NilFisk – Don´t run after your own apples…

NilFisk - Don´t run after your own apples...
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2005
Label: petzi

Loksins munu aðrir landshlutar segja að Suðurland hafi komið með NilFisk í stað þess að minnast alltaf á Skímó.

Hljómsveitinni NilFisk var hent í sviðljósið næstum tilneyddri fannst manni árið 2003 þegar að Dave Grohl og félagar í Foo Fighers báðu drengina frá Eyrarbakka og Stokkseyri að hita upp fyrir sig í Laugardagshöllinni. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, næstum búið að virkja hálft hálendið og Bobby Fischer fluttur í miðbæinn. Núna þremur árum síðar er fyrsta stóra plata NilFisk komin. Nógu margar eru þær nú sveitirnar sem fá nægt umtal en ekkert heyrist svo í. Feginn er ég að NilFisk er ekki ein af þeim.

Don´t run after your own apples… byrjar á laginu „Hodja“ (fra Pjort ?) sem er án söngs og fullt af klisjum og stælum sem maður hefur oft heyrt. Þó er eitthvað við það sem mér líkar heil ósköp. Ekki bara að drengirnir eru mjög vel spilandi á hljóðfærin heldur er farið úr einu riffinu í annað með glæsibrag og án allra stæla. Umbúðirnar á annars venjulegum hlut búa hér til fyrirmyndar pakka. Lagið tekur sérstaklega skemmtilegan kipp undir lokin þegar það róast og síðustu 40 sekúndurnar standa uppúr. Ágætis fyrirheit um það sem koma skal.

„On display“ er næst í röðinni með frábærum gítarhljómum sem hljóma svo fáránlega einfaldir að það sætir undrun minni að engin hafi skellt þessu svona saman áður. Eins og og í fyrsta lagi plötunnar finnst mér skína í gegn hvað sveitin er vel spilandi. Það á kannski ekkert að koma á óvart en það breytir því samt ekki að það kemur mér á óvart. NilFisk kannski sjálfir útskýra þetta best í mynd Ara Alexanders, Gargandi snilld þar sem þeir segja að það sé ekkert hægt að gera í bænum þeirra nema að spila. Æfingin skapar meistarann, eða eitthvað.

„Trufluð tæja“ er skot sem að lítur vel út. Lagið er gott en söngurinn klikkar og því skotið í stöng. Ef lagið væri án söngs væri það stöngin inn. Ég er ekki að segja að söngurinn sé slæmur, alls ekki. Það er bara þannig að söngurinn akkúrat við þetta lag skemmir það, étur það innan frá. Þó er eins og drengirnir í NilFisk hafi fundist þetta líka enda heyrist ekki múkk úr hljóðnema söngvarans þegar að lagið er hálfnað, ég hefði sleppt söngnum alveg.

Einn þriðji búin af plötunni og nú fer að halla undan fæti. Þegar líða fer á plötuna fannst mér eins og að ég væri alltaf að hlusta á sömu lögin, aftur og aftur. Það er ákveðin formúla hér á ferðinni, mörg lögin einkennast af löngum instrumental köflum og þéttum gítarriffum. Það breytir því þó ekki að hér er gott rokk á ferðinni, þetta venst mjög vel og platan verður betri við hverja hlustun.

Eftir smá lægð kemur svo lagið „Sometimes (in the summer)“ og skellir manni aftur í gírinn. Svipaðar pælingar og í lögunum á fremri hluta plötunnar, kannski aðeins of líkar en hér stígur söngurinn fremst á sviðið og stelur senunni og lyftir laginu á hærra plan. Lagið „Murtur“ væri t.d. svipað að gæðum ef það væri ekki svona fjandi flatt, þetta eru tvö mjög lík lög en það munar svo sannarlega um sönginn.

Lokalagið „Life is all around“ er svo lagið sem ég er hvað hrifnastur af. Hér er allt að gerast og þegar ég sá NilFisk flytja þetta lag í Kastljósinu varð ég virkilega hrifinn og hreinlega hissa að sjá þá saman komna spilandi þetta líka rosalega góða lag. Strákunum sem hent var á sviðið á undan Foo Fighters þremur árum áður voru hér komnir eftir að hafa hangið í skúrnum spilandi eins og brjálæðingar og það var að borga sig. Þetta er sumarsmellurinn 2006. Eina sem pirrar mig við þetta lag er að það var fest falið aukalag fyrir aftan það. Það kemur löng þögn og svo byrjar falda lagið. Það er nærri lagi að setja aukalagið bara sem sér lag á diskinn heldur en að festa það svona við.

