• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Manchester

  • Birt: 03/05/2006
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Manchester

Hitað upp fyrir tónleika

Kraftaverkin gerast enn.

Þann 6.maí næstkomandi verða svokallaðir Manchester tónleikar í Laugardalshöllinni. Það er óhætt að kalla þetta stórtónleika en fram koma Echo and the Bunnymen, Badly Drawn Boy, Elbow, Trabant, Benni Hemm Hemm og The Foreign Monkeys. Tilefni tónleikanna er að það er búið að koma á tengingu flugleiðis á milli Íslands og (hvern hefði grunað) Manchester. Ekki er amalegt að halda upp á atburðinn með þessu móti!

Eftir tónleikana sjálfa tekur við „indípartý” á Nasa, en þar munu plötusnúðarnir Óli Palli og fyrrum bassaleikari The Smiths, Andy Rourke, þeyta skífum. Aðgangur í partýið er ókeypis fyrir tónleikagesti á meðan húsrúm leyfir, en miðaverð er 1000 krónur fyrir aðra.

Svo maður fjalli nú aðeins um tónlistarmennina fyrir þá sem ekki þekkja til þeirra…

Hljómsveitin Echo and the Bunnymen hefur lengi verið þekkt meðal Íslendinga enda tróðu þeir félagar upp í Laugardalshöllinni árið 1983. Þess má geta að þeir eru frá Liverpool en ekki Manchester… en það er nú ekki langt á milli. Þekktustu lög þeirra eru líklegast lögin „The Killing Moon”, „Silver”, „Bring on The Dancing Horses” og „The Cutter”.

Badly Drawn Boy gengst einnig undir nafninu Damon Gough. Hann náði fyrst almennri hylli með smáskífunni Once Around The Block , en stuttu síðar kom svo út platan The Hour of Bewilderbeast sem skaut honum rakleiðis á stjörnuhimininn. Hann var einnig fenginn til að gera tónlistina við kvikmyndina About a Boy þannig að fleiri hafa heyrt í honum en vita. Þekktustu lög Badly Drawn Boy eru lögin „Pissing in the Wind”, „Born Again”, „Dissillution”, „Something To Talk About”, „You Were Right” og svo lagið „Silent Sigh” sem margir kannast örugglega við sem „Smáralindarstefið”.

Hljómsveitin Elbow var mörg ár að reyna að koma sér á framfæri en ekkert gekk þangað til V2 útgáfan sá eitthvað í þeim árið 2001 og gaf út fyrstu plötu þeirra; Asleep In The Back. Þá fóru allt í einu hjólin að snúast og gengur allt ljómandi vel hjá þeim í dag. Þekktustu lögin þeirra eru lögin „Fallen Angel”, „Fugitive Motel”, „Forget Myself”, „Newborn” og „Grace Under Pressure”.

Hljómsveitirnar Trabant og Benna Hemm Hemm þarf svo vart að kynna en þær hafa báðar verið mjög vinsælar hjá íslensku þjóðinni undanfarið. The Foreign Monkeys eru nýbúnir að vinna Músíktilraunir Tónabæjar og verður því spennandi að sjá hvernig þeir spjara sig í Höllinni þann 6.maí.

Enn eru til miðar á þennan stórviðburð en þá er hægt að nálgast á midi.is og í verslunum Skífunnar og BT. Miðarnir eru á ódýru nótunum (leyf mér að heyra: halelúja!) en miðaverð í stúku er 3.700 kr. og miðaverð í stæði 2.600 kr. – og meira að segja miðagjald innifalið. Kraftaverkin gerast enn.

Leave a Reply