Músíktilraunir 2006

Músíktilraunir 2006

Undankvöldin

Undankeppni Músíktilrauna stóð yfir vikuna 20.-24. mars. 51 hljómsveit tók þátt.

Hinn árlegi viðburður, Músíktilraunir Tónabæjar og Hins Hússins, er nú í fullum gangi. Á föstudagskvöld steig síðasta hljómsveit af fimmtíu og einni á svið í undankeppni tilraunanna og á föstudaginn kemur munu tólf sveitir etja kappi um þau veglegu verðlaun og virðingu sem sigur í keppninni færir. Okkur hjá Rjómanum var boðið að fylgjast með gangi mála og tyllti ég mér í Loftkastalanum, sem reyndist vera prýðilegur tónlistarvettvangur, ef frá eru talin nokkur laus sæti sem ég þurfti að flýja vegna slysahættu. Förum aðeins yfir hápunkta keppninnar.

Mánudagur 20. mars

Fyrsta tilraunakvöldið þótti frekar jafnt og lítið um háar hæðir eða tilraunir til frumleika. Hinir kornungu Tranzlokal vöktu athygli fyrir gott pönk rokk sem fer þó ekki hefðbundnar leiðir og sýndi eyjapeyinn Sæþór Þórðarson færni á trommum.
Á eftir þeim á svið var gleði-funk rokksveitin Própanól sem greinilega átti miklu fylgi að fagna í salnum. Sýndu þau gott samspil og frumlegar pælingar en óöryggi í söng var áberandi, líklega þar sem söngkona sveitarinnar var nýgengin til liðs við hana.
Einnig sýndu Ekkium hugmyndaríki í tónlist sinni þrátt fyrir að söngurinn, þó vel væri framkvæmdur, sótti um of í skóla Bjarkar og Emiliönu Torrini.
Savage Solution sýndu tilþrif á sviðinu, þá sér í lagi Dagur Sigurðsson, sem þandi raddböndin, jafnvel þótt svo að tónlist þeirra væri ófrumleg og vantaði aðeins upp á samspil á köflum.
Að lokum ber að nefna hljómsveitina You Banana sem virtust ekki mættir til að reyna að sigra keppnina heldur fremur til að skemmta áhorfendum (og sjálfum sér í leiðinni) með stórskemmtilegri framkomu og ágætis indí-pönk tónlist.

Dómnefnd: Tranzlokal
Salur: Própanól

Þriðjudagur 21. mars

Þriðjudagskvöldið var einnig frekar látlaust. Mrs Pine sækja áhrif sín til hljómsveita á borð við Deep Purple og Led Zeppelin og bæta litlu við þá stefnu en styrkur sveitarinnar felst þó í stórgóðum gítarleik Björgvins B. Björgvinssonar og söng Elvars Ö. Friðrikssonar, en hann kom aftur við sögu á fimmtudagskvöldinu með hljómsveitinni Perlu.
Athyglisverðasta hljómsveit kvöldsins var dúóið Wipe Out en þar var á ferðinni hinn ellefu ára gamli trommari Ólafur Alexander Ólafsson, en hann er sonur Óla Palla, kynnis keppninnar og útvarpsmanns á Rás 2, og Margrét Rán Magnúsdóttir á gítar og söng. Þóttu þau komast ískyggilega vel frá sínu, þá sérstaklega Margrét, sem sýndi mikinn dug í að standa ein fremst á sviðinu og skila sínu af miklu öryggi.
Það hefur lítið farið fyrir sveitaballahljómsveitum í keppninni en ein slík, Antík, steig á svið og stóð sig með prýði. Þó svo að rokkþyrstir áhorfendurnir mátu þessa stefnu ekki að verðleikum þá var sveitin þétt og söngurinn góður.
Ministry of Foreign Affairs má, ef ríkisstjórn landsins er samkvæm sjálfri sér, búast við fundarboði í utanríkisráðuneytið og vera skipað að skipta um nafn. Burt frá því séð þá spilar hljómsveitin melódískt hljóðgervlarokk með frumlegum köflum og unnu sér inn verðskulduð atkvæði sals til úrslita.

