• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Rás 2 rokkar hringinn

  • Birt: 20/03/2006
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Rás 2 rokkar hringinn

Lokakvöld túrsins

Rás 2 lauk hringnum í kringum landið með hljómsveitunum Ampop, Diktu og Hermigervli á Nasa við Austurvöll þann 17. mars.
Í hartnær viku hefur Rás 2 rokkað hringinn í kringum landið með hljómsveitunum Ampop, Diktu og Hermigervli ásamt lókal hljómsveit. Á föstudaginn 17. mars var loksins komið að höfuðborginni að fá að verða vitni að þessu og var lókalbandið Vax fengið til að spila með. Ég náði því miður ekki að vera mættur á svæðið áður en Vax kláraði en heyrði aðeins í þeim á Rás 2 á leiðinni. Einnig heyrði ég viðtal við Hauk Heiðar söngvara Diktu og kom þar fram að hann hefði nælt sér í flensu á Ísafirði og væri „uppdópaður“ á tónleikunum.

Í þann mund sem ég kom inn á Nasa var Dikta að ljúka við að setja upp. Ágætis mannmergð var samankomin og greinilega mikil tilhlökkun að heyra í þessum böndum. Dikta liðar voru geysiþéttir og greinilegt að vikutúr um landið hafi haft góð áhrif á spilamennsku þeirra. Þeir spiluðu lögin af Hunting for Happiness sem hefur verið að gera góða hluti og var greinilegt að margir hafa hlustað á þá plötu því fólk var vel með á nótunum. „Breaking The Waves“ var sérstaklega vel tekið af áhorfendum og mátti sjá margan gestinn syngja með Hauki. Haukur tileinkaði eitt lagið Ísafirði og er spurning hvort gestir salarins hafi verið með á nótunum afhverju svo var.

Ampop voru næstir á svið og í aðdraganda að spilamennsku þeirra fylltist dansgólfið og var orðið ansi þröngt. Greinilegt að margir ætluðu að sjá þá félaga sem hafa verið að gera virkilega góða hluti með My Delusions plötunni. Þeir renndu í gegnum lögin af plötunni og tóku viðhafnarútgáfu af „Ordinary World“ sem er helvíti mögnuð og gerir mikið fyrir lagið ásamt því sem tekin var viðhafnarútgáfa af „My Delusions“. Eftir hreint magnaða tónleika frá þeim voru þeir klappaðir upp og tóku „3 Hours of Daylight“ í annað skiptið þetta kvöld.

Hermigervill lauk svo kvöldinu með sinni dansvænu tónlist og mátti sjá ófáa einstaklinga dansa við takta hans. Ég staldraði ekki lengi við enda orðinn vel sáttur við mitt.

Rás 2 á hrós skilið fyrir þetta framtak sitt og vonandi að þetta sé fyrsti túrinn af mörgum sem þeir standa fyrir. Bæði er þetta gott fyrir lókal bönd sem og hljómsveitirnar sem fá að fara hringinn og spila fyrir áhorfendur sem jafnvel vanalega myndu ekki sjá hljómsveitirnar. Einnig er gott fyrir þær að fá atvinnufólk í bransanum sem tryggir að hljóðið sé alltaf 100% því það gerir svo mikið fyrir áhorfandann.

Leave a Reply