• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Ókind – Hvar í hvergilandi

 • Birt: 09/04/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 3

Ókind - Hvar í hvergilandi
Einkunn: 4
Utgafuar: 2005
Label: Ókind

Hvar í Hvergilandi er einlæg plata þar sem sköpunargleðin skín í gegn og fær hún óhikað mín meðmæli

Hvar í Hvergilandi er önnur breiðskífa hljómsveitarinnar Ókind og fór frumburður þeirra, Heimsendi 18 framhjá mér á sínum tíma. Skilst mér að sú plata sé ófáanlega þessa dagana og þykir mér það miður því að eftir að hafa kynnst nýrri plötu Ókindarinnar þá langar mig að heyra meira frá þeim. Þetta er að hluta til þar sem platan er einungis um hálftíma að lengd (þetta virðist vera orðin tískulengdin hjá íslenskum hljómsveitum) en einnig þar sem hér er á ferðinni tónlist sem er þess virði að hlusta á.

Ókind er sérstæð hljómsveit á margan hátt. Hún tekur áhrif úr mörgum áttum, líkist um margt gömlu Botnleðjunni og gott ef ég heyrði þá ekki tala um Purkinn sem áhrifavald í viðtali um árið. Á sama tíma heyrir maður sterk áhrif frá erlendum sveitum, þá helst Muse, Radiohead og The Mars Volta. Inn á milli koma lítil indie-skot líkt og „Sem Hreyfast“ og „Verst Klædda Stjarna Ársins“, sem gæti allt eins verið inngangskafli í Sigur-rósarlagi.

Lagasmíðar eru þroskaðar og bera vitni um tónlistarmenntun og góða tilfinningu fyrir uppbyggingu og útsetningum. Það er ekkert G-C-D hér á ferð. Mest ber á Steingrími Karli Teague sem sér um söng og hljómborð, en þetta tvennt veitir sveitinni einkennishljóm sinn, þennan sérkennileika sem hljómsveitin á það til að kenna sig við. Söngur Steingríms er óvenjulegur og afskaplega einlægur en ég gæti trúað að hann væri ekki allra. Ingi Einar Jóhannesson fylgir fast á eftir á gítar og á marga góða spretti. Ólafur Freyr Frímannson og Birgir Örn Árnason sjá svo um rythmasveitina af öryggi.

Textar plötunnar eru kafli út af fyrir sig. Gæti ég trúað að hér myndu menn skiptast í tvær ólíkar fylkingar; önnur sem myndi lýsa þeim sem frábærri ljóðagerð, þrunginni ungmennaangist sem brýst fram í tærum naívisma og súrrealistískum táknmyndum á meðan hin fylkingin myndi einfaldlega spyrja: „Hvern fjandann voru þessir menn að reykja?“ Hvorn hópinn sem þið kjósið þá er samt ekki annað hægt en að dást að textabrotum á borð við: „Hann segir: „RAKAÐU JAKUXABAKHLUTAMAKA!“ og „BLAKAÐU HAKANUM NAKINN Í LAKI!““. Já, hástafirnir eru þeirra.

Eins og sjá má þá er oft barnsleg einfeldni í textum þeirra og verð ég að viðurkenna að sumir þeirra virðast vera algerlega samhengislaus táknmyndasköpun en það eru þessir inn á milli, þeir sem steinliggja sem fá mig til að sætta mig við texta Steingríms, auk þess að greinilega er lögð mikil vinna í að láta þá falla að lögunum. Aldrei heyrir maður atkvæði þröngvað inn í línu heldur verður söngurinn hluti af rythma laganna alveg út í gegnum plötuna. Ef verðlaunað væri í textagerð á Íslandi myndi ég tilnefna „Verst Klædda Stjarna Ársins“ sem háðsádeilu ársins.

Það eru ekki margir ókostirnir við þessa plötu. Ef ég ætti að nefna eitthvað þá væri það helst að hljómgæðin eru á köflum talsvert hrá og svo er ég ekki alltaf sammála effektavali á gítarnum. En það er í raun er það formsatriði að telja upp einhverja galla. Hvar í Hvergilandi er einlæg plata þar sem sköpunargleðin skín í gegn og fær hún óhikað mín meðmæli, sama hvaða tónlistarstefnu þú ert að fíla.

3 Athugasemdir

 1. Erna · 28/04/2006

  Hvar í Hvergilandi er svo þétt að hún jaðrar við sérstæðu.

 2. Dídí · 04/09/2006

  Platan er mesti gæðagripur.

 3. Ókindin snýr aftur | Rjóminn · 13/08/2010

  […] “óstöðvandi vatsnfall tónlistarlegrar nautnahyggju” í Reykjavík Grapevine. Dómur Rjómans var líka einstaklega jákvæður og platan valin sjötta besta íslenska platan árið […]

Leave a Reply