• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Manchester

 • Birt: 07/05/2006
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 34

Manchester

Tónleikar 06/04/06

Geðveiki, glimmer og rokk og ról.

Íslendingar eru nískir. Þetta er bláköld staðreynd og kom glögglega í ljós á laugardagskvöldið en þá voru stórtónleikar í Laugardalshöllinni. Ef nísku er ekki um að kenna veit ég ekki hvað varð til þess að önnur hver manneskja í Höllinni komst þar inn með boðsmiða. Ég veit bara um tvær manneskjur sem borguðu sig inn og það er virkilega slappt! Þið sem hafið enga afsökun fyrir að mæta ekki á þessa tónleika: Skammist þið ykkar!

Foreign Monkeys stigu fyrstir á svið laust eftir 6. Þá voru örfáar hræður í salnum, pottþétt allt eyjapeyjar/pæjur. Löngum tónleikum eflaust um að kenna, en tónleikarnir voru um 7 tímar á lengd og mættu langflestir eftir kvöldmat eða um 8 leytið.
Foreign Monkeys voru glataðir. Ég ætla ekkert að reyna að fegra þetta, svona er bara mitt álit á tónlistinni þeirra. Hún er þessi týpíska bílskúrsbanda-rokkbræðings-tónlist og hefur oft verið gerð betur. Lögin enduðu aldrei, heldur byrjaði nýtt lag alltaf strax og rann saman við það fyrra, Þetta átti eflaust að vera flott en kom mjög illa út, svolítið eins og þeir væri með hálftíma langt lag. Allt í einu voru ljósin kveikt á meðan þeir voru enn á fullu að spila og maður fékk á tilfinninguna að tími þeirra væri liðinn – bókstaflega. Ef þetta er framtíðin er Ísland í vondum málum.

Næst á svið var hljómsveitin Benni Hemm Hemm. Benna og félaga hafði ég ekki séð spila áður og hlakkaði því mikið til. Á sviðið komu 9 menn og ein kona og hófust þau handa við að spila á blásturshljóðfæri, gítara o.fl. Ég fékk nettan hroll því allt í einu minnti sviðið mig á innkomu blásaranna á tónleikum Sigur Rósar (einum of flottir tónleikar). Þegar ég loks datt út úr þeim gír var lagið „Sumarnótt“ að klárast, flott lag þar á ferð. Rödd Benna er kannski ekkert sú sérstakasta í heimi, en maður fyrirgefur það með tilliti til frábærrar lagasmíðar og góðu vali á hljlóðfæraleikurum. Sérstaklega var hristuleikarinn að slá í gegn hjá mér, hann var einstaklega hress og skemmti sér greinilega mikið. Í laginu „Brekkan“ var fólk farið að setjast niður, ég þar meðtalin, en afslappandi tónlistin og hippaleg lagaheitin gerðu það að verkum að manni fannst hálfkjánalegt að standa bara kyrr og glápa. Eitthvað var rödd Benna farin að fara í taugarnar á mér en ég gat ekki áttað mig á því hvað var að henni. Að lokum uppgötvaði ég ástæðuna – textarnir voru á íslensku. Ég er orðin svo vön því að heyra íslenskar hljómsveitir syngja á ensku að mér fannst íslensku textarnir bara hálfskrítnir. Það sýnir kannski hvernig fleiri og fleiri íslenskar hljómsveitir stefna á alheimsmarkaðinn.. eða eitthvað þannig. Ekki góð þróun. Allavega, lögin runnu ljúflega áfram og streymdi stöðugt fleira fólk í salinn. Tónlistin viritst vera að slá í gegn hjá fólki og hápunkturinn var tvímælalaust lagið „Til eru fræ“ sem hefur fengið töluverða spilun í útvarpi og er fáránlega flott í þessari útgáfu. Það var síðasta lagið og uppskáru félagarnir mikið lófaklapp frá nærri fullum sal.