Platan í heild sinni er nokkuð gölluð en á Íslandi skiptir það ekki öllu máli. Það skiptir máli að einhver geri hlutina. Þetta er í áttina, helmingur plötunnar er mjög góður. Það er afgangurinn af því sem þarf að vinna í og það kemur með tímanum. Tónlist NilFisk á bara eftir að þroskast og þróast og á næstu plötu verða fleiri frábær lög. Fyrsta platan er komin og nú skal byggt ofan á hana og stefnt hærra. Íbúar á Suðurlandi hljóta að fagna því að NilFisk eru þaðan, loksins munu aðrir landshlutar segja að Suðurland hafi komið með NilFisk í stað þess að minnast alltaf á Skímó.

10 responses to “NilFisk – Don´t run after your own apples…”

 1. Eiki plögg says:

  Það eitt að koma Skímó inní dóminn finnst mér frábært.

 2. Sigurður says:

  “Nógu margar eru þær nú sveitirnar sem fá nægt umtal en ekkert heyrist svo í.”
  -geturðu nefnt einhverjar??

 3. Eiki plögg says:

  Margar sveitar úr Músíktilraunum t.d….

  let´s face it. fjölmiðlar hér heima eru snillingar í að hæpa upp hljómsveitir. HVort að þær nái svo að æla útúr sér plötu er annað mál.

 4. Gummi Jóh says:

  Já t.d. bönd úr músíktilraunum. En ég hugsaði þetta líka sem svo að það eru margar sveitirnar sem hafa stóra og mikla hype maskínu fyrir aftan sig, dæla út kannski einni plötu eða nokkrum EP plötum og svo ekki söguna meir.

  Það er ekki nóg að hafa hype maskínu fyrir aftan sig, maður þarf að geta eitthvað líka. NilFisk er dæmi um sveit sem getur eitthvað, frumburðinn er bara óslípaður demantur.

 5. Egill says:

  er ekki búinn að heyra plötuna en ég varð einmitt líka mjög hissa þegar ég sá þá í kastljósinu um daginn… virkilega fínt lag , og miklu miklu betra en það sem þeir voru að gera þegar þeir hituðu upp fyrir foo fighters

 6. Hef ekki heyrt plötuna, en ég er að spá hvort Foo Fighters hafi haft einhver áhrif á drengina, og þá helst á cover plötunnar.

  Sjá:
  http://www.director-file.com/gondry/foo1.jpg
  http://www.director-file.com/gondry/foo2.jpg

 7. toggipop says:

  er þetta þversagnasafn internetsins bara samankomið í einum plötudómi? 😉

 8. .. says:

  Hvort heitir platan Don´t Run After Your Own Apples eða Don´t Run After Your Own Appels eins og stendur neðst á plötu coverinu á þessari mynd?

 9. Eiki plögg says:

  skv mæspeis síðu þeirra heitir hún Don´t run after your own apples.

  Hvort er rétt veit ég ekki enda skiptir ritháttur plötunnar ekki miklu máli er það nokkuð?

 10. Dóri Munkur says:

  Það er nú greinilegt að þið hafið ekki alveg pælt nógu mikið í því hverjir hafa áður tekið þátt í músíktilraunum. Þið segið að ýmsar hljómsveitir hafi ekki gert mikið eftir músíktilraunir “eða svo mikið sem ælt upp úr sér einni plötu.
  Margar hljómsveitir hafa tekið þátt í músíktilraunum, 200.000 naglbítar, mínus, botnleðja, maus, greifarnir og fullt af öðrum mjög frægum hljómsveitum;sjá http://www.musiktilraunir.is
  NilFisk er mjög gott dæmi um hljómsveit, sem ekki þurfti einu sinni að fara í músíktilraunir, því þeir voru fljótir að næla sér í plötusamning, koma sér á framfæri, og gera eitthvað almennilegt.
  En þannig er það nú.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.