt heima. Rokkið átti að vera dautt. Dó reyndar ekki.

Á stundum spyrtu gagnrýnendur Coldplay saman við þessa kreðsu og síðar meir var allt sem var ekki harðara en popp sagt vera eftiröpun á Coldplay. Þar gæti The Delays átt heima.

Nú eru breyttir tímar. Litbrigði getnaðarlimsins felast í muninum milli Arctic Monkeys og franz Ferdinand. Vælipoppið er á undanhaldið og band eins og The Delays sem sækir í falsettu og dansskotið stuðpopp færir litbrigði í popprokkið sem ríkir. Á Delays heima hér?

Tónlist The Delays sækir klár áhrif til offramleiddrar popptónlistar níunda áratugarins hverrar ég er enginn sérstakur aðdáandi. Hljómborð, strengir, stórar útsetningar eru umgjörð um klassískt framreiddar lagasmíðarnar. Brýr, viðlög og laglínurnar allt snyrtilega sett fram en ekki sérlega eftirminnilegt. Þetta er hratt og fjörugt og sennilega eru Delays skemmtilegt tónleikaband. Söngvarinn hefur sérstaka rödd og framkvæmdir miklar falsettuæfingar ótt og títt. Þetta hljómar við og við eins og góði bróðir Brian Molko úr Placebo. Reyndar skrifa kunnugir að kappinn sé talsverður töffari og kalli ekki allt ömmu sína. Ekki kannski svo góður eftir allt saman – en hress.

Lögin eru mörg hver sérlega óeftirminnileg. Ná ekki að krækja, greipa sig í heilabörkinn eða tengjast manni tilfinningaböndum. Sum lögin eru hreinlega ofeldaðar pylsur með allt of mikið af steiktum lauk og remúlaði – eða jafnvel pylsur með bernaisse. Allt út um allt en kjarninn, það sem þetta er framleitt úr, er bara alls ekkert spes – hreinlega bara einhverjir afgangar úr annarri framleiðslu. Á níunda áratugnum guldu mörg góð lög, með góðum laglínum fyrir þess háttar matreiðslu (má nefna Tears for Fears?). Það voru oft steikur sem voru með allt of mikilli sósu, kartöflum og súrum gúrkum. Hér er aftur á móti verið að ofsjóða pylsur. Erfitt að láta slíkt ganga upp. Þó það sé allt löðrandi í bernaisse.

Það er helst að „Winter’s Memory Of Summer“ grípi mig aðeins. Er þó ofsoðið eins og önnur lög plötunnar. Rödd Greg Gilbert söngvara er þó ekki jafn útúrkreist og tilgerðarleg eins og í flestum öðrum lögum plötunnar. Laglínan er líka með skárra móti.

Textarnir á plötunni eru sér kafli sem hægt væri að eyða mörgum orðum í. Reyndar ekki af því að þeir eru svo góðir. Í raun er algjör tímaeyðsla að velta þeim fyrir sér. Þeir eru í besta falli til þess fallnir að gaula með. Bókmenntafræðileg greining gerir ekkert fyrir þá. Dulin merking hér? Ó nei! Skoðum dæmi úr laginu „Valentine“: „Raise the alarm / And baby, this is the moment to pray dear /But I’d rather lay by your side /Cause millions are fighting their way here.“ Þetta er auðvitað bara bull. Það er hægt að halda þessu áfram en lesendum eða hljómsveitinni er ekki gerður sérstakur greiði með því. Það á kannski ekki að gera ríka kröfu til textasnilldar í poppinu en þegar annað heillar mann ekki er gott að geta leitað ásjár í textunum. Gengur ekki hér.

Launsynir Morten Harket og Bonnie Tyler eru ekki næstu bjargvættar poppsins. Komu frelsara hefur verið slegið á frest.

es. ef ykkur langar til að heillast af þessu og trúa því að þetta sé snilld má benda á annan dóm frá Gaffa í Danmörku. Sá er hrifnari en ég.

2 Athugasemdir

 1. Davíð R. Gunnarsson · 13/03/2006

  Mér finnst Tears for Fears einmitt gera svona yfirdrifna pródúseringu að list. Það sama má segja um ELO, lögin eru mjög góð, en það er ofpródúseringin og strengjaflóðið sem gefur þeim sérstöðu.

 2. Særún María · 02/04/2006

  Ég þarf alltaf að tékka á svona löguðu sjálf, en ég hefði bara átt að sleppa því eftir að hafa lesið dóminn þinn – sem ég er algjörlega sammála.

Leave a Reply