Glimmersveitin Trabant var næst á svið og byrjaði Gísli Galdur herlegheitin. Svo bættust hinir meðlimir Trabant í hópinn, komu skoppandi inn á sviðið, kastandi glimmeri (að sjálfsögðu) og klæddir sem sannir herramenn í hvítum jökkum með rautt bindi og vatnsgreitt hár. Þetta fannst mér frekar skrítið þar sem þeir eru venjulega í fáklæddari kantinum á tónleikum.. en alltaf gaman að sjá eitthvað nýtt. Þeir ruku beint í „Nasty Boy“ við frábærar undirtektir í salnum, fólkið var greinilega tilbúið í aðeins meira fjör en Foreign Monkeys og Benni Hemm Hemm höfðu boðið upp á. Ef þið hafið séð Trabant á tónleikum vitið þið að „fjör“ er lykilorð þeirra. Ragnar söngvari hljóp hring eftir hring um sviðið með sólheimaglottið límt á varirnar á sér, fór svo að hálfpartinn dansa við Gísla sem söng í sífellu „baby show me your love” við mikinn fögnuð áhorfenda. Ragnar kynnti svo inn lagið „Pump You Up“ sem „lítið, lostafullt lag“ og fólk byrjaði samstundis að dansa. Beint á eftir kom svo lagið „Loving Me“ og var greinilegt að tónleikagestir þekktu vel til plötunnar Emotional, en lögin voru flest af henni. Trabant brugðust ekki vonum mínum og tóku uppáhalds lagið mitt með þeim, „One“ en Ragnar kynnti það inn sem sorglegt lag.. „eru ekki allir í stuði fyrir sorglegt lag?!“ og útskýrði svo að það væri svolítið eins og hann sjálfur, „sorglegt en töff“. Held að það geti allir verið sammála því. Eina lag kvöldsins sem ekki er á Emotional fékk næst að hljóma, en það var kynnt sem „viðkvæmt en fallegt lag, um ástina, Helvítis ástina!!“ (Ragnar kynnti og skilgreindi nær öll lög kvöldsins.) Lagið var flott og lofar góðu um framhaldið!
(Að þessum orðum sögðum á ég erfitt með að ímynda mér hvernig framtíðin verður fyrir Trabant. Ég skil ekki af hverju þeir eru ekki frægari en þeir eru, þeir hafa allt sem til þarf! Frábær lög, frábæra sviðsframkomu, frábær tengsl við áhorfendur. Ef ég væri umboðsmaður og hefði mátt velja eina af hljómsveitum kvöldins til að koma á framfæri hefði ég hiklaust valið Trabant.)
Jæja, þeir félagar voru ekki búnir enn. Ragnar sönglaði María, María og fékk salinn með sér af heilum hug, byrjaði því næst lagið „Maria“ og afklæddist loksins við góðar undirtektir. Þeir félagarnir luku sér svo af með síðasti lagi plötunnar Emotional, „Emotional Meltdown“. Þegar þeir voru á leiðinni af sviðinu og sveittir tónleikagestir öskruðu á meira ákvað ég strax að þeir væru aðalnúmer kvöldsins. Þessari ákvörðun varð svo ekki hnikað það sem eftir lifði kvölds. Manni leið einfaldlega eins og maður hefði komið til að sjá Trabant, leið eins og manni á að líða við lok góðra tónleika. Ég gleymdi eitt andartak að það voru þrjár stórar hljómsveitir eftir og ætlaði að fara að labba út, sátt með mitt. Þessir menn eru guðir.

Andy Rourke hóf að bjástra við tölvuna sína á meðan fólk beið eftir Echo and The Bunnymen. Hann var DJ kvöldsins og spilaði klassatónlist, þar á meðal Doves, Blur, Pink Floyd, Pixies, Arctic Monkeys og Elliott Smith.

Drungaleg munkatónlist gaf til kynna að Bergmál og Kanínumennirnir væru að fara að byrja. Ég þurfti að róa vinkonu mína sem er með fóbíu fyrir munkatónlist (án gríns) svo að ég missti af innkomu þeirra, en leit loks upp og sá þá standandi á sviðinu eins og guði. Echo and The Bunnymen eru töff. Það er staðreynd sem seint verður neitað. Þeir byrjuðu á laginu „Going Up“ og var söngurinn í fyrstu afar óskýr en svo lagaðist það eftir því sem leið á tónleikana. Í laginu „Stormy Weather“ kveikti söngvarinn Ian McCulloch sér í sígarettu sem passaði vel við skuggalega ímyndina og magnað hárið. Þeir fóru síðan rakleiðis í einn helsta smell þeirra, „Bring On The Dancing Horses“, sem vakti mikla lukku meðal tónleikagesta. Því var síðan fylgt eftir með röð af minna þekktum lögum, en einhverjir harðir aðdáendur létu í sér heyra svo um munaði og það var fullljóst hverja þeir komu til að sjá. Loks kom annað þekktara lag, „The Killing Moon“. Þar voru flestir með á nótunum og sungu með af fullum krafti. Ég beið spennt eftir „The Cutter“ eins og ábyggilega margir aðrir, og var orðin nokkuð hrædd um að þeir ætluðu að sleppa því, þegar upphafstónarnir loks hljómuðu. Ótrúlega flottur flutningur hjá þeim, og stemmningin orðin mjög góð í salnum. Eftir „The Cutter“ þökkuðu Echo and The Bunnymen fyrir sig en komu svo aftur tvíefldir til leiks í uppklappinu og tóku nokkur þekkt lög, meðal annars „Walk On The Wild Side“ þar sem allur salurinn tók þátt í að syngja. Í heildina voru Echo and The Bunnymen alveg til fyrirmyndar og greinilega enn fullt líf í tónlistinni þeirra.

