Stórkostleg sönggyðja

Stórkostleg sönggyðja

Fiona Apple í Folies Bergère 10/04/06

Hin furðulega og dásamlega Fiona Apple stóð fyrir sjaldgæfum tónleikum, og það í Evrópu.

Það dró til tíðinda þegar auglýstir voru Fiona Apple tónleikar í París (sjá dóm um nýjustu plötu hennar hér). Að því er ég best veit hefur hún aldrei haldið tónleika í borginni. Þar fyrir utan heldur hún sig mestmegnis frá sviðsljósinu og er þekkt fyrir furðulega framkomu. Tónleikarnir seldust fljótlega upp eftir að þeir komust í sölu og þegar undirrituð mætti á svæðið voru fjölmargir örvæntingafullir og miðalausir aðdáendur að ráfa um með litlar auglýsingar. Fyrstir koma, fyrstir fá, sagði Vigfús, enda mætti ég snemma og fékk framarleg sæti í konunglegum leðursófum. Geri aðrir tónleikastaðir betur.

Tjaldið var dregið frá tímanlega og við blasti fjögurra manna hljómsveit ásamt Fionu á píanóinu. Fiona hin ægifagra var klædd bláum sumarkjól og var salurinn trylltur af spenningi, annað er ekki hægt að segja. Orðin voru spöruð alla tónleikana, enda tjáði tónlistin allt sem segja þurfti. Fyrstu tvö lögin, „Get Him Back” og „Better Version Of Me” gerðu áheyrendum alveg ljóst að Fiona var í miklum ham. Hún lagði nefnilega allan pakkan í þetta. Lögin opnuðust fyrir mér alveg upp á nýtt í flutningi hennar og öðluðust tvöfalt meiri þýðingu. Í „Sleep To Dream” færði Fiona sig frá píanóinu og fremst á sviðið. Ég hef sjaldan séð jafnmikla útrás á tónleikum, því um mitt lagið hóf Fiona að öskra og lemja í sjálfa sig með taktinum.

Salurinn var mestmegnis pakkaður af ofuraðdáendum, enda virtust flestir kunna alla textana upp á hár og dilluðu sér ákaft með tónlistinni. Hljómsveit Fionu samanstóð af tveimur hljómborðsleikurum sem skiptust á að spila á sjálft píanóið þegar Fiona fór fremst á sviðið, þrusutrommara (Charlie Braden ef ég heyrði rétt?) og Dave Mercy bassaleikara. Eina skiptið sem Fiona sagði eitthvað var til að kynna hljómsveitina og lagið um „l’autre femme”, þ.e.a.s. „Oh Well”. Einn maðurinn öskraði „Marry me!” frá salnum og fékk hið sposka og feimna svar „ok” frá Fionu. Hún nefnilega forðaðist að horfa of mikið á aðdáendur alla tónleikana og tísti af taugaveiklun þegar hrósyrðin ómuðu frá salnum.

Fiona söng lög af breiðskífunum hennar þremur, lögin hvert öðru reiðara. Hljómsveitin var líka ansi heit og fékk trommarinn mikið klapp og mikil hróp þegar hann braut kjuðann sinn í „Not About Love”. Ég verð að segja að undir lok tónleikanna var ég farin að fá nóg af ofuraðdáendunum í kringum mig sem sungu með hverju einasta lagi. Ég viðurkenni að ég kann flesta textana hennar líka, en mér þykir það lágmarksvirðing gagnvart öðrum tónleikagestum að leyfa þeim að njóta listamannsins, ekki flagga eigin rödd og kunnáttu. Ég þykist a.m.k. viss um að bíógestir kynnu ekki baun að meta það ef ég talaði með uppáhaldsmyndinni minni. En dæmi hver um sig.

Eftir fimmtánda lagið sitt vinkaði Fiona bless og hvarf af sviðinu ásamt meðspilurum sínum. Þegar allt ætlaði að vera vitlaust út í sal komu þau aftur fram og spiluðu þrjú lög í viðbót og enduðu á „Parting Gift” af Extraordinary Machine. Fiona stóð fram úr öllum væntingum mínum og sýndi sannaði það á tónleikunum að hún er the real deal.

Lagalisti:

Get Him Back
Better Version Of Me
Shadowboxer
To Your Love
I’ll Know
Sleep To Dream
Your Own Hands
Paper Bag
I Used To Love Him (Sick In The Head Song)
Oh Well
On The Bound
Red Red Red
Not About Love
O’Sailor
Get Gone
Extraordinary Machine
Criminal
Parting Gift

5 responses to “Stórkostleg sönggyðja”

 1. Ari Gunnar says:

  Er ég einn um það að finnast útgáfan af Extrordinary Machine sem aldrei kom út, töluvert betri heldur en sú sem kom í verslanir?

  Pródúsering Jon Brion var töluvert ævintýralegri og gerði öll lögin erftirminnilegri. Sú sem á endanum kom út virðist mjög litlaus í samanburði við hana.

  Kannski ekki rétti staðurinn til þess að röfla um þetta, en bara, vildi koma því á framfæri.

 2. Ari says:

  mig minnir að Alex hafi aðeins komið inn á þetta í dómnum

  http://rjominn.is/reviews/show/108

 3. Mási says:

  “mér þykir það lágmarksvirðing gagnvart öðrum tónleikagestum að leyfa þeim að njóta listamannsins, ekki flagga eigin rödd og kunnáttu.”
  Mjög sammála þessu, hef lent í þessu sjálfur og bíó-samlíkingin er góð en bætist við að á tónleikum er þetta örugglega líka pirrandi fyrir flytjendurnar. Sé einnig fyrir mér mjög fyndna leikhúsferð ef þetta væri stundað þar.

 4. þórunn says:

  Öfunda þig Alex!

 5. Alex says:

  Ég vil bara benda aftur á dóm um Extraordinary Machine sem birtur var á Rjómanum þann 30/12/05 og er að finna hér:

  http://rjominn.is/reviews/show/108

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.