• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Blindfold – Blindfold

 • Birt: 16/03/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 4

Blindfold - Blindfold
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2005
Label: Resonant

Þjakað og dáleiðandi rafvætt rólegheita síðrokk.

Í upphafi kemur smá sögulegur inngangur.

Síðasta haust keypti ég nokkrar plötur í 12 tónum frá útgáfunni Resonant hverjar voru á tilboði í búðinni. Ég pældi ekkert mikið í þessu. Tvær vöktu sérstaka athygli því mér þóttu umslögin svo sérlega flott. Plata semnefnd listamanninum Blindfold var önnur þeirra. Ég skellti henni í spilarann og þótti þetta bara stórgóð plata.

Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég fattaði að Blindfold var listamannsnafn sólóverkefnis Birgis Hilmarssonar söngvara og gítarleikara hljómsveitarinnar Ampop. Fleiri Íslendingar leggja plötunni lið meðal annars annar íslenskur lagsmaður Resonant, Ólafur Örn Josephsson, betur þekktur sem Stafrænn Hákon, sem ég hef lengi haft dálæti á. Hákon stafræni hefur vakið sérstaka athygli fyrir að hafa hvoru tveggja verið sagður höfundur frábærrar plötu og algjörlega misheppnaður tónleikaspilari í Morgunblaðinu. Það er nokkuð vel að verki staðið.

Af þessum sökum endaði Blindfold, plata sem ég vissi ekkert um þegar ég keypti hana, nema það eitt að umslagið var flott, á lista mínum yfir bestu íslensku plöturnar árið 2005.

Sögulegum inngangi plötukaupa er lokið.

Lögin á samnefndri plötu Blindfold einkennast mörg hver af gítarskruðningum, endurteknum gítarstefum með sívinnandi lágstemmdu hljómborðsspili undir. Langar nótur og einstaka trommusláttur koma þess í milli. Þetta hljómar ekki töff eða spennandi en er það. Þessi lýsing hljómar eins og ég sé ekki hrifinn en ég er það. Þetta er flott plata. Allt er þetta frekar rólegt, innhverft og útpælt. Hér er ekkert flan. Allir eru rólegir, einbeittir og yfirvegun algjör. Blindfold er rólegheitarokkari, já eða rólegheitari bara. Hér er á ferð þjakað og dáleiðandi rafvætt rólegheita síðrokk.

Eitthvað er um óræð hljóðfæri. Erfitt er stundum að átta sig á hvort verið er að spila á saltstaukana úr eldhúsinu eða annað sem hendi er næst. Er þetta kannski allt úr Makkanum? Hef gaman að þessu hvað sem pælingunum líður.

Í einhverjum skilningi er platan brú milli „gömlu Ampop“ og hinnar nýju. Þó má segja að Stafrænn Hákon sé brúarvörðurinn því fingraför hans eru mjög skýr á lögunum og útsetningum þeirra, til dæmis í „Ofsa“ og „I see you through me“ (info: Stafrænn Hákon tók einnig þátt í fleiri verkefnum með Bigga, a.m.k., Made for market). Slíkar brúarskilgreiningar eru þó óþarfi og Blindfold stendur alveg óstuddur sem öflugur listamaður með mjög góða plötu. „Ofsi“ er í augnablikinu uppáhaldslagið mitt af plötunni. Stefið sem vinnur sig í gegnum lagið á það til að festast á berkinum og er raulvænt eftir að stigið er út úr bílnum og Blindfold hættur að hljóma – nema í hausnum á manni.

Það er ekki laust við að Angelo Badalamenti komi upp í hugann í „Nightfall“, sérstaklega í upphafi lagsins. Það er einhver dulúð yfir laginu.

Þegar Biggi hefur upp raust sína er ekki laust við að hann teygi sig örlítið í átt til Sigur Rósar og jafnvel að Múm. Þetta kemur sérstaklega upp í hugann í laginu „I see you through me“ (

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

) sem er hið vænsta lag engu að síður.

„Myrkfælni“ einkennist af sjálfhverfum gítarrólegheitum, síendurteknu stefi og skruðningum. Fallegt er það og nær jafnvel að vera sorglegt og drungalegt eins og titillinn ber með sér.

Lokalagið „Þokubörnin“ minnir mig á íslenska sjónvarpsþáttinn „Allir litir hafsins eru kaldir“. Ég man samt ekki hvort að þetta er nákvæmlega stefið sem var notað í þeim þáttum en Birgir samdi að minnsta kosti tónlistina við þá í félagi við Þór Eldon.

Blindfold platan samnefnd listamanninum er ljúffengur kvöldverður framreiddur á franska vísu í kvöldrökkri. Öllu er naumt skammtað en þó af mikilli natni, alúð og fegurð. Einhverjir verða ekki saddir af máltíðinni, flesta langar í meira og öllum líður vel.

4 Athugasemdir

 1. smári · 01/04/2006

  skemmtilegt að segja frá því að þessi plata er tenging milli made for market og my delusions. þetta er platan þar sem skipt er rafrænni tónlist út fyrir strengjatónlist þó þetta sé tæknilega ekki tengt ampop.

  ég hvet til gerðar meiri íslenskar elektróníkar

 2. jóhann · 02/04/2006

  já íslensk raftónlist er að mestu leyti mjög góð, en því miður eru alltof fáir íslendingar sem einfaldlega nenna að tékka á því stöffi… halda flestir að múm sé eina raftónlistarbandið hér… en varla er það svo… alltaf hefur mér fundist íslendingar latir við að hlusta á íslendinga… þá meina ég annað en t.d sigurrós, múm, mugison… sem flestir snobba vel fyrir að mínu mati…þvi miður

 3. jóhann · 02/04/2006

  já gleymdi að segja að vonandi nær þessi plata meiri athygli hér heima… því hún á það svo sannarlega skilið… og því finnst mér 3,5 frekar döpur einkunn

 4. Stígur · 02/04/2006

  3,5 er bara mjög flott einkunn. Það komust plötur á erlenda árslistann minn í fyrra sem ég gaf 3,5. Á síðasta ári komu t.d. bara út þrjár íslenskar plötur sem ég hefði gefið hærra en 3,5.

Leave a Reply