Elbow voru næstir á svið, eftir nokkur lög úr tölvu Andy Rourke. Þessari sveit var ég mjög spennt fyrir, enda hafði ég heyrt góða hluti um hana og nokkur ágætis lög. Þvi miður var ég ekki alveg eins hrifin og ég hafði búist við að verða, en þeir voru samt einstaklega góðir. Svolítið fyndið hvað rödd söngvarans Guy Garvey passar ekkert við búkinn á honum.Hann hefur þó mjög góða rödd en beitti henni ekki nóg að mínu mati. Guy byrjaði á því að bjóða gott kvöld – á íslensku. Vakti það að sjálfsögðu mikil fagnaðarlæti og hann varð greinilega ánægður með viðbrögðin því hann þakkaði fyrir sig eftir hvert einasta lag með nærri lýtalausu takk-i. Hann spjallaði einnig mikið við áhofendur og þótti auðsýnilega gaman að fá sterk viðbrögð. Á tímapunkti hefði spjallið getað verið inni í stofu hjá einhverjum fótboltakappanum yfir tebolla.. „We’re from Manchester… we don’t like football!“ eins og hann tjáði forvitnum aðdáanda. Elbow byrjuðu aðalkeyrsluna á laginu „Red“ sem var mjög kröftugt og flott lag. Annað lagið, „Leaders of the free world“ af samnefndri plötu, var enn flottara, o.sv.frv. Á meðan á flutningi Elbow stóð var Badly Drawn Boy standandi baksviðs, kinkandi samþykkjandi kolli og drekkandi bjór. Elbow voru sterkir og flottir, og sérstaklega er vert að minnast á æðislegar raddanir í lögunum þeirra. Hæstu hæðunum náðu þeir í laginu „McGreggor“, en þá stóð Guy fremst með trommur hjá sér og barði þær hátt með ágætu millibili á meðan skært ljós kom í salinn. Þetta var mjög áhrifaríkt og fylgdust allir hugfangnir með. Guy tileinkaði svo Emmu og Rachel lagið „Switching Off“. Hvað ég gæfi ekki fyrir að vera þær! Þetta lag er fallegasta lag Elbow-manna og hvet ég alla til að hlusta á það. Það var hrein unun að sjá þá félaga flytja það í persónu. Guy sló svo botninn í þetta með því að tileinka Garpi, Helgu og Kristni lokalagið; „Newborn“. Í lok lagsins var kominn heljarinnar reykur svo það sást ekki í sviðið. Svo þegar hann loks hvarf voru Elbow farnir af sviðinu, rétt eins og þeir hefðu horfið á einni sekúndu. Mjög flottur endir.

Á eftir Elbow tók við frekar löng bið eftir Badly Drawn Boy, sem kom þó loksins á svið vel klæddur með húfuna góðu og trefil, eins og besti útigangsmaður. Þótt það væri fáránlega mikill hiti í Höllinni virkaði þetta einhvernvegin eðlilegt.
Badly Drawn Boy byrjaði á að spjalla um hvenær hann hefði síðast verið á Íslandi og byrjaði svo á laginu „A Minor Incident“ úr myndinni About A Boy en hætti alltaf jafnóðum og sagði vandræðalegur að hann væri kominn úr æfingu. Í laginu „Time of Times“ hætti hann svo nokkrum sinnum í miðju kafi, ástæðan var of fallegur (kvenkyns) ljósmyndari. Hann bað kurteislega um að fá ljótari ljósmyndara næst og sagðist verða að segja þetta, að hann væri bara einlægur. Á einhverjum tímapunkti þarna höfðu bæst við trommari og bassaleikari og seinna kom svo gítarleikari líka. Badly Drawn Boy sagði lagið „Above You Below Me“ vera ömurlegt lag en ákvað samt að spila það fyrir tónleikagesti og viti menn, lagið var alls ekki ömurlegt! Hann var greinilega mjög stressaður og það er rétt að það komi fram að hann virtist einnig vera afar drukkinn. Sem var bara skemmtilegt, því fyrir vikið var hann mjög persónulegur og talaði til fjöldans við góðar undirtektir. Meðal annars sagði hann fólkið í salnum vera flottasta fólkið á Íslandi fyrir að mæta á tónleikana – því er ég hjartanlega sammála. Næsta lag var svo af fyrstu plötunni hans; The Hour of Bewilderbeast, lagið „Fall In A River“. Í því var mikið klappað og náði hann salnum á sitt vald og brátt voru allir klappandi. Að þessu loknu hlammaði hann sér við hljómborðið og spilaði byrjun „Smáralindarstefsins“, eða lagsins „Silent Sigh“ við mikinn fögnuð viðstaddra, en hætti því síðan skyndilega, var bara að stríða fólki. Hann spilaði einnig tvö ný lög í röð, það fyrra var „aðeins demo“ að hans sögn og seinna lagið var hann að spila í fyrsta sinn og heitir það „Promises“. Það var mjög flott og á væntanlega eftir að verða ofspilað á útvarpsstöðvum í framtíðinni. Þar næst kynnti hann lag „sem hann samdi fyrir Madonnu“, og var það að sjálfsögðu lagið „Lika a Virgin“ sem hann spilaði á afar sérstakan hátt. Hann kláraði þó ekki lagið heldur byrjaði aftur á byrjun lagsins „Silent Sigh“, og kláraði það í þetta sinn. Hinir tónlistarmenn kvöldsins stóðu álengdar baksviðs og fylgdust hugfangnir með, enda Badly Drawn Boy aðalnúmer kvöldsins. Þegar uppáhalds lag mitt með honum kom skömmu síðar, „Once Around The Block“, ætlaði allt um koll að keyra. Einhverjir létu sér það þó ekki nægja og hrópuðu hástöfum „Pissing In The Wind! Pissing In The Wind!“ Þeir þögnuðu nú samt þegar trommarinn byrjaði að berja húðirnar í laginu „Four Leaf Clover“ – í bókstaflegri merkingu. Hann sló á trommurnar með berum höndum eins og brjálæðingur og það hljómaði bara nokkuð vel! Eftir þetta þakkaði Badly Drawn Boy fyrir sig og þeir gengu út af, en komu nokkru seinna eftir lélegt uppklapp og tóku hið langþráða „Pissing in the Wind“ („bara fyrir ykkur, til að segja takk fyrir. Ohh..ég hata þetta lag!”) Ég var mjög sátt með Badly Drawn Boy, eða allavega þangað til ég sá setlistann hans og áttaði mig á því að létt spjallið hafði neytt hann til að hætta við allavega 4 lög, þar á meðal hið æðislega „You Were Right“. Minna spjall og meira spilerí næst, takk fyrir.

