• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Músíktilraunir 2006

 • Birt: 02/04/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 4

Músíktilraunir 2006

Úrslit

Glimmerregn, pimpaðir búningar og góð tónlist

Þá eru þær loksins yfirstaðnar, Músíktilraunir ársins 2006 og nýtt nafn komið efst á lista hjá öllum tónleikahöldurum landsins. Það var hljómsveitin Foreign Monkeys sem fór heim með sigurverðlaunin, fyrst hljómsveita frá Vestmannaeyjum til að gera slíkt, og gerði það talsvert óvænt.

Kvöldið hófst með látum þegar sigurvegarar síðasta árs, Jakobínarína, stigu á svið og sýndu sveitum kvöldsins hvað þyrfti til að sigra. Þrátt fyrir vandræði með bassann í fyrsta lagi þá var orkan sem streymdi frá þeim alveg rafmögnuð og þó svo að ég fíli lögin þeirra misjafnt vel þá er ekki hægt að hafa augun af þessari sveit á sviðinu. Þriðja og síðasta lagi þeirra lauk með að tveir meðlimir voru komnir út í sal og dönsuðu eins og vitleysingar með mjög hressum áhorfanda.

En þá var komið að keppninni sjálfri. Who knew hófu leikinn og skyggði á ákafann og spilagleðina sem einkennir þessa sveit talsvert út af stressi. Þeir lentu í smá tæknilegum vandkvæðum og virtust ekki ná sér almennilega á strik fyrr en í síðasta lagi þegar Martein, synthaleikari, tók upp glimmer og dreifði um sviðið af eldmóð.

Furstaskyttan var næst og mættu þeir enn yfirvegaðri og rólegri en á undankvöldinu og bættu þriðja laginu við. Það féll vel inn í hóp hinna tveggja og er mjög gaman að hlusta á þá drengi en tónlist þeirra er einhvern veginn ekki gerð til að sigra Músíktilraunir, heldur fremur til að skemmta fólki í lágstemmdri pöbbastemningu. Ég vil fá „Hvorfår går solen ikke ned“ í útvarp. Sveitin fór ekki alveg tómhent heim þar sem Halldór Ásgeir, söngvari, var valinn ræðumaður Íslands í ræðukeppni framhaldsskólanna, Morfís, seinna um kvöldið.

Própanól áttu ekki miklu láni að fagna í þessari keppni. Þeir tóku söngkonu inn í hljómsveitina gagngert til að taka þátt í tilraununum en urðu svo fyrir því óláni að stúlkan sú lá með lungnabólgu á úrslitakvöldinu. Þeir mættu því sönglausir og háði það þeim óneitanlega því þótt þeir hafi lengi spilað í þeirri mynd þá vantaði eitthvað uppá.

Fyrsta dómaravalssveit kvöldsins var We Made God. Þeir sýndu það á undankvöldinu að dramarokk þeirra er gert fyrir stórt svið og gott hljóðkerfi. Því miður brást seinni hlutinn í þetta sinn því þrátt fyrir góða frammistöðu sveitarinnar þá vantaði mikilfengleikann í hljóminn sem kom þeim í úrslitin. Einnig fannst mér þriðja lag þeirra ekki jafnast á við hin tvö þar sem það var sönglaust og talsvert langdregið. Ég vil þó benda á að slakt kvöld hjá þessari hljómsveit jafnast á við frábært kvöld hjá mörgum öðrum enda nægði þessi frammistaða til að koma þeim í þriðja sætið.

Antík spilaði sitt „sveitarokk“, eins og það var nefnt, með ágætum en það var þó lítið um hápunkta. Ragnar Fjölnisson stóð upp úr með sinni óvenjulegu en góðri rödd en lögin heilluðu mig hreinlega ekki.

Síðust fyrir hlé var unga sveitin Tranzlokal en þeir spila pönkrokk sem hljómar ekki eins og Blink 182. Vel gert þar. Þeir voru mjög hressir á sviðinu, áttu reyndar í smá erfiðleikum í fyrsta lagi en seinni tvö voru þétt og skemmtileg. Þeir eru án efa efnilegasta bandið í keppninni því að spila þetta góða tónlist á þessum aldri ber með sér miklar vonir fyrir framtíðina.

Eftir hlé kom hljómsveitin sem ég hafði verið að bíða eftir. Ultra Mega Technobandið Stefán heillaði mig upp úr skónum á undankvöldi sínu með stuðmikilli tónlist, flottum búningum og manískri sviðframkomu Sigurðar Ásgeirs, söngvara bandsins. Í stað gulljakka þá voru meðlimir sveitarinnar pimpaðir upp af Spútnik og mættu í galajökkum með hatta í stíl. Sigurður Ásgeir hélt svo innreið sína á litlu þríhjóli við mikinn fögnðu áhorfenda. Hljómsveitin ekki alveg eins öflug á úrslitakvöldinu, og gæti það verið þar sem ég vissi betur við hverju var að búast í þetta sinn, en þrátt fyrir það þá var hún stórskemmtileg og tel ég að hér sé kominn Trabant þessarar kynslóðar.

