• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Leaves á Gauknum

 • Birt: 04/04/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

Leaves á Gauknum

Tónleikaumfjöllun 03/04/06

Bob Justman, Lokbrá og Leaves spiluðu fyrir fullum Gauk á mánudaginn. Rjóminn var þar.

Það sem fyrst ber að nefna varðandi tónleikana á mánudaginn er hversu lágt verðið var. Það kostaði aðeins 500 kr. inn og er það meira en sanngjarnt verð fyrir 9 tónlistarmenn. Húrra!

Bob Justman byrjaði gleðina stuttu eftir 9 og þurftu þeir sem fyrstir komu því ekki að bíða í nokkra klukkutíma eins og vill oft verða. Hann var töff að vanda, steig upp á sviðið en lét fólkið bíða meðan hann kveikti sér í sígarettu og fékk sér bjór. Þegar fyrstu gítartónarnir byrjuðu að hljóma skildi ég af hverju ég hafði verið að standa í því að fara á tónleika á mánudegi, það var vel þess virði. Fyrsta og seinasta lagið voru áberandi best ásamt kóveri hans á laginu „Love Song“ með hljómsveitinni The Cure. Það var ekkert hægt að setja út á Bob Justman og því óþarfi að fjölyrða eitthvað meira um hann.

Næstir í röðinni voru strákarnir í Lokbrá. Það er ekki hægt að neita því að á þessu stigi málsins var fólk farið að ókyrrast og vildu ábyggilega margir bara fá Leaves á sviðið og síðan drífa sig heim í bólið eftir langan vinnudag. Lokbrá gerðu sitt besta til að fá fólk í stuðið en þeir voru ekki alveg að átta sig á staðreyndum, þ.e. að þetta var mánudagur. Þeir uppskáru samt hróp hér og þar og létu þar við lynda. Lokbrá voru eina hljómsveitin sem ég var að sjá í fyrsta sinn þarna og því vissi ég ekki alveg hvernig þetta ætti eftir að vera þrátt fyrir að hafa heyrt einstaka lög með þeim. Prógrammið þeirra var þétt, fyrsta lagið byrjaði sem einhver sýra (sem mér fannst persónulega geggjað) en endaði síðan í meiri Lokbrá-stíl sem hefði verið gott og blessað hefði laglínan ekki verið svona afskaplega skrítin. Lögin voru svo flest í þeim dúr það sem eftir var, einhver rokkbræðingur sem ég var ekki alveg að fíla. Leyfi þeim samt að njóta vafans þar sem ég var í mánudagsskapi eins og áður sagði, en þeir hressir og stillir í föstudagsgírinn.

Að þessum orðum sögðum þá furða ég mig á uppröðuninni þetta kvöld. Bob Justman og Leaves er kokkteill sem blandast vel saman (sérstaklega á mánudegi!), en að hafa Lokbrá inni í þessu? Ég skil það ekki alveg.

Jæja. Síðastir á svið voru aðalgæjarnir, eða Leaves. Spenningurinn hjá mér var orðinn allasvakalegur enda hafði ég síðast séð þá félaga þegar þeir hituðu upp fyrir Duran Duran í Egilshöll sumarið 2005. Ég bjóst við miklu, en fékk enn meira. Þessir tónleikar – Leaves á Gauknum 3.apríl – munu seint gleymast. Þetta voru einir bestu tónleikar sem ég hef farið á, og það segi ég ekki oft. Ástæðan er einföld. Leaves voru þéttir og það heyrðist ekkert á þeim að þeir væru einum færri (Arnar gítarleikari er hættur í sveitinni). Lagalistinn var frábær, svo ekki sé meira sagt. Nýtt efni í bland við gamalt, meirihlutinn af plötunni The Angela Test og ég var sko ekki fúl með það. Þess ber að geta að nýju lögin voru líka alveg þrælfín og ég bíð spennt eftir næstu plötu.
Leaves byrjuðu á laginu „Whatever“ af The Angela Test, og um leið þagnaði salurinn og steinþagði síðan, nema þegar þakið ætlaði af húsinu á milli laga (aka lófaklapp). Lögin runnu áfram og það var sérstaklega gaman að þeir skildu ekki enda eða byrja á „The Spell“, það hefði verið of týpískt að láta það vera aðalnúmer kvöldsins. Í staðin kláruðu þeir það snemma og maður vissi aldrei á hverju maður átti von. Það var líka einstaklega flott í næstsíðasta laginu sem þeir tóku, „Should Have Seen It All“ (af The Angela Test, flottasta lagið þeirra að mínu mati) þegar Arnar söngvari yfirgaf hljómborðið og stökk á trommurnar og þeir voru þar tveir að berja húðir svo fast og hratt að ég hef varla séð annað eins. Hreint út sagt æðislegur endir á lagi. Minnti mig pínu á Sigur Rós og lagið „Untitled 8“, í kaflanum á því lagi þegar það stigmagnast þangað til hámarkinu er náð. Lokalagið var svo lagið „Shakma (Drunken Starlit Sky)“ sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og er fyrsta lagið á The Angela Test. Skemmtilegt hjá þeim að rugla röðinni svona.

Tónleikarnir voru frábærir í alla staði og það er ekki neitt sem getur stoppað mig í að vera viðstödd þegar þeir spila næst, jafnvel þótt það sé mánudagur. Ráðlegg ykkur hinum að gera slíkt hið sama!

2 Athugasemdir

 1. Arnar · 06/04/2006

  Flott grein, örugglega skemmtilegir tónleikar.

 2. Ingi Björn · 06/04/2006

  Frábærir tónleikar, flott grein. Greinileg áherslu breyting tónlistarlega hjá þeim félögum. Man reyndar ekki eftir að þeir hafi spilað whatever í upphafi. Mér fannst skemmtilegt að heyra lagið we af fyrstu plötunni, eitt van metnasta lagið á þeirri plötu.

Leave a Reply