Á heildina litið voru þetta æðislegir tónleikar, ég skil ekki enn hvernig fólk gat sleppt þeim. Ekki láta ykkur detta það aftur í hug – annars er mér að mæta.

34 Athugasemdir

 1. Ari Gunnar · 08/05/2006

  ég held að stór ástæða dræmrar miðasölu á bæði Iggy Pop og Manchester tónleikanna er að stór hluti fólks er í prófum og hefur ekki tíma til þess að standa í þessu tónleikarstússi á meðan. allavega er það ástæðan fyrir því að ég fór á hvoruga tónleikanna.

 2. Árni Viðar · 08/05/2006

  peningar spila sömuleiðis inn í. það er dýrt að fara á hverja tónleikana á fætur öðrum.

  svo er það áhuginn. með fullri virðingu fyrir þessum erlendu böndum er ekkert þeirra alveg brjálæðislega stórt. hvað mig varðar, finnst mér ekkert þeirra neitt voðalega skemmtilegt heldur. þess vegna langaði mig í raun aldrei á þessa tónleika

 3. Fridrik · 08/05/2006

  Eg held ad hatt midaverd se adalmalid, mer finnst half skrytid af pistlahofundi ad skamma Islendinga svona mikid. Ef hun hefur efni a thvi ad vera borga hatt i 7000 kronur fyrir hverja einustu tonleika, tha hlytur hun ad vera vadandi i peningum.

 4. Eiki plögg · 08/05/2006

  Hvaða bull er þetta Friðrik. 2600 krónur er held ég bara það lægsta miðaverð sem hefur verið á tónleika af þessu kaliberi frá upphafi landnáms.

  Venjulega kostar að minnsta kosti helmingi meira að sjá EITT band af svipuð kaliberi. Það kostar t.d. meira en átta þúsund á Roger Waters.

 5. Hildur Maral · 09/05/2006

  Ég veð ekki í peningum, nei, en 2600 krónur hlýtur nú að teljast sanngjarnt miðaverð fyrir 6 hljómsveitir, þar af 3 erlendar.

 6. Fridrik · 09/05/2006

  Algjörlega mín mistök,

  Ég er ekki staddur á Íslandi, en mér var sagt að það kostaði jafn mikið á þessa tónleika eins og hina.

  Tek þetta á mig.

 7. Tolli · 09/05/2006

  Já þetta er ekki mikið verð fyrir svona tónleika. Fólk á að mínu mati að fara að láta reiði sýna í ljós með hátt miðaverð á íslandi og sleppa því að mæta. Þá sjá tónleikahaldarar að þetta gengur ekki lengur. Verð fer ekki niður á meðan aðsóknin er góð ( thats a fact ) En stóran plús fá tónleikahaldarar Manchester tónleikanna og einnig þeir sem eru að taka Heavy Trash með Jon Spencer á Nasa nú í mánuðinum. 4 bönd á þeim tónleikum og aðeins 1 íslenskt. Þetta á aðeins 1800 krónur. Þvílík snilld að þurfa ekki að borga 3000 kall eða meira fyrir þetta. Mæli með meiru af þessu

 8. Árni Viðar · 09/05/2006

  26. og 27. maí munu Mount Eerie (áður The Microphones), Woelv og Micah Blue Smaldone spila hér ásamt Lay Low (26) og Rökkurró (27) og aðgangseyrir er aðeins 700 krónur. Það er fyrir þrjú erlend bönd! Kannski ekki þau allra þekktustu en Microphones gáfu út eina merkustu jaðarplötu síðari ára, sem nefnist Glow Pt. 2 auk fjölda annarra frábæra platna sem hafa fært þeim/honum hálfgerðan költ-status.

  Ef þetta er ekki gott tilboð þá veit ég ekki hvað og þeir sem mæta ekki þurfa annað hvort að hafa mjög góða afsökun eða vera bara póserar dauðans!

 9. Ari · 09/05/2006

  hvar er þetta haldið?

 10. toggipop · 09/05/2006

  ég skil nú ekki dásemdina sem á að hafa verið í gangi á þessum tónleikum. Ég var þarna (á boðsmiða raunar) og mér hreinlega hundleiddist. Það stafar ekki af vanþekkingu minni á böndunum, þar sem ég hef hlustað þónokkuð á þau öll og líkað það bara alveg ágætlega. Mér leiddist í raun það mikið að ég fór áður en badly drawn boy byrjaði. Mér fannst þessir tónleikar bara misheppnaðir, bæði hvað varðar miðasölu og performansinn sjálfan.

  Svo verð ég nú bara að segja að þessi umfjöllun er alveg ægilega kjánalega skrifuð, lyktar af hæpi og gelgjulegri upphafningu ómerkilegra hluta. T.d. sé ég ekki tilganginn með setningum eins og: “Á meðan á flutningi Elbow stóð var Badly Drawn Boy standandi baksviðs, kinkandi samþykkjandi kolli og drekkandi bjór”. Ég bara sé ekki hvernig þessi setning getur átt sér nokkurn annan tilgang en að koma því á framfæri að greinarhöfundur hafi verið baksviðs, sem er nú frekar kjánalegt að grobba sig af. Nú er ég ekki að skrifa þetta til þess að vera leiðinlegur, það þjónar afar litlum tilgangi og gefur mér ekkert kikk. Ég vil bara að þessi síða sé sem allra best (af því mér finnst framtakið gott) og mér leiðist hvað margir pennar síðunnar eiga það til að setja inn tilgangslausar og kjánalegar setningar (eða greinar jafnvel) sem eru í litlu eða engu samræmi við það sem um er fjallað. Ég fæ oft á tilfinninguna að textarnir séu skrifaðir í flýti og ekki lesnir yfir áður en þeir eru birtir, eða þá að sá eða sú sem les þá yfir þori ekki að segja sitt álit (og verði um leið gagnslaus). Mér finnst t.d. alltof mikið um upphrópanir hérna (“Þessir menn eru guðir!”) á kostnað skynsamlegrar umfjallanar sem segir manni raunverulega eitthvað um málið. Því stærri orð sem maður notar, því meiri líkur eru á að fólk hætti að taka mark á þeim. Breska tónlistarpressan er t.d. þekkt fyrir þessa áráttu, að gera menn að guðum eða djöflum eftir veðri og vindum. Enda eru flestir hugsandi menn hættir að taka mark á því apparati.