Dómnefnd: Antík
Salur: Ministry of Foreign Affairs

Miðvikudagur 22. mars

Þriðja tilraunakvöldið var líklega það sterkasta sem ég séð í undankeppni Músíktilrauna. Fjórar sveitir báru af og áttu allar skilið að komast áfram og sýndu getu sem er sambærileg við það sem markaðurinn í dag gerir kröfu um.
We Made God spilar emo-metal og voru þéttasta band kvöldsins. Var söngur og trommuleikur þar í hágæðum auk þess að gítar strokinn með fiðluboga lúkkar alltaf vel á sviði.
Sweet Sins er skemmtilegt poppband sem mætti vel æft og metnaðargjarnt. Var sveitin mjög þétt og Aðalheiður, söngkona sveitarinnar, sýndi örugga sviðsframkomu og góða rödd.
Who Knew spila synthapopp af mikilli ástríðu. Sveitin er þétt og hefur greinilega mjög gaman af því að vera á sviði. Þeir stunda aulahúmorinn talsvert en taka hann nógu langt til að hann virkar og bætir það mjög upp fyrir góð en ekki frábær lög.
Fjórða og sú eina af afburðasveitunum sem ekki komst í úrslit, þrátt fyrir góða frammistöðu var Memphis. Þessir eyjapeyjar spila melódískt rokk í líkingu við nágranna þeirra Hoffman og er tónn þeirra mjúkur og viðkunnanlegur.
Af öðrum sveitum má helst nefna Black Sheep sem vakti hrifningu salsins fyrir sviðsframkomu og fín lög; og svo Concreate sem spilar efnilegan metal.

Dómnefnd: We Made God & Sweet Sins
Salur: Who Knew

Fimmtudagur 23. mars

Eins og væri verið að vega upp á móti þriðja kvöldinu þá var fimmtudagurinn ansi dapur. Engin hljómsveit var afgerandi né sýndi þroska til að stíga út á hinn almenna markað alveg strax þó svo að það hafi verið nokkur ljós í myrkrinu.
Doris Daze mætti fyrst á svið og spilað fínt en ófrumlegt popprokk. Söngurinn var mjög öruggur og ljúfur tónn í sveitinni.
Perla fylgdi henni eftir á svið og spilað blöndu af síðgruggi og blús rokki. Lög þeirra snerust að mestu um undraverðan gítarleik Steinþórs Guðjónssonar, sem var valinn besti gítarleikari músíktilrauna árið 2004, og Davíðs Sigurgeirssonar. Spái ég öðrum hvorum þeirra þeim verðlaunum í ár. Þrátt fyrir mikla hæfileika í sveitinni þá einkenndust lögin af stefnuleysi og og var áberandi að annað lagið hafði verið klárað fyrr um daginn.
Síðasta sveit fyrir hlé var Le Poulet de Romance sem þýðir víst franskir kjúklingar. Mættu þeir í sérstökum múnderingum sem áttu að gefa til kynna franskt útlit og töluðu með frönskum hreim allan tímann. Fannst mér þessi húmor mjög tilgerðarlegur og ekki til þess gerður til að vinna mig á band hljómsveitarinnar en þrátt fyrir það þá var sveitin vel spilandi. Hins vegar er tónlist þeirra, sem var steríótýpu frönsk tónlist, áframhald af þessum húmor og því engan veginn minn tebolli. Eftir hlé var það Modern Day Majesty sem sýndi mestu tilþrifin. Þeir spila þétt en heldur ófrumlegt rokk og voru nógu sannfærandi til að komast áfram á dómnefnd. Söngurinn heldur Nirvana-legur fyrir minn smekk en þó fínn sem slíkur.
Áhugaverðasta hljómsveit kvöldsins var System Failure 3550 error error sem innihélt átta Breiðhyltinga og er greinilega stofnuð til heiðurs ánægjunnar við að spila tónlist og hafa gaman af lífinu. Þessi sveit spilar dans-indie-popp, svipar talsvert til sigurvegara síðasta árs, Jakobínurínu, en sviðsframkoma sveitarinnar er stórskemmtileg og svífur hálfgerð hippastemning yfir vötnum. Þrátt fyrir fjölda meðlima var heild yfir lögunum en það mætti vinna meira í söngnum.