Væntanlegir sigurvegarar kvöldsins, The Foreign Monkeys voru næstir. Áður hafði ég spáð þeim þriðja sætinu og það var aðeins ástæða fyrir því að þeir hífðu sig upp á toppinn: Þeir voru eina sveitin þetta kvöld sem var betri á úrslitakvöldinu en á undankvöldi. Þrátt fyrir að tónlist þeirra sé ófrumleg þá er einhver frumstæður kraftur í henni og var framkoma sveitarinnar í stíl. Það var erfitt að hafa augun af Víði Heiðdal, trommara þar sem hann virtist hafa ásett sér að skilja settið eftir í molum.

Le Poulet de Romance er undarleg sveit sem virðist hafa horft á of marga „’Allo,’Allo“ þætti og tekið upp franskan hreiminn úr þeim. Ef við horfum framhjá þeim menntaskólahúmor sem gegnumsýrir sveitina þá stendur eftir vel spilandi sveit sem gæti gert góða hluti. En því miður yfirgnæfa þessir frönskustælar allt sem kallast gæti tónlist hjá henni.

Modern Majesty ber hálfgert rangnefni þar sem tónlist þeirra er engan veginn nýmóðins og varla hægt að kalla hana tignarlega. Þrátt fyrir að vera ágætlega spilandi þá er sveitin ekki alveg búin að finna eitthvað til að sérkenna sig frá þúsundum sveita í sama geira. Rokkið er á sínum stað en gítarsóló í röngum tóntegundum stungu óneitanlega í eyrun.

Poppsveit kvöldsins voru stöllurnar í Sweet Sins ásamt meðleikurum sínum og mættu þau létt í lund og spiluðu sitt sett með sóma. Þó svo að lög þeirra séu týpísk þá er kraftur í þeim og vaknaði ég í gærmorgun með „Ekki Brjóta Stólinn“ ómandi í höfðinu. Vona samt að þetta verði ekki endanlegur texti. Aðalheiður, söngkona, ber af sér mikinn þokka og er mjög sjálförugg í forsvari sveitarinnar.

Lokaband Músíktilrauna 2006 var Minestry of Foreign Affairs eða MOFA eins og hún er oft nefnd og spilar hún popprokk af fínni gerð. Lög sveitarinnar eru reyndar misgóð og stórbatnaði hún eftir að Albert Finnbogason tók við söng í öðru og þriðja lagi. Það var samt sem áður skemmtilegt að sjá meðlimina skipta um hljóðfæri milli laga og voru lagasmíðarnar mun þroskaðri heldur en hjá mörgum öðrum sveitum þetta kvöld.

Í heildina þá var keppnin hörð og mun jafnari en ég hafði búist við af undankvöldunum að dæma. Það var þó greinileg skipting milli hljómsveita sem áttu möguleika á sigri og þeirra sem áttu það ekki en allar sveitirnar telfdu fram öllu sem þær áttu til, hvort sem það var glimmer regn, pimpaðir búningar eða hreinlega góð tónlist.

Skipulag keppninnar hefur verið prýðilegt. Ég var ekki nógu ánægður með hljóðið á úrslitakvöldinu og það var misjafnt á undankvöldunum en þar sem erfitt er að greina hvort það sé sveitunum sjálfum um að kenna eða hljóðmanni þá læt ég það vera að dæma. Það er svaka batterí að halda góðu sándi hjá tólf hljómsveitum í röð. Að öðru leyti var ég mjög sáttur. Sú nýbreytni að sjónvarpa keppninni í beinni á netinu er eitthvað sem ég er mjög ánægður með og vona að það verði fastur liður.

Verðlaun

Berið saman við spá Rjómans hér

1. sæti: The Foreign Monkeys
2. sæti: Ultra Mega Technobandið Stefán
3. sæti: We Made God

Athyglisverða Sveitin:
Ekkium

Efnilegasti hljómborðsleikarinn/forritarinn:
Sonja Geirsdóttir – Kynslóð 625

Efnilegasti trommarinn:
Víðir Heiðdal – The Foreign Monkeys

Efnilegasti bassaleikarinn:
Guðmundur Einarsson – Le Poulet de Romance

Efnilegasti gítarleikarinn:
Steinþór Guðjónsson – Perla
Davíð Sigurgeirsson – Perla

Efnilegasti söngvarinn/rapparinn:
Magnús Bjarni Gröndal – We Made God

Ljósmynd: Brynjar Gunnarsson

4 Athugasemdir

 1. Ari Gunnar · 03/04/2006

  Sjálfur var ég mjög óánægður með niðurstöðuna. The Foreign Monkeys voru engan vegin bestir þetta kvöld, We Made God tilgerðalegir og pirrandi og Stefán er svoldið eins og sleikjó með tyggjókúlu: góður í tvær mínútur, en fyllir mann af algerum viðbjóði eftir það.

  Sjálfur hefði ég viljað raða þessu upp svona:

  1. Furstaskyttan (sérstaklega skemmtilegir textar og skemmtileg lög)
  2. MOFA
  3. Sweet Sin

 2. Halldór · 03/04/2006

  Afsakið… laga það.

 3. Maggigunn · 03/04/2006

  Er eiginlega alveg sammála Ara í þessu. Nema það að ég hefði sett Mofa í fyrsta sætið.

 4. Ívar E. · 11/04/2006

  Ég er ekki enn kominn með það á hreint af hverju MOFA unnu þessu keppni ekki.

Leave a Reply