 11. Hildur Maral · 09/05/2006

  toggipop:

  Leiðinlegt að heyra að þú skemmtir þér ekki vel. Svekkjandi að missa samt af Badly Drawn Boy þar sem hann var sá hressasti af böndunum ásamt Trabant.

  Þú segir:

  “Á meðan á flutningi Elbow stóð var Badly Drawn Boy standandi baksviðs, kinkandi samþykkjandi kolli og drekkandi bjór”. Ég bara sé ekki hvernig þessi setning getur átt sér nokkurn annan tilgang en að koma því á framfæri að greinarhöfundur hafi verið baksviðs, sem er nú frekar kjánalegt að grobba sig af.

  -Greinarhöfundur var staddur í miðri þvögunni, troðningnum og hitanum rétt eins og allir aðrir. Ég sá Badly Drawn Boy tillengdar og þessi setning átti að vera í samræmi við það sem síðar kemur fram í umfjölluninni, að hann hafi verið vel drukkinn. Það hefur greinilega ekki skilað sér nógu vel og biðst ég forláts.

  Annars er mjög hressandi að fá annað álit á tónleikunum. Alltaf gott líka að fá smá neikvæða gagnrýni 🙂

 12. johnny · 10/05/2006

  Það er voða erfitt að mynda stemmningu á tónleikum þar sem flestir komu bara til að forvitnast. Þeir fáu sem borguðu sig inn, og mig grunar að þeir hafi flestir keypt sig inn í hina frábæru stúku, hugsa sig eflaust tvisvar um áður en miðar verða keyptir á næstu tónleika. Gallinn við tónleikahald í ár virðist vera að menn ætli sér að fylla of stór hús með of litlum listamönnum. Eða bjóða upp á fáranlegt miðaverð á litla staði, sbr. Ray Davies( frá 6900-13900 kr) og tónleikana með Supergrass fremsta í flokki (6500 kr. )
  Ef á að halda tónleika í Laugardalshöll verða einfaldlega að vera þar listamenn sem standa undir því að fylla hana af fólki sem áhuga á vera þar. Hljómsveitir sem eru/voru vinsælar eins og t.d. Red hot Chili Peppers, Depeche Mode og System of a Down. Og ef tónleikahaldarar ætla halda áfram að flytja listamenn í eldri kantinum mætti þá ekki biðja um gæðadæmi á borð við Neil Young, Bob Dylan og The Who í stað þess sem nú er í boði.

 13. Árni Viðar · 10/05/2006

  Mount Eerie/Woelv/Micah Blue Smaldone tónleikarnir verða í Kaffi Hljómalind 26.5. kl.20:00 ásamt Lay Low

  og í Gamla Bókasafninu, Hafnarfirði 27.5. kl.20:00 ásamt Rökkurró.

  Annars styð ég það að fá Neil Young hingað: Einir tónleikar og ein sérsýning á Dead Man þar sem meistarinn situr í horninu og spilar undir!

 14. Ragnheiður Hanson · 10/05/2006

  Sælir

  Sem tónleikahaldari langar mér að leggja orð í belg.

  Tónleikamiðar hér á Íslandi eru yfirhöfuð ekki dýrir. Þessi tegund af tónlist er ekki ríksstyrkt eins og td óperan, klassík, listahátíð eða leikhúsin. Allur kostnaður fellur á tónleikahaldara nema að við séum styrkt af fyrirtækjum eins og þessi hátið var af Icelandair og þess vegna var hægt að hafa miðaverðið lágt. Það er mun dýrara að fara á tónleika erlendis þótt allur kostnaður þar sé lægri, td flug, tækjaleiga, auglýsingar ofl. Ef fólk er að mótmæla háum miðaverðum með að mæta ekki þá er það þeim í sjálfsvald sett en það leiðir einungis eitt af sér, það verða ekki haldnir tónleikar hér lengur. Við höldum alltaf miðaverðum í algjöru lágmarki, Iggy Pop og Zappa eru td á 49oo og 59oo, en lægra komust við ekki. Við þurfum td að flytja 20 manns hingað fyrir Zappa, hótel, kostnað ofl en þeir eru 11 á sviðinu. Flestir í tónleikahaldi gera þetta af áhuga og vilja gera vel og auðvitað vonast allir eftir að fá einhver laun fyrir sína vinnu en sannast er að það eru bara örfáir tónleikar sem ganga upp fjárhagslega. Og þegar þið biðjið um artista eins og Neal Young eða RHCP þá eru þeir það dýrir að miðaverð yrði um 15.000kr og þá mundi enginn mæta. Segir sig sjálft.Það helst í hendur að því frægari, því dýrari og fleiri kostnaðarkröfur. Og gerum okkur grein fyrir því að við búum á eyju með mjög fátt fólk og lítinn markað. Það hefur verið ótrúlega metnaðarfullt starf sem tónleikahaldarar hafa unnið á síðustu árum. Fyrir ca 10 árum síðan var stórviðburður ef það voru einir tónleikar á ári. Hugsið málið.