Dómnefnd: Modern Day Majesty
Salur: Le Poulet de Romance

Föstudagur 24. mars

Lokakvöldið bauð upp á all sérkennilega uppbyggingu. Fyrir hlé var lítið fyrir minn smekk. Hljómsveitin Rökkurró var áhugaverðust þar sem söngkonan spilaði einnig á selló og var klassísk stemning yfir lögunum. Vantaði þó aðeins upp á til að halda athygli manns.
Einnig var 3 in da Biz áhugaverð rappsveit vegna skemmtilegrar framkomu og öflugrar rytmasveitar. Rappið var samt ekki upp á sitt besta.
Eftir hlé var þó annað uppi á teningnum. Bárujárn er blásturshljóðfærasveit með smá elektrónískum fílíng þar sem sjö drengir spila létta stuðtónlist. Fórst þeim það vel úr hendi og var sviðsframkoma og klæðaburður greinilega vel ígrundaður. Vantaði þó örlítið upp á samspil á köflum.
Næst á svið kom Ultra Mega Technobandið Stefán í formi fjögurra, ungra, hálf ráðvilltra drengja í gulljökkum. Virtist hinn pelsklæddi söngvari sveitarinnar hafa drukkið örlítið of mikið af kaffi því fram að fyrsta tóninum var hann hálf stjarfur og horfði stórum augum í kringum sig. Er tónlistin hófst skipti hann aldeilis um gír og fór hamförum um sviðið, spilandi á hljóðgervil, syngjandi eins og híena og dansandi eins og Travolta á sterum. Ofan á þetta var tónlistin virkilega grípandi nintendo tónlist og gerði þetta að verkum að þetta er sú sveit sem stendur upp úr að mínu mati í keppninni.
Furstaskyttan er poppsveit sem bætir upp fyrir hversdagslegar lagasmíðar með húmorískri sviðframkomu og textaframleiðslu. Þeir voru vel samspilandi og var gaman að sjá grínhljómsveit sem tekur sig jafnframt alvarlega.
The Foreign Monkeys spiluðu hart rokk í anda At the Drive In og gerðu það vel þótt lögin hafi ekki verið sérstaklega frumleg. Þéttasta rokkhljómsveit kvöldsins og Víðir Heiðdal fór hamförum á trommusettinu, sem þurfti að lagfæra nokkrum sinnum eftir áslátturinn.
Undankvöldum Músíktilrauna lauk svo með háskólarokksveitinni Twisted Nipples. Miðað við hversu auðvelt er að fara út í klisjur í þeirri stefnu þá forðaðist sveitin þær gildrur vel, þó svo að smá Green Day heyrðist í einum kafla.
Að mínu mati hefðu allar hljómsveiti eftir hlé mátt fara réttilega í úrslit en svo gott gerist það því miður ekki.

Dómnefnd: Ultra Mega Technobandið Stefán & Foreign Monkeys
Salur: Furstaskyttan

Framkvæmd þessa árs hefur verið með sóma þar sem bæði svið og salur ná að þjóna þörfum keppninnar og öll umgjörð er látlaus en smekkleg. Hagvanir sviðsmenn hafa séð til þess að hljómsveitaskiptin taki lítinn tíma og sjaldan ef nokkurn tíman hafa tafir verið af völdum skipuleggjenda eða starfsmanna þeirra. Það er nauðsynlegt fyrir keppendur að hafa trygga hönd til að leiða sig gegnum þetta ferli þar sem margar af þessum sveitum hafa aldrei stigið á stórt svið og jafnvel ekki spilað í alvöru hljóðkerfi áður og sáu skipuleggjendur greinilega til þess. Mér fannst því leitt að sjá hversu margar hljómsveitir mættu óundirbúnar, hugsuðu jafnvel meira um hvernig þær litu út á sviðinu heldur en hvernig tónlistin hljómaði. En þrátt fyrir nokkur rotin epli þá finnst mér Músíktilraunir þessa árs hafa verið hörð keppni og munu úrslitin verða mjög spennandi miðað við þær sveitir sem eiga eftir að takast á. Við spyrjum að leikslokum.

Ljósmynd: Brynjar Gunnarsson
Ásdís Gunnarsdóttir fær sérstakar þakkir fyrir fylla upp í eyðurnar.

6 responses to “Músíktilraunir 2006”

 1. jájá says:

  mér þætti gaman að heyra hvað þér fannst um aten…endilega segðu mér!

 2. Halldór says:

  Mér fannst þeir leggja of mikla áherslu á útlit á kostnað tónlistarinnar. Samt ágætlega spilandi band en þarf að læra að fanga athygli áhorfenda með tónlistinni en ekki lookinu.

 3. Lalli G says:

  “Perla fylgdi henni eftir á svið og spilaði blöndu af síðgruggi og blús rokki”. Hvað get ég sagt, ég hlustaði á þetta og það var ekki nóta í lagi með Perlu sem minnti á síðgrugg eða blús rokk. Ég gæti því ekki verið meira ósammála þér. En gítarinn var spilaður af mikilli list í þeirri hljómsveit.

 4. Benjamín (meðlimur system failure sem býr í vesturbænum) says:

  Perla hljómaði vel mikið eins og Dream Theater og angaði af tónlistaskóla móral :

  “hey guys við verðum bara allir geðveikt góðir að spila og vinnum síðan bara músik tilraunir, ok”

  því miður virkar það ekki svoleiðis.

 5. Aníta says:

  Smá biturleiki í gangi sýnist mér.
  Þakkið þið bara fyrir að hann skyldi gefa sér tíma til að mæta á kvöldin og gefa sitt álit á því sem hann sá.
  Hann sagði frá því sem að HONUM fannst standa upp úr og vakti athygli hans. Þó að ekki allar hljómsveitirnar hafi verið nefndar er ekki þar með sagt að þær hafi verið lélegar, heldur vöktu þær einungis ekki áhuga hans. En allir hafa mismunandi tónlistarsmekk.
  Verið bara þakklát fyrir að einhver hafði viljann fyrir verkinu og standið ykkur bara betur næst. Ég er persónulega frekar sammála þessari gagnrýni Dóra, en það er bara mitt álit.

 6. árni says:

  takk fyrir gagnrýnina segi ég bara!

  árni (rökkurró)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.