• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Band of Horses – Everything All the Time

 • Birt: 30/03/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 8

Band of Horses - Everything All the Time
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2005
Label: Sub Pop

Rjómadómur:

Besta frumraun ársins?

Stundum hafa plötur skapað það mikið umtal fyrir útgáfu að Rjómanum finnst við hæfi að fleiri en einn gefi álit sitt á henni. Slíkar plötur eru svokallaðar Rjómaplötur. Eftir sem áður er einn sem skrifar hefðbundinn dóm en að neðanverðu eru svo birtar örstuttar umsagnir annarra. Meðaltal einkunna er reiknað og aðaleinkunn ákveðin með námundun að næstu heilu eða hálfu tölu.

Frumraun Seattle sveitarinnar Band of Horses, Everything All the Time, var gefin út 21. mars hjá Sub Pop og hefur vakið athygli. Mína athygli vakti hljómsveitin fyrst á hinu fína tónlistarbloggi Zúra gæjans. Spenningurinn var nógu mikill til þess að ég skellti mér á eintak af plötunni og mæli með því að þið gerið slíkt hið sama (reyndar keypti ég mér óvart tvö en það er önnur saga). Að mínum dómi er þetta besta frumraunin sem ég hef fundið á árinu, óvæntur gullmoli, ef ekki besta plata ársins til þessa.

Þetta eru stór rokklög með kraftmiklum útsetningum. Oft kallast á spenna, tregi og dulúð. Upphafslagið „The First Song“ er dreymandi inngangur að plötunni. Annað lagið „Wicked Gil“ er talsvert meira grípandi og líklegt smáskífulag með skemmtilegu riffi út í gegn. Líklega poppaðasta lagið á plötunni. Tilbrigði laga, útsetningar og flutnings eru þó mörg. Við heyrum þarna bæði stór og tilfinningaþrungin lög eins og „The Great Salt Lake“ og viðkvæmari tónsmíðar eins og „St. Augustine“.

Uppáhaldslagið mitt er enn fyrsta lagið sem ég heyrði með hljómsveitinni, „The Funeral“ (mp3 af Myspace) sem kallast svo skemmtilega á við Arcade Fire sem gáfu einmitt út plötuna Funeral, án greinis, árið 2004 og hefur síðan sigrað heiminn. Það kæmi ekki stórkostlega á óvart að „The Funeral“ færi svipaða frægðarför og hinn greinarlausi frændi. Stórkostlegt lag sem byrjar á einföldu gítarstefi sem vinnur sig svo í gegnum lagið á sérlega skemmtilegan hátt. Lengsta lag plötunnar og jafnframt það stærsta. Ást við fyrstu sýn. Ómögulegt að nikka ekki hausnum með þegar maður hlustar á þetta í Ipodnum á röltinu.

Við hlustun á „Part One“, fimmta lagi plötunnar, kemur Z plata My Morning Jacket án vafa upp í hugann. Að mínum dómi er þar alls ekki leiðum að líkjast. Hefði svosem alveg getað verið á Z ef út í það er farið.

Jim James hefði alveg getað sungið:

„Slowly dear I ask/Would you dance with me/Here’s the shades down/The lights are off.“

Samlíkingin er auðvitað ekkert út úr kú. Báðir eru úr suðrinu. Ben er frá S-Karólínu þó útgerðin sé í Seattle og þess gætir enn.

Upptökustjóri plötunnar Phil Ek hefur unnið mikið með Built to Spill (og Shins) og má heyra samhljóm milli „soundsins“ hjá Band of Horses og Built to Spill án þess að samanburðurinn nái mjög langt. Útgáfan af „Funeral“ (þarna er það án greinis) sem er á heimasíðu hljómsveitarinnar er kraftminni og vantar brodd. Mig grunar að í þeirri útgáfu hafi Pil Ek ekki verið mættur til leiks. Berið bara saman

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

og útgáfuna á MySpace síðunni. Enn ein sönnunin að góður upptökustjóri er gulli betri.

Það má því líkja þessari hljómsveit við fjölmargt góðmeti (og margt af því sem mér líkar best); The Flaming Lips, My Morning Jacket og Built to Spill. Allar þessar hljómsveitir eru auðvitað greinar í ættartréi Neil Young sem vissulega kemur upp í hugann þegar hlustað er á Band of Horses. Söngur Ben Bridwell minnir um margt á Jim James úr My Morning Jacket og Wayne Coyne úr The Flaming Lips. Það eru skemmtilegir söngvarar og Ben er það svo sannarlega líka. Endalausar samlíkingar gera þó ekki mikið fyrir þessa plötu sem getur fyllilega staðið ein og sér en gefur þeim sem ekki hafa heyrt þó eilitla innsýn í hvers megi vænta.

Platan er sérlega heilsteypt. Útpælt en ekki ofpælt. Sorglegt en vekur þó von. Söknuður en þó ást. Engu er ofaukið og ekkert veikburða lag. Óma löngu eftir að ég hætti að hlusta. Hættti ég kannski aldrei að hlusta? Platan er aðeins 36 mínútur en allt saman góðmeti. Engar eru uppfyllingarnar og þeir hafa náð að forðast að bæta einu og einu lagi við – svona til að nýta diskinn. Everything all the time er frábær (rólegheita) rokkplata. Megi Band of Horses mæta á Hróarskeldu (já eða Airwaves)!