  Eg tek það fram að ég tengist ekki þessum atburði.

  Bestu kveðjur

  Ragnheiður Hanson

 15. Árni Viðar · 11/05/2006

  Ég hef nú töluverða reynslu af innflutningi erlendra banda (m.a. Modest Mouse, Blonde Redhead, Trans Am, Godspeed You Black Emperor!, Low og Bonnie ‘Prince’ Billy) og ég held að staðsetning landsins skipti minnstu máli. Flugleiðir er nefnilega með díl þar sem þú getur millilent frítt og verið hér í 3 daga ef þú ert á leið frá Evrópu til BNA eða öfugt.

  Það sem var dýrast var hins vegar yfirleitt hótelkostnaðurinn auk þess sem stóru böndin vilja alla jafnan meiri pening fyrir að spila og eru oft einhverjar fáránlega kröfur! Gott hjá þeim.

  Ástæðan fyrir að ég get enn þá staðið í smá tónleikastússi (og ekki tekið krónu fyrir) er að í dag gista böndin bara heima hjá mér og þannig þarf ég hvorki að borga gistingu né flugkostnað (Flugleiða-díllinn). Að sjálfsögðu efast ég um að stóru böndin myndu neita að gista í heimahúsi en ef ég á að segja alveg eins og er myndi ég ekki einu sinni hleypa þeim inn til mín! Þau myndu bara sofa út í garði…ef ég væri með svoleiðis!)

  Það er því ekki jafn erfitt og dýrt að segja upp tónleika hér og margur heldur en vissulega fer það eftir stærð og umfangi. Stórtónleikar kosta að sjálfsögðu mikla vinnu og mikil fjárútlát þannig að áhættan er oft stór.

 16. Pétur Valsson · 11/05/2006

  Halújah. og takk fyrir gott framtak, Árni.

  Persónulega myndi ég ekki gráta það þótt aðeins myndi slakna á innflutningi fjörgamalla fyrverandi tónlistarrisa þar sem miðaverð slagar hátt upp í utanlandsferð. Ég hef mjög takmarkaðan áhuga á að borga fleiri þúsund krónur til að sjá Roger Waters, Ray Davis eða syni Zappa! En ég væri alveg til í að borga 15 þúsund til að sjá Tom Waits, sem er dæmi um tónlistarmann af eldri kynslóðinni sem er ENN að gefa út plötur reglulega og bæta við sig. Offramboð undanfarins árs hefur að öllum líkindum valdið því að fólk tímir ekki lengur að borgar fúlgur fjár fyrir hvað sem er. Sú staðreynd að það kostar einungis brot af þessu “venjulega” miðaverði til að sjá Joanna Newsom/Smog, Mt Eerie eða Heavy Trash – sem mega teljast tiltöluega ferskir tónlistarmenn sé miðað við Roger Waters að spila 33 ára gamla plötu sem allir hafa heyrt oft – gerir það að verkum að gömlu jálkarnir eru ekkert sérstaklega fýsilegur kostur.

  Þegar talað er um miðaverð erlendis þá er það upp og ofan, og ekkert endilega alltaf um risaupphæðir að ræða. Ég hef farið á nokkra “stórtónleika” erlendis (t.d. Smashing Pumpkins, Nick Cave&Bad Seeds og Richard Ashcroft) og var miðaverðið í öllum tilfellum á bilinu 2000-3000 kr. !!!

 17. Binni · 11/05/2006

  Talandu um hátt miðaverð þá kostar 6500 kr á Reykjavik Tropic hátíðuna sem er bar ameð meðal þekktum íslenskum böndum, tveim lítið þekktum erlendum böndum og Supergrass.

  Ég myndi alveg borga 2500 kall til að sjá Supergrass en 6500 kr fyrir þessa hátíð er fáránlegt.

 18. Stefan · 11/05/2006

  Já þetta er kanksi svolítið dýrt, 6500 en samt, er fólk ekki að borga 2000 kall inná eitt “ball” með þessum stóru böndum hérna…. Ég verð að segja að ég vill gjarnan henda þessum 1950 kalli í að sjá snillingana í Heavy Trash með Jon spencer í fararbroddi og sjá að auki Powersolo sem mér fannst svakalega góðir á Airwaves plús það að sjá Tremolo Beer Gut og Fræ. Fræ hefur maður ekki séð (fáir hafa séð) og því spennandi. Semsagt niðurstaðan er bara mæta á NASA föstudaginn 26.05 (kvöldið fyrir kostningar) og njóta feskrar tónlistar fyrir lítinn pening…OG ÞAÐ HÉR Á ÍSLANDI

 19. Ragnheiður Hanson · 11/05/2006

  Sælir

  Árni, ég hef mikin áhuga á þessum Flugleiðadíl sem þú talar um. Borgar þú ekki flugið fyrir sveitirnar? Gera þeir það sjálfir? Við höfum aldrei lent í því að sveitirnar borgi sjálfir fyrir flug þanning að sá kostnaður lendir á okkur og þar hefur staðsetning landsins haft mikil áhrif.

