• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Korn – See You on the Other Side

 • Birt: 27/03/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 3

Korn - See You on the Other Side
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2005
Label: Virgin

Tilraunastarfsemi Korn verðskuldar plús en fyrir rokkhunda snýr hún í ranga átt, að norminu

Korn hafa haft meiri áhrif á metalsenuna en margur metalhausinn væri til í að viðurkenna. Þeim er eignaður heiðurinn af nu metal stefnunni og hafa rutt veginn fyrir vond bönd á borð við Limp Bizkit.

Hinsvegar hafa þeir einnig rutt veginn fyrir framúrskarandi góð bönd á borð við Deftones og Slipknot, sem hafa sagt sjálfir að Korn sé stór áhrifavaldur í þeirra tónlist. Þetta ber að virða.

Margir hafa fordóma gagnvart Korn. Þeir hafa ekki fallið í flokk með „merkilegri” metalböndum. Orðið „sellout” kemur jafnvel upp í hugann, enda hafa þeir svo sannarlega verið í spilun og átt marga hittara sem náðu eyrum fleiri en allra mestu harðhausa. Hvað sem mönnum finnst um þá hafa þeir selt 25 milljónir platna, geri aðrir betur, sem þýðir að þeir eru söluhæsta metalband síðari ára.

Ekki slógu þeir á slíkar raddir með því að ráða The Matrix, teymi af tónlistar pródúsentum, til að fara yfir nýjustu plötu sína, See You on the Other Side. Markmiðið var að gera hana útvarpsvænni. Enda er hún vissulega léttari og poppaðri en fyrri plötur. Mörgum þykja þetta sjálfsagt ekki góð vísindi og eflaust hefur þessi yfirhalning tekið broddinn úr plötunni. Téð teymi hefur unnið fyrir Avril Lavigne, Britney Spears, Busted og Hilary Duff. Prófaðu að segja „Metall – Hilary Duff” þrisvar sinnum hratt. Það fer afskaplega illa saman.

Skýringin á þessu öllu gæti verið að Take a Look in the Mirror frá 2003 átti að vera afturhvarf til upprunans en gekk afar illa. Léleg sala sannfærði Korn um að þeir þyrftu að þróast og breyta hljómnum. Tilraunamennskan á að hafa ráðið ferðinni en í tónlistinni beinist hún í ranga átt, í áttina að poppinu. Umgjörðin um diskanna er hinsvegar tilraunakennd, í stíl við Lateralus frá Tool og myndskreytingar eins og úr hryllingsútgáfunni af Lísu í undralandi.

Nema hvað, Korn liðar hefja leikinn á besta lagi plötunnar, „Twisted Transistor”, sem hefur verið í spilun undanfarið bæði í útvarpi og sjónvarpi. Þeir hafa oft lagt talsvert í myndbönd og TT myndbandið skartar Lil Jon, bílakallinum Xzibit, David Banner og sjálfum Snoop. Skondin nálgun í Spinal Tap stíl. TT er klassa lag, góð byrjun á plötunni, en eftir nokkrar hlustanir er það sárlega áberandi besta lagið. Kannski ekki alveg nógu heppilegt að setja stærstu bomburnar alveg fremst, grefur undan restinni.

TT er þriðja vinsælasta lag Korn frá upphafi, aðeins slegið út af „Did My Time” og „Freak On A Leash”, sem verður að segjast að eru talsvert betri lög.

Það er lítið að segja um næstu lög en ég sakna eiginlega sándsins af eldri plötum. Tunnubassinn hans Fieldy sem var svo karekterískur fyrir bandið virkar varla svipur hjá sjón, eða hljómur hjá heyrn réttara sagt. E-strengnum var alltaf slakað niður um einn tón eða svo og hann látinn lemjast vel utan í hálsinn.

Líklegasta ástæðan er þó sú að á síðasta ári tilkynnti Brian „Head” Welch, gítarleikari, að hann hefði fundið Jesú Krist frelsara sinn og sagði skilið við sveitina. Í fyrstu héldu menn að hér væri eitthvað grín á ferðinni en svo var ekki. Gítarleikurinn er talsvert einfaldari á nýju plötunni fyrir vikið. Þetta er fyrsta mannabreytingin frá upphafinu árið 1992.

Það er áberandi að Head vantar. Þeir geta ekki eða þora ekki að semja jafnþunga tónlist og gera jafnflott riff án hans. Það er líka erfitt að fylla skarð manna sem Ibanez bjuggu til sérstakan gítar fyrir, en 7 strengja K7 var þróaður fyrir Head.

„10 or a 2-Way”, „Throw Me Away” og „Love Song” eru stemningarlög með slatta af vindhviðum, stórum gítarhljómum, allskonar sándeffectum og speisuðum trommum með dimmar raddir á bakvið sönginn. Daðrar jafnvel við Nine Inch Nails á köflum. Í lok „2-Way“ hljóma líka sekkjapípur, en telja má ákveðið afrek að koma þeim fyrir á rokkplötu.

„Open Up” inniheldur frekar melódískt viðlag og þróast út í rólegan instrumental hljóðfæraleik. „For No One” byrjar á keyrslu, kannski nær sumu eldra efni sveitarinnar en margt á plötunni. Gallinn er bara að ekkert af þessu kemst nálægt „Twisted Transistor“.

Skástu lögin eru líka þau þyngstu. Fyrstu alvöru gítarlínurnar hljóma í þriðja lagi plötunni, „Hypocrites”, með þungu riffi og rokkuðu viðlagi. „Getting Off” gerir tilraun til að vera slagari með fínu viðlagi og „Liar” sparkar létt í rass.

„Coming Undone” er komið í spilun núna, ansi langt frá Korn sándinu, daðrar við popp og jafnvel danshljóm. Textinn aðeins þyngri, hugsanlega Jonathan Davis að fjalla um misnotkun sem hann varð fyrir í æsku.

Since I was young
I’ve tasted sorrow on my tongue.

Annars hætta þeir sér ekki of langt í textagerðinni. „Twisted Transistor” heggur í sama knérunn og „A.D.I.D.A.S” (All Day I Dream About Sex) eða vitið þið um marga hluti sem eru snúnir, ganga fyrir rafmagni og hægt er að segja um:

Hold it between your legs,
Turn it up, turn it up

Hálf slappt að vera enn í einhverri unglingagreddu á sjöundu plötu.

Maður verður víst að gefa plús fyrir tilraunamennsku en fyrir rokkhunda snýr hún í ranga átt, að norminu. Fólk sem hefur aldrei fílað Korn gæti fílað þessa. Kannski mun hún hljóma úr stífbónuðum Selfossvögnum á rúntinum.

Fólk sem fílaði allar gömlu plötur Korn gæti hinsvegar hatað hverja sekúndu.

3 Athugasemdir

 1. Helgi Gunn · 02/04/2006

  Frábært starf hjá ykkur, en ég vil að þið hlustið á jagged little pill, með Alanis Morissette, ein besta plata veraldar.

  Varð að segja þetta hér því ekki er hægt að hafa samband öðruvísi? 🙂

 2. Stígur · 02/04/2006

  Ég held að ég geti fullyrt að nánast hver penni á þessari síðu hafi hlustað að einhverju leyti á Jagged Little Pill, þó svo að ég gangi kannski ekki svo langt að kalla hana eina bestu plötu veraldar. En góð er hún.

 3. Helgi · 04/04/2006

  Tja, hver veit? Þeir kannski fíla hana. 😉

Leave a Reply