Ætli trommarinn og gítarleikarinn séu að drepast úr leiðindum? Það er eins og þunglyndið sem tónlistin á að koma til skila staðnæmist hjá hljómsveitinni en ekki hjá hlustandanum. Mér verður hugsað til róbotsins Marvins.

-Alexandra Kjeld
Einkunn: 2,5

Þrátt fyrir oft á tíðum niðurdrepandi efnistök þá hafa Band of Horses alla burði til að verða næsta koddífíling hljómsveit á borð við Coldplay, Death Cab For Cutie og The Shins. Manni líður vel innísér við hlustun á Everything All the Time. „Funeral“ er lag ársins hingað til. Tónlist til að kúra við.

-Ari Tómasson
Einkunn: 3,5

Persónulega fíla ég þessa plötu. Góð samblanda af indí, sólskinspoppi og fallegum melódíum einkenna hana, ásamt rosa flottum texta sem oftar en ekki er uppistaðan. Aðalvandamálið er að þegar ég hlusta á plötuna er ég ekki viss hvort ég sé að hlusta á eitthvað sem er framleitt í þeim tilgangi að seljast, eða hvort Band of Horses eru að reyna að búa til eitthvað frumlegt. Ég get ekki ákveðið mig hvort mér finnist platan frábær, eða bara góð. Og það er að mínu mati veiki hlekkurinn. Þegar maður finnur „þá réttu“ þá á ekki að vera neinn vafi um að hún sé sú eina sanna og er því allt tal um að Everything All the Time, sé ein besta plata ársins stórlega ýkt að mínu mati.

Hápunktar plötunnar eru nokkrir. Þar ber hæst að nefna eitt fallegasta lag sem ég hef heyrt, lagið „The Funeral“. Textinn, gítarleikurinn og síðast en ekki síst söngurinn í þessu lagi fær mann næstum til að tárast. Jafnvel þótt þið kaupið ekki plötuna er þetta lag algjört „must” Annað lag sem stendur upp úr að mínu mati er byrjunarlag plötunnar sem heitir því frumlega nafni „The First Song“. Það ásamt „The Funeral“ er þeim eiginleikum gætt að valda hlustanda alvarlegum fráhvarfseinkennum ef ekki er hlustað á lögin með reglulegu millibili.

Á heildina litið er Everything All the Time þrusugóð fyrsta-plata. Flottu lögin á henni eru virkilega flott. En ég er samt búin að átta mig á því að mér finnst Band of Horses í raun bestir þegar þeir eru rólegir, þá hljómar tónlistin þeirra eins og tónlistin þeirra, ef þið skiljið hvað ég meina.

Þetta er stórfín frumraun hjá Ben Bridwell og félögum. Á köflum hljóma þeir ekki ósvipað og Shins – ef Shins væru sorgmæddari, ættu stærri gítara og spiluðu á þá fyrir okkur ofan af Hljóðaklettum. Flestir eiga eflaust eftir að minnast á lagið „Funeral” og það ætla ég að gera líka: Þetta er gullfallegt lag sem er gott að hækka í botn þegar einhver hefur verið vondur við mann.

8 Athugasemdir

 1. Arnar Þór · 03/04/2006

  Þetta Funeral lag er ein stór hamingja og gæsahúð.

  Geðveikt!

 2. Hjalti · 03/04/2006

  Já fyrsta lagið sem ég heyrði var Funeral og mér fannst það rosalegt. Svo hlustaði ég á restina af plötunni og fannst hún frekar slök. Myndi sjálfur setja 2 á þessa plötu.

 3. Bjarni Már · 03/04/2006

  Þessi plata er bara gleði út í gegn og er alveg frábær. Þessi plata verður hiklaust ein af plötum ársins. Lögin sem mér finnst vera hápunktarnir eru ,,The First Song” og ,,Funeral”

 4. Lilja Kr. · 04/04/2006

  Mér finnst þetta mikil gleði og gaman að heyra eitthvað skemmtilegt. Ég fíla plötuna, og auðvitað var Funeral fyrsta lagið sem ég heyrði. Mér finnst það þó eiginlega sterkasta lagið á plötunni. Það þýðir þó ekki að það sé það eina…I Go To The Barn, The Funeral og The First Song eru uppáhöldin mín í augnablikinu.

 5. ammarolli · 04/04/2006

  Þessi plata er nokkuð góð og ég held að hún eigi á örugglega eftir að vinna sér inn fastan sess á fóninum mínum.

 6. Ívar E. · 04/04/2006

  Hefur einhver útskýringu á því að iTunes flokki þetta blessaða lag undir barnamúsík? Children’s Music?

 7. Ari Gunnar · 05/05/2006

  ég er ekki frá því að Band of Horses sé meira hæpað band en Arctic Monkeys, þessa dagana. Alveg hreint algerlega óspennandi plata, fyrir utan the funeral sem er nokkuð gott

 8. Andri · 08/05/2006

  Sammála Ara Gunna, hvað rugl er þetta. Funeral er fínt lag en öll hin lögin eru ekki nema skítsæmileg.

Leave a Reply