  Annað, með miðaverð erlendis. Að sjálfsögðu er mismunandi eftir sveitum, löndum, hvort tónleikarnir eru styrktir eða ekki og margt fleira en yfirleitt eru þeir dýrari en hér. Og ég er alls ekki að gera lítið úr að sumir tónleikar hér í ár eru ansi dýrir og meira en flestir hafa efni á en aðrir eru á alveg eðlilegu verði.

  Kveðjur

  Ragnheiður

 20. Johnny · 11/05/2006

  Ég held að allir skilji það að vera tónleikahaldari á Íslandi sé frekar krefjandi. En það breytir því samt ekki að oft á tíðum er verið að reyna að fylla hús með listamönnum sem engan veginn ráða við það eða rukka verð sem er í engu samhengi við vinsældir viðkomandi. Iggy Pop og Mötorhead eru dæmi um þegar nöfnin eru mun stærri en tónlistin, flestir kannast við þessa listamenn en færri geta nefnt fleiri eitt til tvö lög með þessum aðilum. Og ég er ekki viss um, án þess fullyrða nokkuð um það, að Mötorhead spilar ekki víða sem aðalnúmer í stærri húsum en í Laugardalshöll. Undanfarin ár höfum við verið að fá góðar og vinsælar hljómsveitir sbr. Coldplay, Muse, Franz Ferdinand, The Strokes, Metallica, Duran Duran, Foo Fighters ofl, en í ár virðist gæðin ekki vera þau sömu. Málið snýst kannski ekki um ná í stærstu hljómsveitir í heimi, bara það að séu nógu margir aðdáendur í húsinu að hverju sinni til að viðhalda almennilegri stemmningu. Þess vegna var etv betra að Iggy Pop spilaði í minni sal en að fylla Laugardalshöllina af áhugalausu fólki, þ.e.a.s. betra fyrir áhorfendur en kannski ekki tónleikahaldara.
  Supergrass tónleikarnir eru dæmi um vel heppnaða stærð, 2000 manns. En þá kemur að verðinu á þá tónleika, hversu margir eru það miklir aðdáendur að þeir séu tilbúnir að borga 6500 kr til að komast inn.

  Kannski er málið bara halda fleiri tónleika á borð við Deus og Starsailor, litla tónleika með hljómsveitum sem hafa þó fengið talsverða útvarpsspilun. Og ég vona að þeir tónleikahaldarar sem lesa þetta að haldi ekki að fólk sé vanþakklátt, ástæðan fyrir þessu röfli er eingöngu sú að allir vilja fá sem besta tónleika hér á landi.

 21. Lilja Kristín · 11/05/2006

  Ég veit að ég væri tilbúin að borga 15.000 kall fyrir að sjá Red Hot Chili Peppers, og er ég frekar viss um að það eru fleiri sem væru til í það! 😉
  Ég er einmitt orðin frekar leið á því að sjá bara auglýsta tónleika með einhverjum sem ég hef svosem kannski heyrt um, en ekkert hlustað neitt á, einhverja gamla menn sem voru á hátindi frægðar sinnar árið 1935. Sem ungmenni sem hefur samskipti við önnu ungmenni myndi ég telja réttast að flytja inn vinsæl bönd sem eru stór í dag og eru að gera góða og forvitnilega hluti (The Streets, RHCP og fleiri). Fólk myndi borga mikla peninga fyrir að sjá eitthvað svona ferskt og eitthvað sem meirihluti ungmenna er að hlusta á.

 22. Árni Viðar · 11/05/2006

  til að svara spurningu þinni Ragnheiður þá borga ég aldrei flugið enda lít ég ekki á mig sem tónleikahaldara heldur aðstoða ég bara vini mína (og vina þeirra) í að setja upp tónleika hér á landi.

  Eini kostnaðurinn sem ég legg í tónleika er plaggatagerð…og lækniskostnaður eftir að ég slasa mig við að hengja upp plaggötin í -10° frosti!

  auðvitað þarf bæði stóra og litla tónleika til að mæta þörfum sem flestra tónlistaráhugamanna.

  ástæðan fyrir miklu framboði erlendra banda hér á landi s.l. 2 ár er m.a. góð staða krónunnar gagnvart dollaranum en nú er það að breytast og um leið er hætta á að miðaverð hækki. það ber samt að hafa í huga að fyrir ekki margt löngu nennti enginn að spila hér en nú er ísland alltíeinu orðið voða hipp og kúl (allir trúa á álfa sem búa í jöklum eða goshverum eða eitthvað helv. kjaftæði)

 23. Ragnheiður Hanson · 11/05/2006

  Já, Árni, þá skil ég betur að flugið skiptir ekki máli í þínum kostnaði. heppin ertu því það vegur hátt, flest allir vilja vera á Saga sem við erum að flytja inn.

  Sammála flestu hér fyrir ofan og þetta eru góðir punktar hjá ykkur. En Lilja, hafðu í huga að tónleikar eru ekki bara fyrir ungmenni heldur og vonandi fyrir alla sem hafa áhuga á tónlist eins og Árni bendir á.

  kveðjur

  R

 24. Árni Viðar · 11/05/2006

  já, það er mikið “rokk” að vera á saga class. böndin sem ég set upp tónleika með myndu sætta sig við árabát og sofa glöð á gólfinu heima hjá mér!

  en þetta er alveg rétt. það gleymist stundum að tónlist er fyrir alla! ég heyrði t.d. nokkra gagnrýni á skífuna þegar við lokuðum hljómalind en fannst hún alltaf óréttmæt því skífan sinnir einfaldlega allt öðrum markaði sem á rétt á sér þó ég hafi engan áhuga á honum. sama með tónleika, það verður að bjóða upp á sem fjölbreyttasta flóru. það er síðan undir okkur komið hvort við viljum mæta eða ekki.

  reynslan sýnir samt að ef fólk hefur um tvenna tónleika að velja fer það á hvoruga!

 25. Rakel Mjöll · 11/05/2006

  Hildur, ég er stolt.

 26. Ragnheiður Hanson · 11/05/2006

  Það er ansi gott viðtal við Einar Bárðar í Viðskiptarblaðinu núna um tónleikahald, þess virði að kíkja á það.

  Það var mikil synd þegar Hljómalind lokaði en höfum enn 12 tóna að minnsta kosti.

  Já, tek sko undir það að það er offramboð, þetta mun ekki ganga lengur það er klárt.

  Kveðjur

  R

 27. Sveinn Friðrik Eydal · 12/05/2006

  Góð umræða, mjög gaman að sjá ykkur tónleikahaldara hér á Rjómanum og ykkar sjónarmið.

  Þó að maður fái kannski ekki alltaf uppáhalds böndin sín, og vissulega sé farið að slá í sumt af því sem ratar hingað, verð ég að segja að framboðið síðustu 2-3 ár hefur ekki verið í neinu samhengi við árin þar á undan. Sem er frábært. Algjör sprengja.

  Það er gott að vera tónlistarnörd þessa dagana. Vona að við sjáum fleiri góð bönd á næstunni.

  Kveðja,
  Sveinn Friðrik

  (p.s. ef einhver vill flytja inn Tool, Deftones, Roots, Slipknot, System of a Down og loks plata Belle and Sebastian til Reykjavíkur fær viðkomandi knús að launum 😉

 28. Lilja Kr. · 12/05/2006

  Skrepptu bara á Belle & Sebastian á Borgarfjörð Eystri…ef þau koma…eða er kannski búið að afskrifa það?

 29. Jóhannes · 12/05/2006

  Mér þykja 6.500 krónur ekkert sérstaklega hátt verð fyrir Reykjavík Trópík. Þetta er þriggja daga festival þar sem eitthvað um þrjátíu íslenkar sveitir troða upp, þeirra á meðal bönd sem eiga ekki í erfiðleikum með að rukka 1500 – 2000 krónur inn á NASA á laugardagskvöldi.

  Svo eru Supergrass, ESG, Girls in Hawaii, Ladytron og Kid Carpet bara bónus, að mínu mati.

 30. Johnny · 12/05/2006

  Þó að framboðið hafi verið mikið undanfarið þá er ekki hægt að segja að hlutirnir hafi verið vonlausir áður. Gott dæmi er t.d. árið 1996 þegar Pulp, David Bowie, The Cardigans, Super Furry Animals og jafnvel Blur spiluðu hér (ekki viss) auk þess sem Björk hélt tónleika í Laugardalshöll. Mestu vonbrigðin í ár eru þau við skulum ekki fá betri listamenn. Eftir síðustu ár þar sem góðar og oft á tíðum stórar hljómsveitur komu hingað, hélt maður að ísinn væri brotinn og við þyrftum ekki lengur að sætta okkur við einhverja aðila sem höfðu ekkert betra að gera en að spila á Íslandi. En því miður

 31. Hrafnhildur · 23/05/2006

  Mér finnst miðaverðið á Reykjavík Trópík alls ekki hátt! Eins og komið hefur fram hér að ofan er verið að tala um þriggja daga tónleika, allar helstu hljómsveitir landsins og frábærar erlendar hljómsveitir líka. Er þetta ekki það verð sem fólk hefur verið að borga fyrir stutta tónleika með einni hljómsveit?
  Ég reyndar keypti minn miða með KBbankakorti og þá kostar þetta bara 4500 krónur. Finnst ykkur það of mikið fyrir alla þessa dagskrá?

 32. Eiki plögg · 24/05/2006

  ef þetta síðasta komment hljómar ekki eins og auglýsing að þá veit ég ekki hvað.

 33. Stefán · 24/05/2006

  Já það er greinilegt að mismunadi skoðanir eru á hverjir eigi að koma og hvað það á að kosta… Það er misjafnt að sjálfsögðu hvað þetta kostar að flytja inn svona… svo er það bara spurningin um að halda öðrum kostnaði niðri ef einhverjir liðir verða of háir. Flug er eitthvað sem erfitt er að sleppa við en góður díll í þeim efnum hjálpar. Plakkatagerð er ekki mikill kostnaður og gisting er ekki stórt vandamál fyrir minni nöfn eða ný nöfn í tónlistinni. Veit það að ef það er verið að taka risa bönd þá vilja þeir margir fá hótel og aðeins það besta…Þá segir maður bara ok bless við þá… þeir sem vilja það eru þessir gæjar sem eru að pressa verðin á miðum hérna í 6000 kallinn.. Bara að halda tónleika fyrir 600 glaða tónleikagesti á undir 2000 kall er málið.. MEIRA AF ÞVÍ TAKK

 34. Kári Sighvatsson · 28/07/2006

  Mér fannst þetta misheppnaðir tónleikar, böndin ekki að meika það og það var engin stemning í salnum. Mér leiddist.

Leave a Reply